Spurningar og svör um saknæmi þess að styðja viðskiptabannið
Spurningar og svör um saknæmi þess að styðja viðskiptabannið
Hvað eru alþjóða hryðjuverk ?
Alþjóða hryðjuverk eru aðgerðir gegn öryggi, lífi eða heilsu óbreyttra borgara sem hafa það markmið að fá stjórnvöld þeirra til að breyta um stefnu. Dæmi um alþjóða hryðjuverk væri að hóta að drepa 100 þegna annars ríkis á hverjum degi ef ríkisstjórn viðkomandi ríkis neitar að beygja sig. land hefur stutt margar ályktanir Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóða hryðjuverkum og heitið því að vinna að upprætingu þeirra.
Hvað eru stríðsglæpir ?
Stríðsglæpir eru skilgreindir í Genfarsáttmálunum frá 12 ágúst 1949 og fyrsta Viðaukasamningi þeirra frá 1977 sem alvarleg brot á þeim reglum sem gilda þegar um stríðsátök er að ræða. Samkvæmt þjóðarrétti, sem öll ríki hafa skuldbundið sig að virða, eru til aðgerðir sem eru bannaðar undir öllum kringumstæðum, jafnvel í varnarstríði. Slíkar aðgerðir eru refsiverðar. Meðal slíkra aðgerða má nefna handahófskenndar árásir á óbreytta borgara og óvígfæra hermann og að svelta óbreytta borgara sem stríðsaðgerð.
Gilda reglur Genfarsáttmálanna utan hernaðarátaka ?
Þótt aðilar að vopnuðum átökunum viðurkenni ekki að þessi átök séu formlegt stríð, lúta óbreyttir borgarar samt alþjóðlegrar verndar ákvæða Haag- og Genfar-sáttmálanna svo og viðurkenndra reglna í samskiptum siðaðra þjóða (Martens clause).
Bera einstaklingar persónulega ábyrgð á stríðsglæpum ?
Stríðsglæpir kalla á einstaklingsábyrgð á sama hátt og morð, manndráp og svipaða glæpi. Samkvæmt ákvæðum Genfarsáttmálanna frá 12 ágúst 1949 og fyrsta Viðauka þeirra frá 1977, er aðildarríkjum skylt að lögsækja hvern þann – án tillits til þjóðernis og stöðu – sem hefur framið stríðsglæpi eða skipað öðrum að fremja stríðsglæpi.
Er óbein þátttaka í stríðsglæpum refsiverð ?
Samkvæmt íslenskum lögum bera einstaklingar sem taka óbeinan þátt í refsiverðum verknaði einnig ábyrgð á verkum sínum, eftir atvikum minna en höfuðpaurinn. Aðili sem lánar morðingja hníf með það fyrir augum að drýgja verknaðinn er samsekur morði.
Er viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni refsivert athæfi ?
Aðgerðir sem fyrirsjáanlega leiða til dauða einnar milljónar óbreyttra borgara eru brot á öllum alþjóðasamningum um mannúð og mannréttindi, þ.m.t. Alþjóðasamningi gegn þjóðarmorði, Genfarsáttmálunum frá 12. ágúst 1949 og fyrsta Viðauka þeirra frá 1977, Alþjóðasamningi um réttindi barna, Alþjóðasamningi um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi, ofl. Frá því ágúst 1990 til dagsins í dag (júni 1997) hafa um 600.000 börn látið lífið í Írak af völdum Persaflóastríðsins og viðskiptabannsins, sem Ísland tekur þátt í.
Ber ekki Saddam Hussein ábyrgð á afleiðingum viðskipta-bannsins?
Það er bæði rétt og skylt að ásaka Saddam Hussein fyrir margvíslega glæpi, þ.m.t. að skipa fyrir eiturefnaárásum á Kúrda árið 1988, hefja árásarstríð á Kúvæt árið 1990 og brjóta margvísleg mannréttindi í Írak. Saddam Hussein ber þó enga lagalega ábyrgð á afleiðingum aðgerða sem ríkisstjórnir annarra landa samþykkja og framkvæma, s.s. viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni. Ábyrgð vegna afleiðinga viðskiptabannsins bera fyrst og fremst þau ríki og þeir einstaklingar sem styðja og framkvæma þessar aðgerðir gegn almenningi í Írak.
