Það er refsivert að valda dauða 600.000 barna (grein)
Það er refsivert að valda dauða 600.000 barna
Elías Davíðsson, 12. júní 1997
Eftirfarandi grein var send Morgunblaðinu til birtingar ásamt meðfylgjadi bréfi:
Hr. ritstjóri
Morgunblaðið
Reykjavík
Hér með fylgir grein sem mér þætti vænt að Morgunblaðið myndi birta, ef unnt er, seinni part þessa mánaðar. Ég yrði yður þakklátur að láta mig fljótlega vita hvort úr birtingu þessarar greinar verði, svo ég hafi ráðrúm til að leita annarra ráða ef þér hafnið biritingu hennar.
Verði eftirfarandi grein birt í Morgunblaðinu, mun ég lita svo á, að ritbann Morgunblaðsins gegn mér heyrir sögunni til.
Virðingarfyllst,
Höfundi barst athugasemdalaust ljósrit af greininni frá Morgunblaðinu sem merki um blaðið ætlaði ekki að birta greinina. Þar með staðfestu ritstjórar Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen, áframhaldandi ritbann þeirra á höfundi, sem gilt hefur frá árinu 1981 sleitulaust.
* * *
Eftir bestu vitund og á grundvelli ákvæða almennra hegningarlaga og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands, tel ég að Jón Baldvin Hannibalsson og Halldór Ásgrímsson hafi með embættisverkum sínum stuðlað – ásamt stjórnmálamönnum í öðrum löndum – að dauða 600.000 íraskra barna á tímabilinu ágúst 1990 til dagsins í dag. Þeir hafa unnið þessi verk ótilneyddir, alls gáðir og aðvitandi um eðli verksins. Verk þeirra voru ekki unnin að skipun ríkisstjórnarinnar heldur á eigin ábyrgð. Þeir bera persónulega refsiábyrgð á verkum sínum í samræmi við 85. og 86. gr. fyrsta viðaukans við Genfarsáttmálana frá 12. ágúst 1949, sem íslensk stjórnvöld hafa heitið að virða.
Embættisverk þeirra sýnast í fljótu bragði sakleysisleg: Annar þeirra skrifaði undir auglýsingu sem birtist í Stjórnartíðindum 28. apríl 1992, þar sem tilkynnt var að hvers kyns viðskipti Íslendinga við aðila í Írak væru bönnuð. Hinn gerði ekkert annað en að tryggja með ásettu ráði áframhaldandi gildi viðskiptabannsins hér á landi. Til þess þurfti hann ekki einu sinni að undirrita nafn sitt. Samkvæmt alþjóðastofnunum UNICEF, FAO og WHO, hafa þegar um 600.000 börn látið lífið af völdum þessa viðskiptabanns. Þeir sem framkölluðu dauðann með fjarstýrðum embættisverkum sínum þurftu ekki að horfa á börnin kveljast til dauða. Rétt er að minna á, að leiðtogar nasista, sem voru dæmdir til dauða við réttarhöldin í Nürnberg árið 1945, höfðu ekki heldur unnið annað til saka en að undirrita skjöl sem aðrir en þeir framkvæmdu.
Samkvæmt íslenskum lögum er hvers kyns aðvitandi þátttaka í manndrápum refsiverð, þótt svo þátttakan sé óbein eða fleiri aðilar skipti með sér verkum um að fremja verknaðinn. Vitneskja um hinar skelfilegu afleiðingar viðskiptabannsins gegn írösku þjóðinni lágu fyrir í opinberum skýrslum frá UNICEF, FAO og WHO. Þessi vitneskja birtist einnig í íslenskum dagblöðum og var því ekkert leyndarmál. Þessar hrikalegar afleiðingar viðskiptabannsins voru því ekki ófyrirsjáanleg slys heldur meðvituð aukaverkun viðskiptabannsins.
Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, flokkast aðgerðir af þessu tagi samkvæmt ákvæðum fyrsta viðaukans við Genfarsáttmálana frá 12 ágúast 1949 til stríðsglæpa. Það er lagaleg skylda framkvæmdavaldsins í hverju ríki að lögsækja einstaklinga, án tillits til stöðu þeirra og þjóðernis, sem hafa verið sakaðir um þátttöku í slíkum glæpum eða hafa fyrirskipað slíka glæpi.
