Morgunblaðið heiðrar Shamir

Morgunblaðið heiðrar Shamir

eftir Elías Davíðsson
Tíminn, 1. ágúst 1990

Sunnudaginn 15. júlí sl. birti Mbl. tveggja síðna einkaviðtal við forsætisráðherra Ísraels, Yitzhak Shamir. Yitzhak_Shamir_1988Það er athyglisvert að ritstjórar útbreiddasta dagblaðs á Íslandi skuli leggja fé og vinnu í að heiðra ótíndan glæpamann og stuðla að vinsamlegri ímynd hans meðal Íslendinga.

Það eru þrenns konar þagnir, sem einkenna viðtalið: Í fyrsta lagi er ekki greint frá nafni blaðamannsins, sem átti viðtalið; í öðru lagi er þagað vandlega yfir ferli mannsins og um aðild hans að margvíslegum hryðjuverkum og stríðsglæpum; í þriðja lagi er þagað um andstöðu mannsins við alþjóðalög, alþjóðasamninga, ályktanir Sameinuðu þjóðanna og grundvallarreglur siðferðis, sem eru sameign allra trúarbragða.

Þótt ljóst sé af eðli spurninganna og af því sem ekki var spurt um, að markmið Mbl. hafi verið að auka veg og virðingu Shamirs á Íslandi, liggur ekki ljóst fyrir, hver hafi átt frumkvæði að viðtalinu. Hvers vegna er þagað yfir nafni blaðamannsins og hvaða hag sjá ritstjórar Mbl. sér í því að reka erindi glæpamanns á Íslandi?

Í þessari grein mun ég reyna að fylla eilítið í eyðurnar, sem Mbl. skildi eftir, og lýsa í stuttu máli lífsferli Shamirs, aðild hans að glæpum og afstöðu hans til friðar og réttlætis.

Shamir fæddist í Póllandi árið 1915. Hann kom tvítugur til Palestínu þar sem hann hóf laganám en hætti því fljótt til þess að helga sig þátttöku í hryðjuverkasamtökunum IRGÚN.  Hann byrjaði þegar árið 1936 að taka þátt í undirbúningi hernaðarsamtaka í Tel Aviv. Fátt er vitað um þetta tímabil, nema að hann og vinur hans, 15 ára gamall, hafi særst þegar þeir ætluðu árið 1938 að sprengja upp innheimtukofa annarra síonistasamtaka. Hann hóf því glæpaferil sinn með því að beita aðra gyðinga ofbeldi – – táknræn byrjun fyrir mann sem er að leiða þjóð sína á braut kynþáttaofstækis og sjálfstortímingar.

Aðild Shamir að hryðjuverkasamtöknum LEHI

Um 1940 sagði Abraham nokkur Stern sig úr IRGÚN-samtökunum og stofnaði samtökin LEHI (Lohamei Herút Jisrael), sem gengu einnig undir nafninu Sterngengið. Stern þótti IRGÚN ekki nógu róttæk samtök. Stern hafði dálæti á Mussolini og vildi vinna að stofnun þjóðernissinnaðs gyðingaríkis á fasískum grunni. Landamæri þessa ríkis áttu að ná frá Nílarfljóti í Egyptalandi til Efraárinnar í Írak. Íbúa þessa stóra svæðis, sem ekki voru gyðingar (þ.e. 99% íbúanna) átti að uppræta til að rýma fyrir aðfluttum gyðingum. Þegar þeir væru búnir að koma upp ríki sínu, áttu gyðingar svo að endurreisa musteri sitt. Í samræmi við þessar kenningar, buðu samtökin Nasistaþýskalandi upp á samvinnu í stríðinu gegn Bretum og unnu að stofnun bandalags þjóðernissinnaðra ríkja undir forystu nasista. Samtökin sendu sérstakan erindreka til fulltrúa Nasistaþýskalands í Tyrklandi með skriflegt erindi þar að lútandi. Þar var m.a. vitnað til velþóknunar nasista í garð síonista og til aðskilnaðarstefnu gyðinga. Erindið fannst eftir stríðslok og var birt á ensku í bókinni The Iron Wall eftir Leni Brenner (London, 1984).

Það var ekki fyrr en árið 1983 að blaðamönnum tókst að fá Shamir til að svara spurningum um þetta tímabil. Í viðtali við ísraelska dagblaðið Yediot Aharonot í október 1983, sagði hann:

“Jú, það var ætlunin að leita til Ítaliu [undir forystu Mussolinis] um aðstoð og taka upp samband við Þýskaland [undir forystu Hitlers] með það fyrir augum að liðka fyrir miklum flutningum á gyðingum. Ég var á móti þessi en gekk í LEHI eftir að hugmyndirnar voru lagðar á hilluna.”