Er þátttaka Íslands í viðskiptabanninu eingöngu táknræn ?
Þátttaka Íslands í viðskiptabanninu gegn írösku þjóðinni takmarkast ekki við aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, heldur felst í löggildingu viðskiptabannsins hér á landi sem Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanríkisráðherra, undirritaði með eigin hendi. Undirritun hans, dags. 28. apríl 1992, birtist í Lögbirtingarblaðinu 29. júní 1994. Ákvörðun um viðskiptabannið var tekin á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmd viðskiptabannsins er í höndum einstakra fullvalda ríkja, sem bera hvert fyrir sig ábyrgð á afleiðingum gerða sinna.
Er ekki Alþingi eða ríkisstjórn Íslands í heild sinni ábyrg fyrir þátttöku Íslands í viðskiptabanninu ?
Ríkisstjórn Íslands ber að sjálfsögðu pólítiska ábyrgð á þátttöku Íslands í viðskiptabanninu gegn írösku þjóðinni. Með þögn sinni ber Alþingi einnig siðferðilega meðábyrgð á þessum aðgerðum. Íslenska ríkið ber, ásamt mörgum öðrum ríkjum, bótaskyldu vegna tjóns almennings í Írak af völdum óréttmætra og ranglátra alþjóðlegra aðgerða. Einstaklingar bera refsiábyrgð vegna þátttöku sinnar í stríðsglæpum, án tillits til þjóðernis og stöðu. Hér á landi eru það fyrrv. utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson og núverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sem bera slíka refsiábyrgð. Það er skylda íslenskra dómsyfirvalda að lögsækja þessa menn.
Er almanna hagsmunum þjónað með lögsókn Jóns Baldvins Hannibalssonar og Halldórs Ásgrímssonar ?
Já. Meginástæður eru eftirfarandi:
1. Með því að neita að lögsækja, myndi Ísland brjóta skuldbindingar sínar þess eðlis að virða í hvítvegna ákvæði Genfarsáttmálanna og fyrsta Viðauka þeirra, þ.m.t. skyldu að lögsækja einstaklinga sem hafa tekið þátt í stríðsglæpum.
2. Með því að neita að lögsækja, myndu íslensk dómsyfirvöld í reynd réttlæta þátttöku íslenskra borgara í alþjóðaglæpum og grafa undan stoðum réttarríkis á Íslandi.
3. Til þess að tryggja friðsamleg samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir, þ.m.t. við arabískar þjóðir er æskilegt að Íslendingar sem hafa tekið þátt í útrýmingu 600.000 arabískra barna, verði lögsóttir á Íslandi.
4.Til þess að styrkja stoðir alþjóðalaga og réttarríkisins, sem er augljóst hagsmunamál smáþjóðar, er nauðsynlegt að þeir sem bera ábyrgð á dauða 600.000 barna – hvar sem er í heiminum – verði dregnir fyrir rétt.
Er fórnarlömbum viðskiptabannsins greiði gerður með lögsókn gegn íslenskum stjórnmálamönnum ?
Lögsókn gegn utanríkisráðherra vegna stuðnings hans við viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni myndi óhjákvæmilega leiða til þess að ríkissstjórn Íslands afturkalli þátttöku Íslands í þessu glæpsamlega athæfi. Með því myndu Íslendingar gefa öðrum þjóðum og ríkjum fordæmi sem erfitt væri að hunsa. Til þess að saklaus fórnarlömb þessa viðskiptabanns geti fengið bætur er jafnframt nauðsynlegt að dómsúrskurður liggi fyrir um það hverjir beri lagalega ábyrgð á þessum harmleik.