Uppörvandi bréfaskipti við svonefnt Utanríkisráðuneytið

Uppörvandi bréfaskipti við svonefnt Utanríkisráðuneytið

Eftir Elías Davíðsson

Þann 23. desember 2013 sendi ég „Utanríkisráðuneytinu“ fyrirspurn, sem var nokkurnveginn samhjóða þeirri sem ég sendi átta árum fyrr en bar engan árangur. Fyrir neðan er fyrirspurn mín og svo svar „ráðuneytisins“ sem Magnús nokkur Hannesson var fenginn til að undirrita.  Svar „ráðuneytisins“ er gott efni fyrir farsa. Hérmeð er lýst eftir höfundi.

Ég hef set orðið „utanríkisráðuneytið“ milli gæsalappa vegna þess að viðkomandi stofnun starfar ekki sem „utanríkisráðuneyti“ Íslendinga heldur frekar sem útibú NATO og Bandaríkjanna á Íslandi, þótt flestir starfsmenn beri íslenskt vegabréf og tala íslensku.  Starfsmenn þessa útibús eru skuldbundnir að sýna Bandaríkjastjórn meiri hollustu heldur til Íslendinga, eins og svarbréfið ber greinilega með sér. Við því er ekkert að gera. Voldug heimsveldi hafa alltaf keypt sér leppa í einstökum löndum og héruðum til að tryggja yfirráð sín. En Bandaríkin er deyjandi heimsveldi, þótt starfsmenn „ráðuneytisins“ hafa enn ekki áttað sig á því.

Það er þó skemmtilegt að enn finnist menn sem trúa á skáldsöguna um Ali Baba og 19 lærisveina hans.  Sú saga snýst um unga Araba sem ku hafa farið ósýnilega um borð fjögurra farþegaflugvéla þann 11. september 2001, blekkt bandaríska flugherinn, fellt þrjú háhýsi með tveim flugvélum, og látist án þess að skilja eftir líkamsleifar. Með framferði sínu hafa þessir guðsmenn  sannað hversu trúin á Allah getur orkað.

Ég sendi hér samúðarkveðjur til allra skriffinna sem verða að dásama nýju fötin keisarans til að næra sig og sína.

Elías Davíðsson (búsettur í Þýskalandi, höfundur bókarinnar „Hijacking America’s Mind on 9/11“, Algora Publishers, New York, 2013)

1.  Bréf E.D. til „ráðuneytisins“ 11. desember 2005 (endurtekið að mestu leyti 14. desember 2013):

(…)
Í fréttatilkynningu frá aðalritara NATÓ frá 2. október 2001, er haft eftir aðalritara bandalagsins, Robertson Lávarði, að fulltrúar Bandaríkjanna hafi átt fund með fulltrúum NATÓ-ríkja í höfuðstöðvum bandalagsins, þar sem þeir lögðu fram sannanir um hlutdeild Al Qaeda í fjöldamorðunum 11. september 2001.   Á grundvelli þessara ,,sannanna” hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að styðja árásarstríð gegn Afganistan sem hefur valdið dauða þúsunda óbreyttra borgara, stutt margvíslegar ályktanir um nauðsyn alþjóðlegrar samstöðu gegn hryðjuverkum og gert ráðstafanir á Íslandi gegn alþjóða hryðjuverkum.  Eins og ráðuneytinu er kunnugt, hefur Bandaríkjastjórn margoft logið að alþjóðasamfélaginu til að réttlæta árásir á önnur ríki, s.s. um þá ógn af meintum gereyðingarvopnum í Írak eða um virðingu við mannréttindi meintra hryðjuverkamanna.

Í ljósi ofangreindra upplýsinga, óskar undirritaður að fá svör við eftirfarandi spurningum:

1.     Hafa fulltrúar Bandaríkjanna átt fund með starfsmönnum Utanríkisráðuneytisins í Reykjavík haustið 2001, þar sem lagðar hafa verið fram sannanir um hlutdeild Al Qaeda í fjöldamorðunum 11. september 2001? Ef svo er, hvenær og hvar var þessi fundur haldinn og hverjir hafa verið fulltrúar Íslands sem tóku þátt á þessum fundi?