Samkvæmt alþjóðasamþykktum, sem Ísland hefur stutt, ber ríkjum einnig að refsa fyrir þátttöku í hryðjuverkum. Þótt þessar samþykktir hafa ekki enn verið lögfestar hér, er ólíklegt að íslenskir dómstólar túlki þessa vöntun sem heimild til hryðjuverka. Og þótt engin einhlít skilgreining fyrirfinnist í þjóðarétti um hvað séu alþjóðleg hryðjuverk, er ekki úr vegi að styðjast við þá skilgreiningu sem hefur verið lögleidd í bandaríski löggjöf, enda hafa Bandaríkin lagt áherslu á baráttu gegn hryðjuverkum. Sé sú skilgreining höfð til viðmiðunar, hlýtur viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni einnig að flokkast til alþjóðlegra hryðjuverka.
Ásamt mörgum mætum einstaklingum hef ég reynt að höfða til samvisku áðurgreindra stjórnmálamanna með bréfum, áskorunum og með öðrum friðsamlegum hætti. Ég hef einnig átt tvö hreinskilningsleg en árangurslaus samtöl við Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, með það fyrir augum að gefa honum ráðrúm til að skoða málið gaumgæfilega og binda endi á þátttöku Íslands í þessum glæpum. Ég gaf honum þannig heiðarlegt tækifæri til að komast hjá réttaraðgerðum. Því miður reyndust allar þessar tilraunir unnar fyrir gýg.
Þar sem hér er meira í húfi en orðstír tveggja stjórnmálamanna varð óhjákvæmilegt að grípa til þeirra réttarúrræða sem óbreyttum borgurum hér á landi eru tiltæk ef þeir telja opinbera aðila fremja refsiverðan verknað er varðar almannaheil. Því fór þess á leit við embætti ríkissaksóknara að það lögsæki Jón Baldvin Hannibalsson fyrir þátttöku í stríðsglæpum og alþjóðlegum hryðjuverkum og við Alþingi að það kalli saman Landsdóm til að rétta í máli núverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar vegna sömu brota.
Með erindi mínu til ofangreindra embætta fylgdu mörg skjöl, þar á meðal ítarlega skýrslu um afleiðingar og lagalegt eðli viðskiptabannsins gegn írösku þjóðinni. Þessa skýrslu geta þeir sem aðgang hafa að veraldarvefnum kynnt sér (http://www.nyherji.is/~edavid). Þess ber að geta að einstaklingar og hópar í öðrum löndum hafa einnig krafist lögsóknar gegn eigin stjórnvöldum vegna þátttöku hinna siðari í þessu villimannslega athæfi.
Ríkissaksóknari og forseti Alþingis vísuðu málaleitan minni frá og neituðu að rökstyðja frávísun sína með efnislegum rökum. Umboðsmaður Alþingis reyndist einnig óviljugur til að tryggja rétt minn til efnislegs svars. Þessi afgreiðsla vekur ýmsar áleitnar spurningar, ekki aðeins um vinnubrögð stjórnsýslunnar heldur um almenna siðferðisvitund íslenskra ráðamanna: Til dæmis hvort ríkissaksóknari og alþingismenn telji stuðning íslenskra ráðherra við stríðsglæpi og alþjóðleg hryðjuverk ekki ástæðu til opinberrar rannsóknar? Eða hvort borgarar þessa lands geti átölulaust og með ítrekuðum hætti sakað starfandi ráðherra og alþingismenn opinberlega um þátttöku í stríðsglæpum og barnamorðum ? Eða hvort það sé álit lögfræðinga ríkisins að útrýming 600.000 barna sé ef til vill ekki refsiverð? Eða hvort glæpsamlegar aðgerðir verði réttmætar ef þær hljóta blessun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ? Og ef frávísun á erindu mínu byggist á þeirri kenningu að Saddam Hussein beri lagalega ábyrgð á afleiðingum viðskiptabannsins, hvers vegna segja íslensk stjórnvöld það ekki afdráttarlaust og beita sér í samræmi við það fyrir markvissum alþjóðlegum aðgerðum gegn þessum manni á grundvelli tiltækra og bindandi alþjóðasamninga ?
Þeim fjölgar sem skilja hvað er í húfi og styðja kröfurnar um réttaraðgerðir gegn Jóni Baldvin Hannibalssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Yfir fimmtíu manns hafa þegar undirritað þessar kröfur. Telji Jón Baldvin Hannibalsson og Halldór Ásgrímsson að sér ómaklega vegið með tilhæfulausum og grófum ásökunum, er þeim vitaskuld velkomið að stefna okkur fyrir rétt. Það er ekki markmið okkar sem krefjast réttarhalda yfir þessum mönnum að sjá þá fara í fangelsi, heldur tryggja að grundvallarreglur réttarríkis og siðferðis verði virtar í okkar samfélagi.
Elías Davíðsson, tónskáld
12 júní 1997