Þótt menn gefi sér það, að Shamir segi rétt frá, þá hlýtur þó sú staðreynd að vekja athygli, að núverandi forsætisráðherra Ísraels hafi talið það í lagi að ganga til liðs við samtök sem vildu vinna með Nasistaþýskalandi, löngu eftir að þau vissu af ofsóknum nasista gegn gyðingum. En Shamir laug. Það liggur nefnilega fyrir, að Shamir hafi þegar verið virkur félagi í LEHI þegar samtökin sendu erindreka til fulltrúa Nasistaþýskalands með beiðni um samvinnu. Ennfremur var erindið ekki fyrst og fremst miðað við að “frelsa gyðinga” úr klóm nasista, heldur að efla samvinnu við nasista á hugmyndafræðilegum, pólítiskum og hernaðarlegum grunni. Höfuðóvinur LEHI á þessum tíma voru Bretar, ekki nasistar. Helför nasista gegn gyðingum var ekki efst á dagskrá samtakanna. Þau töldu þjóðernisstefnu síonista standa ofar öryggi gyðinga í Evrópu. Þau litu á andgyðingleg öfl í Evrópu sem bandamenn, ekki sem óvini, því gyðingaofsóknir juku á straum innflytjenda til Palestínu og efldu baráttuna fyrir stofnun gyðingaríkis á landi Palestínumanna. Skrif þeirra frá þessum árum og fram til þessa dags, sanna þessi orð.

Frá því 1941 stóðu samtökin LEHI fyrir árásum á breska embættismenn í Palestínu. Shamir var þá handtekinn en honum tókst að flýja 1. september 1942.  Samfangi hans Giladi ákvað að samtökin ættu einnig að ráða af dögum leiðtoga [hófsamra] síonista, s.s. Ben Gurion. Shamir taldi slíkt hættulegt og ákvað því upp á eigin spýtur að láta ráða vin sinn, Giladi, af dögum sem og var gert.

Árið 1944 stóðu samtökin fyrir morðinu í Kairó á fulltrúa Churchills í Austurlöndum nær, Moyne lávarði. Shamir skipulagði morðið. Samtökin reyndu að veikja breska herinn, ekki aðeins í Palestínu, heldur allsstaðar. Með morðum á breskum embættismönnum drógu þeir úr samúð Evrópumanna með gyðingum, einmitt á þeim tímum, þegar morðvél nasista gekk með fullum afköstum.

Árið 1946 var Shamir aftur handtekinn í Tel Aviv. Samtök hans og IRGÚN höfðu þá sprengt upp King David hótelið í Jerúsalem. Tugir óbreyttra borgara dóu í sprengingunni. Breska lögreglan flutti hann í nauðungarbúðir í Erítreu.

Hann flúði þaðan og komst að lokum tilbaka til Palestínu eftir að búið var að stofna Ísraelsríki. Samtök hans, LEHI, höfðu þá í millitíðinni staðið fyrir hinu illræmda blóðbaði á arabískum íbúum í Deir-Jassin. Menahem Begin sagði síðar, að án blóðbaðsins í Deir-Jassin hefði Ísraelsríki ekki komist á laggirnar. Ástæðan er sú, að hundruð þúsunda Palestínuaraba flúðu skelfingu lostnir frá heimilum sínum af ótta við að verða fyrir barðinu á slíkum árásum. Öll hryðjuverkasamtök gyðinga, LEHI, IRGÚN og HAGANA, sáu um að magna skelfinguna og beittu hótunum og valdi til að flæma sem flesta Palestínuaraba burt. Aðeins þessi fjöldaflótti gerði síonistum kleift að lýsa yfir stofnun sértrúarríkis gyðinga á rústum palestínskra þorpa.

Meint aðild Shamirs að morðinu á sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna

Þann 17. september 1948 var greifinn Folke Bernadotte ráðinn af dögum í Jerúsalem. Hann hafði verið sérlegur sáttasemjari Sameinuðu þjóðanna. Bernadotte hafði þá lagt áherslu á, að Ísrael bæri að virða rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til heimila sinna, í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Heimurinn allur fordæmdi verknaðinn, einnig Ben-Gurion. Shamir og vinir hans urðu að fela sig. Sá sem framdi morðið, Jehoshua Cohen að nafni, viðurkenndi það mörgum árum síðar en var ekki dreginn fyrir rétt. Hann varð síðar meir einn nánasti vinur Ben-Gurions. Ísraelskir fræðimenn sem rannsakað hafa málið, t.d. dr. Amitsur Ilan og Benny Morris, telja víst að Shamir hafi skipulagt morðið á Bernadotte. Þetta er einnig niðurstaða sænskra fræðimanna (en Bernadotte var Svíi).

