Er sannlíkið sagna best ?
eftir Ólaf Hannibalsson
Fréttablaðið, 25. janúar 2006-01-25
Fjölmiðlar draga ekki upp rétta mynd, sagði Halldór Ásgrímsson í viðtali við Blaðið fyrir skömmu. Það má til sanns vegar færa. Fjölmiðlum er um margt áfátt, þeir nálgast fréttir frá mismunandi sjónarmiðum, leggja áherslu á eitt og sleppa öðru. Seint mun finnast sá fjölmiðill sem endurspeglar ástand heimsins eins og það er eða kann að vera á hverjum tíma. En það sem máli skiptir er að menn geti treyst eftir fremsta megni að halla ekki réttu máli um staðreyndir, sveigja til sannleikann af hollustu við einhvern málstað eða persónu, fegra eitt og sverta annað, ýkja eða draga úr því eftir því sem hentar valdhöfum eða einhverjum öðrum hagsmunahópum.
Það var hins vegar ljóst af samhenginu, að Halldór Ásgrímsson átti við þetta, heldur hið gagnstæða: Fjölmiðlarnir draga ekki upp þá ,,réttu mynd af veruleikanum eins og hann blasir við af tröppum stjórnarráðsins. Stjórnmálaforingjar vilja gjarnan hafa einhuga söfnuð að baki sér. Þeir leitast því jafnan við að gera flokka sína að pólítiskum sértrúarflokkum. Þeir sjá eftir þeim góðu gömlu dögum, þegar flokksmálgögnin birtu fylgismönnunum ,,línuna dag hvern og heimssýn manna fór eftir flokksaðild og dagblaðaáskrift. Eftirsjáin er ekta en sá heimur er horfinn sem betur fer.
Þá er leitað annarra ráða. Undanfarinn áratug höfum við séð íslenska valdhafa í stöðugri baráttu um yfirráð yfir fjölmiðlum. Þeir hafa reynt að treysta ítök sín á ríkisfjölmiðlunum og varla liður sá dagur að þeir kvarti ekki hástöfum yfir efnistökum fjölmiðla og einstakra fjölmiðlamanna egna frétta af stefnumálum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Öll gagnrýni er vægast sagt tekin illa upp og þeir se þá iðju stunda stimplaðir illviljaðir, óvinveittir og hlutdrægir. Í því ljósi verðum við að skoða þá baráttu sem stjórnvöld hafa átt í um yfirráð yfir Stöð tvö allt frá því hún komst á laggirnar og síðar yfir þeim miðlum sem ráðherrar og stjórnmálaforingjar kalla ,,baugsmiðla. Hannes Hólmsteinn hefur ákallað Jón Ásgeir um samstöðu allra kapítalista, sem eðli málsins samkvæmt eigi að berjast í einu liði og Kári Stefánsson harmað opinberlega að nefndur Jón Ásgeir hafi ekki lagst á eina sveif með Davíð Oddssyni; eða hversu miklu þeir hefðu ekki fengið áorkað ef þeir berðust saman í liði? Í orði kveðnu er baráttan háð gegn ,,samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðla en í raun stendur hún gegn fjölbreytni í skoðunum fyrir samþjöppun einsleitra hugmynda.
Upp er runnin öld spunameistaranna, sem öllum brögðum beita til að fá fjölmiðla til að gefa sefnu og aðgerðum valdhafanna forgang, en þagga niður í gagnrýnisröddunum. Aðdragandi Íraksstríðsins er glöggur vitnisburður um vel heppnaða fjölmiðlaherferð bandarískra valdhafa. Með klókindalegum tilvísunum til leynilegrar ,,vitneskju helstu njósnastofnana var harðstjórinn Saddam Hussein tengdur al-Kaída, sem aftur tengdist hryðjuverkaárásunum á Tvíburaturnana, látið að því liggja að Írak byggi yfir ógnarvopnum og aðeins tímaspursmál hvernær gorkúluský atómsprengjunnar teygðu sig til himins yfir stórborgir hins vestræna heims. Jafnvel fjölmiðlar með sjálfstæðan metnað féllu fyrir þessu og áttu þannig þátt í þvi að snúa almenningsálitinu í Bandaríkjunum með innrás í Írak, þótt þeir hafi margir hverjir nú beðið lesendur sína afsökunar á trúgirni sinni.
Við lifum á öld þar sem mörk veruleika og skáldskapar dofna og verða æ óljósari í gerviheimi tölvunnar og veruleikaþáttum sjónvarpsins. Spunameistarar valdhafanna ganga á þetta lag og sjá okkur fyrir frásögnum, sem eru einfaldari, trúverðugri og virðast rökréttari en ískaldur veruleikinn, sem oft birtist okkur sem samhengislaus atburðarás, sem erfitt er að átta sig á. Margblekktir amerískir blaðamenn hafa skilið þetta og einn þeirra bjó til á síðasta ári nýyrðið ,,truthiness yfir það fyrirbæri þegar eftirlíking spunameistaranna á sannleikanum verður jafnvel trúverðugri en raunsönn frásögn. Á íslensku mætti kalla þetta ,,sannlika, orð sem líkist ,,sannleika svo mjög að auðvelt væri að rugla hugtökunum saman, svo sem einmitt er ætlan spunameistaranna. Kannske væri þó réttara að nota hvorugkynsorðið ,,sannlíki yfir fyrirbærið: Líkingin við smjörlíkið er svo auðsæ að við áttum okkur strax á því að sitt er hvað sannlíki og sannleiki. Það er líka eins gott, ef okkur hugnast ekki að það sé öld sannlíkisins, sem nýgengin er í garð.