Óhugguleg þögn stjórnvalda og alþingismanna
Óhugguleg þögn stjórnvalda og alþingismanna
Arnþór Helgason
Það hafa vafalaust margir fylgst með fréttum af ástandinu í Írak. Þessa dagana reyna bandarískir valdhafar enn einu sinni að blása í stríðslúðra gegn írösku þjóðinni. Nú er átyllan sú að Saddam hefur vísað nokkrum bandarískum mönnum úr landi. Alltaf finna þeir í vestrinu tilfefni til að prófa vopnin sín og auka andúð Araba á allt sem vestrænt er.
Nýlega kom til lands lögfræðingur sem starfar í Bretlandi og er fæddur og uppalinn í Írak. Hann ræddi við blaðamenn og hélt fyrirlestur í Norræna húsinu þar sem hann lýsti því hörmulega ástandi sem almenningur í Írak býr við. Þetta ástand er þó ekki af náttúruvöldum, heldur er bein afleiðing af víðtæku og langvarandi viðskiptabanni sem Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið að beita gegn þessari þjóð (ekki gegn einum manni, eins og látið er í veðri vaka). En það eru ekki Sameinuðu þjóðirnar sem framfylgja þessu viðskiptabanni heldur aðildarríkin, þ.m.t. Ísland. Þau bera endanlega ábyrgð, öll saman og hvert fyrir sig, á afleiðingum verka sinna.
Þannig eru það íslensk yfirvöld sem með formlegum hætti hafa samþykkt að banna öll viðskipti Íslendinga við aðila í Írak. Ein af afleiðingum þessa viðskiptabannsins er sú að um 600 þúsund börn undir fimm ára aldri hafa þegar látið lífið. Þessi börn eru saklaus. Þeim var fórnað.
Því er haldið fram að stríð bitni alltaf á saklausa borgara. En jafnvel í stríði verða aðilar að hlífa óbreyttum borgurum. Ef þeir gera það ekki, gerast þeir sekir um stríðsglæpi. Og hér er ekki einu sinni um stríð að ræða. Viðskiptabannið er ekki gagnkvæmt. Fórnarlömbin eru öll öðru megin víglínanna. Hér ákveða nokkrir herrar að það borgi sig að fórna hundruð þúsundum barna í meintri baráttu við einn mann, Saddam Hussein. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, sagði í þætti í bandaríska sjónvarpinu CBS að þessar aðgerðir hafi verið þess virði, þrátt fyrir dauða 600.000 barna.
Eins og ég nefndi að ofan, tekur Ísland þátt í þessum refsingum á saklausu fólki. Vinur minn, Elías Davíðsson, tónskáld, hefur tekið upp hanskann fyrir börnin í Írak. Hann hefur aftur og aftur, ásamt öðrum, skorað á stjórnvöld að binda endi á þátttöku Íslands í þessari atlögu. Stjórnvöld hafa ekki sinnt þessum áskorunum og ekki haft fyrir því einu sinni að réttlæta opinberlega gerðir sínar, hvað þá að heimsækja Írak og kynna sér afleiðingar af þeim verkum sem þeir styðja. Sama gegnir um Alþingi. Þótt einstakir þingmenn hafi gagnrýnt varfærnislega þessar aðgerðir, hefur Alþingi í heild sinni látið eins og málið væri Íslendingum óviðkomandi. Sú staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað aflétta þátttöku sína í viðskiptabanninu, sýnir að þátttaka Íslands skiptir máli.
Í fyrra lagði Elías fram skýrslu um viðskiptabannið þar sem hann sýnir fram á, að viðskiptabannið er í raun ekkert annað en víðamikill stríðsglæpur, og reyndar einnig alþjóðleg hryðjuverk. Hann vísaði til alþjóðasamninga sem Ísland hefur undirritað og banna atlögu gegn óbreyttum borgurum. Mér sýnast röksemdir og heimildir Elíasar traustvekjandi og í fullu samræmi við heilbrigða skynsemi. Það liggur í augum uppi að aðgerðir sem leiða til dauða einnar milljónar óbreyttra borgara geta undir engum kringumstæðum verið réttmætar, hvað þá siðlegar. Það er enginn maður og engin stofnun í heiminum sem hefur rétt til að ákveða að svipta saklausu fólki lífi, hvað þá að refsa 20 milljón manna þjóð án dóms og laga.
En Elías lét ekki við það sitja að benda á að hér væri um siðlausan verknað að ræða. Hann sýndi að aðgerðir af þessu tagi og í þessu umfangi eru ekki aðeins siðlausar heldur einnig refsiverðar samkvæmt þjóðarétti. Og niðurstöður hans virðast fá aukinn hljómgrunn bæði hérlendis og um allan heim, bæði meðal leikmanna og meðal lögfróðra manna.
Í framhaldi af rannsóknum sínum, ritaði Elías ríkissaksóknara og forseta Alþingis bréf, þar sem krafist var lögsóknar á hendur fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra vegna formlegs stuðnings þeirra við stríðsglæpi og alþjóðleg hryðjuverk. Hann lagði fram ítarleg gögn í málinu. Hvorugt embætti hafði fyrir því að svara Elíasi efnislega og leggja mat á ásakanir hans.
Í lýðræðisríkjum hefði það þótt óvenjulegur atburður að heiðvirtur borgari, þekkt tónskáld, sem hefur engra hagsmuna að gæta, saki stjórnvald fyrir þátttöku í stríðsglæpum. En Ísland virðist ekki vera lýðræðisríki. Með einni undantekningu (Stefán Jón Hafstein í Degi) gættu fjölmiðar þess vandlega að fjalla ekki um þessar ásakanir. Alþingismenn tóku einnig þátt í þagnarsamsærinu. Eru menn eitthvað hræddir við þennan mann og við boðskap hans ? Hafa menn vonda samvísku og fela hana með þögninni ? Hann hefur skorað á þá sem hann sakar um alvarlega glæpi að lögsækja sig fyrir ærumeiðingar.
Þar sem engin svör fást, heldur Elías áfram að grafa undan trausti almennings á stjórnvöld, alþingi og fjölmiðla, og virðist honum takast nokkuð vel, þegar haft er í huga að meira en eitt hundrað manns, þ.m.t. undirritaður, hafa þegar tekið undir kröfur hans um lögsókn á hendur Jóni Baldvin Hannibalssyni og Halldóri Ásgrímssyni, vegna meintrar þátttöku þeirra í stríðsglæpum. Elías heldur áfram að bera óhróður um utanríkisráðherra Íslands, bæði hérlendis og erlendis, í von um að hann verði knúinn til að gangast undir dómsmáli til að verja gerðir sínar.
Hér er um afar óvenjulega þróun að ræða, sem getur reynst hættuleg fyrir lýðræði í okkar landi. Ef menn geta, í skjóli þagnarsamsæris, komist undan að ræða þyðingarmikil mál sem varðar stefnu Íslands á alþjóðavettvangi, er hætt við að almennningur á Íslandi hætti að treysta stofnunum samfélagsins. Slík þróun er þegar hafin.
Því vona ég að vinur minn, Halldór Ásgrímsson, taki rögg og manni sig upp til að svara ásökunum Elíasar, annaðhvort með breyttri stefnu innan ríkisstjórnarinnar, eða fyrir dómstólum, eins og málið gefur til efni til.