Shamir veitir leyniþjónustunni forstöðu

Árið 1955 heimilaði ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Ísrael að fyrrverandi meðlimir LEHI og IRGUN gætu tekið til starfa í ísraelsku leyniþjónustunni, MOSSAD: Shamir gekk í lið við þjónustuna og veitti henni forstöðu fram til 1965.  Á þessu tímabili stóð leyniþjónustan að ýmsum aðgerðum á erlendri grund, t.d. gegn þýskum tæknimönnum sem störfuðu í Egyptalandi og er talið að hún hafi sent þeim sprengjur í pósti.

Hryðjuverk ísraelsku leyniþjónustunnar gegn palestínskum menntamönnum og leiðtogum á erlendri grund voru framin seinna, þ.e. eftir að Shamir var hættur starfi sínu í Mossad.

Stjórnmálaferill Shamirs og afstaða hans til Palestínumálsins

Shamir gekk í Herútflokkinn árið 1970 og var enn á 27. sæti á listanum í kosningunum árið 1973. En eftir að hann var kosinn til þings (Knesset) jókst frami hans og var hann kosinn formaður flokksins árið 1975. Árið 1980 tók hann við af Moshe Dayan sem utanríkisráðherra. Þegar Ísraelsríki réðst inn í Líbanon árið 1982, var Shamir ráðherra í ríkisstjórninni. Hann mælti með innrásinni og var því samábyrgur öllu því sem þar fór fram, þ.m.t. fjöldamorðum í flóttamannabúðunum Sabra og Shatila og margra vikna loftárásum á borgir, þorp og flóttamannabúðir. Fjöldi þeirra sem létu lífið í innrásinni er talinn um 30.000 manns, þeirra á meðal margir landar Shamirs.

Þegar Shamir átti að taka við af Menahem Begin sem forsætisráðherra, sendu samtök andfasiskra andófsmanna og fórnarlamba nasismans í Ísrael skeyti til forsetans, Haim Herzog, þess efnis að manni “sem ætlaði að koma á samvinnu við nasistastjórnina” ætti ekki að leyfast að taka við embætti forsætisráðherra.  Viðbrögð voru engin. Verkamannaflokkurinn þagði þunnu hljóði og samþykkti Shamir sem forsætisráðherra þjóðstjórnar.

Vestrænir fjölmiðlar eru iðnir við að útbreiða vanþekkingu um afstöðu ísraelskra stjórnvalda til deilunnar við Palestínumenn. Það er fátítt að afstaða þeirra sé borin saman við þjóðaréttinn eða við ályktanir Sameinuðu þjóðanna, sem flestar þjóðir styðja. Þó er þetta hinn eini lagalegi grundvöllur sem opnar möguleika á friðsamlegri lausn deilunnar.

Sé virðing stjórnmálamanna fyrir þjóðarétti, alþjóðasamningum, drengskap og mannréttindum notuð sem mælikvarði til að úrskurða hvort þeir eigi heima í siðaðra manna tölu, þá á Shamir frekar heima með Idi Amin, Ceauscescu og Pinochet.

Shamir er mótfallinn friðsamlegri lausn deilunnar við Palestínumenn. Í hans augum byggist friður á afneitun allra þjóðréttinda Palestínumanna og á áframhaldandi aðskilnaðarstefnu í Ísrael. […] Ennþá fær hann vissan stuðning frá Bandaríkjunum, sem gerir honum kleift að sýna kokhreysti. Því miður gera alltof fáir menn sér far um að bera saman síðustu stjórnmálaályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (nr. 44/42 frá 6. desember 1989) sem naut fylgis næstum allra ríkja heims (með 3 ríkjum á móti) við yfirlýsta stjórnarstefnu Shamirs. Morgunblaðið hefur ekki gaumgæft stefnu Shamirs á grundvelli þjóðaréttar og alþjóðlegra ályktana. Blaðamaður Mbl. spyr ekki einu sinni forsætisráðherra Ísraels hvað honum finnist um einróma ályktun Alþingis Íslendinga frá því í fyrra, er varðar sérstaklega deilu Ísraels og Palestínumanna, en sú ályktun stangast í grundvallaratriðum á við stefnu Ísraelsríkis. Það hefði því verið afar fróðlegt að fá Shamir til að hirta opinberlega íslenska alþingismenn fyrir “vankunnáttu og gyðingahatur”.