2.     Fengu fulltrúar ráðuneytisins ráðrúm til að kanna með sjálfstæðum hætti trúverðugleika staðhæfinga bandarískra stjórnvalda um tengsl milli Osama bin Laden og árásanna 11. september 2001 ?

3.      Hefur Utanríkisráðuneytið í vörslu sinni hin meintu sönnunargögn sem Bandaríkjamenn kynnu að hafa lagt fram við fulltrúa Íslands?  

4.      Hefur utanríkisráðuneytið fengið óyggjandi sannanir um að hinir 19 meintu flugræningjar sem bandaríska alríkislögreglan hefur nafngreint hafi farið um borð flugvélanna morguninn 11. september 2001, og ef svo, hvers eðlis eru þessar sannanir?

Það er von undirritaðs að hann verði ekki knúinn aftur til að leita sér aðstoðar Umboðsmanns Alþingis til að fá svar frá ráðuneytinu, enda er hér ekki um neitt er varðar öryggishagsmuni Íslands eða trúnaðarmðál eins eða neins.

Virðingarfyllst,

Elías Davíðsson

2.   Svar „ráðuneytisins“ frá 19. febrúar 2014

Vísað er til bréfs yðar, dagsett 14. desember 2013, sem barst utanríkisráðuneytinu 23. desember 2013, þar sem þér óskið eftir nánar tilgreindum upplýsingum um samskipti íslenskra og bandarískra stjórnvalda varðandi hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.

Samhljóða fyrirspurn barst frá yður til utanríkisráðuneytisins með bréfi dagsettu 11. desember 2005 og utanríkisráðuneytið svaraði með bréfi 2. mars 2007 [!]. Í framhaldinu vísuðuð þér málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, mál A-250/2007. Eins og upplýst var undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál voru engin gögn til í utanríkisráðuneytinu sem féllu að beiðni yðar samkvæmt bréf yðar frá 11. desember 2005. Síðan máli A-250/2007 lauk hafa ekki ný gögn verið vistuð í utanríkisráðuneytinu sem fallið gætu að beiðni yðar.  Utanríkisráðuneytið getur því ekki orðið við beiðni yðar um aðgang að gögnum samkvæmt 3. tl. í bréfi yðar frá 14. desember 2013.

Spurningum yðar í töluliðum 1, 2. og 4 í bréfi yðar frá 14. desember 2013 er utanríkisráðuneytinu ekki skyldugt til að svara þar sem þær varða ekki ósk um tiltekin gögn heldur um beiðni um svör við nánar tilgreindum spurningum. Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-250/2007 sagði að réttur til upplýsinga tæki einvörðungu til gagna sem lægju fyrir þegar um þau væri beðið en legði ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki væru fyrirliggjandi þegar eftir þeim væri leitað.

Í bréfi ráðuneytisins 2. mars 2007 kom fram að íslensk stjórnvöld ættu í nánu samstarfi við Bandaríkin um varnar- og öryggismál og eðli málsins samkvæmt þyrftiu að ríkja gangkvæmur trúnaður í samskiptum ríkja á milli á þessu sviði. Þess var enn fremur getið að slík upplýsingagjöf væri til þess fallin að grafa undan trúnaði og spilla samstarfi ríkjanna á þessu sviði. Af þeim sökum taldi utanríkisráðuneytið ekki unnt að upplýsa yður nánar um hvaða upplýsingar íslensk stjórnvöld höfðu þegið frá Bandaríkjunum sem vörðuðu öryggismál þess síðarnefnda, þar með taldar hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Af sömu ástæðum er ekki heldur unnt að verða við beiðni yðar nú. Trúnaðarsamband Íslands og Bandaríkjanna um varnar- og öryggismál er viðvarandi þótt liðinn sé rúmur áratugur frá því að umræddir atburðir gerðust.

Úrlausn ráðuneytisins verður ekki rökstudd frekar, sbr. 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en að því marki sem 2. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verði lagður henni til grundvallar er unnt að bera hana undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá birtingu bréfs þessa.

Undirritað

F.h.r.

Magnús K. Hannesson

 

Comments are closed.