Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins um sannanir v. 11. september 2001 og svarið

Elías Davíðsson
Hörpugata 14
101 Reykjavík
S. 552-6444

Reykjavík, 4 október 2004

Utanríkisráðuneytið
Bræðraborgarstíg
Reykjavík

Þann 3. október 2001 sagði þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson, í ræðu á Alþingi um fjöldamorðin í Bandaríkjunum 11. september 2001:

„Á ráðsfundi í Atlantshafsbandalaginu í gær lögðu Bandaríkjamenn fram gögn um að árásirnar voru skipulagðar af Al Qaeda með vitund og vilja [Osama] bin Ladens“

Ennfremur sagði aðalritari NATÓ, Lávarður Robertson í fréttatilkynningu bandalagsins frá 2. október 2001:

„We know that the individuals who carried out these attacks were part of the world-wide terrorist network of Al-Qaida, headed by Osama bin-Laden and his key lieutnants and protected by the Taleban.“

Lávarður Robertson sagði einnig að fulltrúar Bandaríkjanna áttu fund með fulltrúum aðildarríkja NATÓ í höfuðborgum bandalagsins, þ.e.a.s einnig í Reykjavík, þar sem þeir lögðu fram sannanir um ásakanir sínar.

Á grundvelli þeirra meintu sannana sem lagðar voru fram á ráðsfundi NATÓ og við ráðuneytið í Reykjavík, töldu aðildarríki bandalagsins að árásunum hafi verið stjórnað frá ríki utan bandalagsins og véku þess vegna að 5. grein í sáttmála bandalagsins um samábyrgð ríkja bandalagsins.

Sú ákvörðun sem var tekin, m.a. af fulltrúum Íslands á ráðsfundi Atlantshafsbandalagsins, var byggð m.a. á þeirri fullyrðingu Bandaríkjastjórnar að hinir meintu flugræningjar þann 11. september 2001 hafi verið meðlimir Al Qaeda.

Það eru þrjú ár liðin frá árásunum 11. september en bandarísk stjórnvöld hafa ekki enn birt nein sönnunargögn um að meðlimir Al Qaeda hafi rænt flugvélum og flogið þeim á mannvirkin í Bandaríkjunum (með þeim hrikalegum afleiðingum sem af því varð).  Á farþegalistum sem flugfélögin létu í té við fjölmiðla eftir 11. september 2001 og birtir voru í víðlesnum fjölmiðlum, s.s. CNN, koma engin arabísk nöfn fyrir.

Þar sem Ísland hefur gerst aðili að ofangreindri ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að saka Al Qaeda og Osama bin Laden um að standa að árásunum 11. september 2001, óskar undirritaður hérmeð eftir því að ráðuneytið leggi fram sannanir um að meðlimir Al Qaeda hafi verið farþegar í þeim flugvélum sem flogið var á turnana í New York, á Pentagon í Washington og í flugvélinni sem hrapaði við Shanksville í Pennsýlvaníu þann dag. Flugnúmerin eru eftirfarandi:

American Airlines 11 (lagði frá Logan, Boston)
American Airlines 77 (lagði frá Dulles, Wasington)
United Airlines 93 (lagði frá New Jersey)
United Airlines 175 (lagði frá Logan, Boston)

 

Virðingarfyllst,

Elias Davíðsson

 

 

Utanríkisráðuneytið
Rauðárastígur 25, 150 Reykjavík

Hr. Elías Davíðsson
Hörpugötu 14
101 Reykjavík

Reykjavík 18. febrúar 2005
Tilvísun: UTN04100056/09.F.020

Vísað er til beiðni yðar, dags. 4. október sl., um aðgang að gögnum er lögð voru fram á ráðsfundi í Atlantshafsbandalaginu 2. október 2001 og sýni fram á að tengsl Al-Kaida við hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september s.á. (sic)

Á grundvelli skuldbindinga, er leiða af aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, og varða leynd yfir gögnum er þaðan stafa, er ekki unnt að verða við beiðni yðar. Jafnvel þótt umbeðin gögn falli því utan við gildissvið upplýsingalaga, sbr. síðari málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 56/1996, myndi aðgangur að þeim jafnframt vera takmarkaður á grundvelli 1. og 2. tölul. 6. gr. þeirra laga.

Úrlausn ráðuneytisins verður ekki rökstudd frekar, sbr. 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en að því marki sem upplýsingalög verða lögð henni til grundvallar er unnt að bera hana undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá birtingu tilkynningar þessarar.

F.h.r.

(ólæsileg undirskrift)

 

 

Comments are closed.