Sjónarspil og þjóðarmorð (leiðaragrein)
Sjónarspil og þjóðarmorð
Leiðari Alþýðublaðsins 30. janúar 1996
Samkvæmt nýjum tölum frá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hafa 576 þúsund börn dáið í Írak vegna viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna. Ramsey Clark, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kallar helför barna í Írak hroðalegasta glæp seinni ára. Hann hefur varpað ábyrgðinni á Bandaríkjastjórn sem sýnt hefur fádæma heift gagnvart Írak eftir að Flóastríðinu lauk og ekki ljáð máls á neinum tilslökunum. En ábyrgðin er víðtækari: Öll lönd sem samþykkja og eiga aðild að viðskiptabanninu taka þátt í þjóðarmorði.
Mönnum verður æ betur ljóst að Flóastríðið var eitt allsherjar sjónarspil frá upphafi til enda. Nýverið kom George Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fram í sjónvarpi og sagði að Bandaríkjamenn hefðu haft miklar áhyggjur af því að Saddam Hussein myndi á síðustu stundu draga her sinn út úr Kúvæt. Þarmeð hefði grundvellinum verið kippt undan stríðsrekstri "bandamanna". En Saddam bakkaði ekki í tíma, og því gafst Bandaríkjamönnum kostur á að halda stórbrotna sýningu á nýjustu leikföngunum sínum. Þrátt fyrir margfalt ofurefli unnu Bandaríkjamenn samt ekki nema hálfan sigur. Saddam Hussein hélt völdum í Bagdad. Og hálfur sigur er enginn sigur. Margaret Thatcher sýndi þann heiðarleika ekki alls fyrir löngu að viðurkenna að í reynd hefðu "bandamenn" ekki sigrað Saddam. Hún benti á að helstu leiðtogar "bandamanna" í Flóastríðinu væru nú búnir að missa völd síon, en skálkurinn Saddam væri enn við stjórn.
Bandaríkjamenn eiga erfitt með að sætta sig við þessa staðreynd. Þeir komu viðskiptabanninu á með það fyrir augum að Írakar myndu rísa gegn Saddam þegar skortur og hungur færu að sverfa að. Annað hefur komið á daginn. Viðskiptabannið er að mergsjúga lífsþróttinn úr írösku þjóðinni – og ekkert fararsnið er á Saddam Hussein. Írak þurfti að flytja inn lyf og matvæli í stórum stíl, viðskiptabannið hefur þessvegna bitnað á allri þjóðinni. Börn, gamalmenni og sjúklingar verða verst úti og hrynja niður einsog flugur. Ramsey Clark segir að börnin í Írak séu fórnarlömb kvalafyllsta dauðdaga sem hugsast getur.
Frakkland, Kína og Rússland – þrjú af fimm ríkjum sem eiga fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna – hafa farið fram á tilslakanir á viðskiptabanninu á Írak. Bandaríkjamenn koma kerfisbundið í veg fyrir öll slík áform. Þeir ætla að svelta 20 milljón manna þjóð þangað til þeir ná takmarki sínu; eins þótt það kosti þúsundir barnslífa á degi hverji.
Íslendingar eru aðilar að viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna á Írak. Síðastliðið vor lögðu fjórir alþingismenn fram þingsályktunartillögu um að bannið yrði tekið til endurskoðunar vegna hinna skelfilegu afleiðinga sem það hefur. Sjaldgæft er að alþingismenn sýni frumkvæði í utanríkismálum, enda allajafna bundnir við hreppapólítik, og því þarf kannski ekki að koma á óvart þótt tillaga fjórmenninganna hafi ekki komið til umræðu í þingsölum.
Ísland hefur siðferðilegum skyldum að gegna sem vopnlaust lýðræðisríki. Því miður eru flestir íslenskir stjórnmálamenn svo sligaðir af smáþjóðakomplex að þeim kemur ekki til hugar að hlustað sé á rödd Íslands. En Íslendingar geta, einmitt í krafti smæðar og vopnleysis, haft áhrif. Alþýðublaðið skorar á flutningsmenn þingsályktunartillögunnar um endurskoðun viðskiptabanns á Írak að taka málið aftur upp nú þegar.
Þangað til eru Íslendingar með formlegum hætti aðilar að þjóðarmorði.