Óvelkomnir gestir í Reykjavík

Óvelkomnir gestir í Reykjavík

eftir Elías Davíðsson
DV, 30 ágúst 1996


Á undanförnum mánuðum hefur svonefnd varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins skipulagt með leynd heimsókn 17 herskipa til Reykjavíkur.

Ekki venjulegir ferðamenn

Samkvæmt frétt í Mbl. þann 11. ágúst eiga herskipin að koma í tveim áföngum, sjö skip þann 21. ágúst og tíu skip sex dögum síðar, með alls um 4800 hermenn um borð.

Fréttinni fylgir að verslunareigendur á Laugeveginum hafi verið beðnir um að lengja afgreiðslutíma verslana sinna fram til miðnættis meðan hermennirnir eru í bænum. Tilkynnt var að SVR yrði með sérstakar strætisvagnaferðir milli Sundahafnar og miðbæjar fyrir hermennina.

Það er greinilegt markmið skipuleggjenda að sviðsetja þennan atburð eins og um vær að ræða sakleysislega heimsókn skemmtiferðaskipa. Það var líka klókt hjá þeim að fá kaupmenn til liðs við sig. Margur verður af aurum api.

Hermennirnir eru þó ekki venjulegir ferðamenn. Þeir heimsækja Reykjavík samkvæmt skipun yfirboðara sinna og í samræmi við tiltekin markmið sem ekki eru gefin upp. Þeir hafa ekki sjálfir valið að koma til Íslands og við höfum ekki boðið þeim hingað. Samkvæmt sömu frétt eiga hermennirnir að skilja einkennisbúninga sína eftir um borð og ganga um bæinn í dulargervi, þ.e. í borgaralegum fötum, til að villa á sér heimildir.

Því er haldið fram að hér sé um vináttuheimsókn að ræða. En góðir vinir hafa ekki fyrir venju að koma í heimsókn með drápstól í farteskinu, þótt þeir kynnu að geyma þau í forstofunni. Að kalla komu herskipa vináttuheimsókn er móðgun við alla sem vita hvað raunveruleg vinátta er.

Er þetta framtíðin?

Í raun eru þjóðir aldrei spurðar þegar um samskipti stjórnvalda þeirra við NATO er að ræða. Þau mál eru iðulega afgreidd af huldumönnum sem enginn hefur kosið og fáir vita hverjir eru. Allt sem varðar her og vígbúnað er í eðli sínu andstætt lýðræði og opnu samfélagi. Þau mál þola hvorki birtu né heiðarleika.

Hermennirnir sem hingað koma eru ekki gestir Reykvíkinga. Mér vitanlega hafa borgarbúar aldrei veitt borgaryfirvöldum umboð til að láta borgarstofnanir þjónusta erlend herskip og breiða út rauð dregilinn fyrir hermenn. Eru Íslendingar að veita einstaklingum gestrisni sem tóku þátt í stríðsglæpum í Panama (1990) eða í Írak (1991)? Borgarbúar eiga rétt á að fá skýringar borgaryfirvalda á þessari þjónkun. Er þetta gert með vilja og samþykkt borgarstjórnar?

Köllum hlutina réttu nafni. NATO er hernaðarbandalag. Það er ólýðræðislegur og lokaður klúbbur sem þjónar fyrst og fremst hergagnaframleiðendum. Til þess að vopnin seljist veerða því þjóðir að tortryggja hver aðra, vopnbúast og að lokum berjast.  Þegar einn óvinur hverfur er annar særður fram. Bandalagið ógnar utanstandandi ríkjum með kjarnorkuvopnum sínum. Herir þess hafa verið notaðir til að drepa óbreytta borgara. Aðeins þeir sem vilja viðhalda ríkjandi ranglæti í heiminum þurfa á slíkum herjum að halda, ekki við Íslendingar.  Heimsfriður byggist ekki á hernaði og ógnun heldur á réttlæti, en það er hvorki í verkahring NATO að stuðla að jöfnuði í heiminum né að tryggja þjóðum brauð og vinnu.

Undir forystu Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar er nú verið að spinna í kyrrþey þéttriðinn vef tengsla milli íslenskra stofnana og skrifsstofa hernaðarbandalagsins í Brussel og draga lævíst úr eðlislægri andstöðu ungs fólks gegn hernaðarhyggju. Er þetta framtíðin sem menn sækjast eftir?

Endir

Comments are closed.