Shamir og stríðsglæpir

Hugtakið “stríðsglæpir” er lagalegt hugtak. Það er notað um athæfi, sem er stranglega bannað í þjóðarétti, einkum í Genfarsamningunum svonefndu. Genfarsamningarnir voru undirritaðir árið 1949 af flestum þjóðum til að tryggja öryggi óbreyttra borgara, fanga og sjúkra á ófriðartímum. Þjáningar óbreyttra borgara í heimstyrjöldinni síðari voru hvati að þessum samningum. Genfarsamningarnir koma ekki í stað Mannréttindasáttmála S.Þ. Þeim er aðeins ætlað að tryggja lámarks mannréttindi undir óvenjulegum kringumstæðum. Brot á Genfarsamningunum eru ekki réttlætanleg undir neinum kringumstæðum. Þau eru skilgreind sem glæpir gegn mannkyninu öllu. Alvarleg brot á Genfarsamningunum eru kölluð “stríðsglæpir“. Þess vegna voru sett ákvæði í Genfarsamningunum um skyldu allra aðildarríkja samninganna til að tryggja að þeir verði virtir bæði heima fyrir og alls staðar í heiminum. Það er einnig skylda aðildarríkja að löggilda samninga í heimalöggjöf sinni og að stefna mönnum fyrir rétt,  sem hafa gerst sekir um alvarleg brot á samningunum, án tilits til þjóðernis og þess hvar brotin voru framin. Lögsaga samninganna er því yfirþjóðleg.

Það leikur enginn vafi á því, að Yitzhak Shamir, sem forsætisráðherra, beri ábyrgð á alvarlegum brotum gegn IV. Genfarsamningunum, sem ríkisstjórn hans hefur latið fremja eða látið viðgangast. Þessi alverlegu brot eru m.a. þau að drepa óbreytta og varnarlausa borgara, reka íbúa hertekinna svæða í útlegð, refsa heilum fjölskyldum eða heilum byggðalögum fyrir meint athæfi eins manns og pynta fanga. Öll helstu samtök um mannréttindi í heiminum, Amnesty International og Alþjóða Rauði krossinn, eru sammála um að ríkisstjórn beri ábyrgð á gerðum hermanna sinna gegn óbreyttum borgurum á herteknu svæðunum og að ofangreint athæfi sé skýlaust brot á IV. Genfarsamningunum. Þetta er einnig skilningur yfirgnæfandi meirihluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Það er skylda íslenskra stjórnvalda að löggilda Genfarsamningana [ath. árið 2008 er ekki enn búið að löggilda þá]. Það er ennfremur skylda þeirra, sem og annarra aðildarríkja Genfarsamninganna, að stefna mönnum á borð við Yitzhak Shamir fyrir rétt, hafi Ísraelsríki ekki gert það. Það er því aumt að vita til þess að íslensk stjórnvöld hafi hunsað skuldbindingar sínar gagnvart þessum alþjóðasamningum, sem eiga að tryggja mannréttindi, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Alþjóðanefndar Rauða krossins. Hvort um leti eða pólítiskt hugleysi er að ræða, er látið milli hluta liggja.

En það er enn sorglegra að verða vitni að því að öflugasta dagblað á Íslandi skuli þóknast slíkum manni, sem með ofstæki sínu leiðir þjóð sína, nágrannaþjóðir og allan heiminn fram að barmi heimstyrjaldar. Ritstjórar Morgunblaðsins ættu að blygðast sín fyrir þekkingarleysi sitt og undirlægjuhátt og reyna að bæta ráð sitt.

Hr. ritstjóri, Ingvar Gíslason

Um leið og ég þakka Tímanum fyrir birtingu Opins bréfs til utanríkisráðherra fyrir nokkrum mánuðum, sendi ég þér meðfylgjandi grein sem ég skrifaði til að bregðast við einkaviðtali Mbl. við Y. Shamir, forsætisráðherra Ísraels.

Það hefði verið eðlilegt að ég fengi að birta þessa grein þar í blaði. En eins og þér er kunnugt um, hafa ritstjórar Mbl. sett ritbann á skrif mín og hefur ritbannið verið í gildi í um 9 ára skeið. Mér þætti vænt um, ef Tíminn gæti minnst á þetta ritbann, a.m.k. sem athugasemd við grein þessa, t.d. á þessa leið:

Með eftirfarandi grein bregst höfundur við efni sem birtist í Morgunblaðinu. Eðlilegt hefði verið að birta hana í því blaði, en úr því gat ekki orðið. Árið 1981 setti ritstjórn Mbl. algert og fordæmislaust bann á skrif undirritaðs og hefur það verið staðfest bréflega í ár.  Undirritaður þakkar ristjóra Tímans fyrir að birta þess greina og styðja þannig tjárningarfrelsið, sem ritstjórar Mbl. virðast ekki þola.

Með kveðjum og þökkum,

Elías Davíðsson,
Skólastjóri

Comments are closed.