50.000-asti innflytjandinn til Ísraels frá Sovétríkjunum
(úr ísraelska dagblaðinu Hadashot, 14. september 1990)
Eftirfarandi saga vafalaust skáldsaga byggir á raunveruleikanum. Hún sýnir kynþáttastefnu Ísraels í verki og hve sjálfsögð hún þykir. Bakgrunnur hennar er fjöldaflutningur gyðinga frá Sovétríkjunum til Ísraels. Rabbi Yitzhak Peretz er innflytjendaráðherra Ísraels. Hann tekur á móti Jósef Dori, 50.000-asta innflytjanda frá Sovétríkjunum við opinbera athöfn. Viðstaddir athöfninni eru helstu ráðamenn landsins, sjónvarpið. Hljómsveit spilar.
Ráðherra: Ég er mjög snortinn að tilkynna þér að þú ert 50.000-asti innflytjandinn á árinu til Landsins Ísrael [Landið Ísrael er nafnið sem gyðingar nota um alla Palestínu, þ.e. Ísrael ásamt herteknu svæðunum, til aðgreiningar frá Ísrael, sem á yfirleitt við landið innan landamæranna 1967].
Innflytjandinn: Hver? Ég?
Ráðherra: Já, já (Ráðherra tekur innflytjandann með sér upp að heiðurspallinum, þar sem forseti þingsins og forseti landsins bíða. Þeir heilsast allir með innilegu handabandi).
Innflytj.: Jósef Dori.
Ráðherra: Hvaðan kemur þú?
Innflytj.: Frá Leníngrad.
Ráðherra: Hve lengi hefur þig dreymt um ferðina til fyrirheitna lansdins?
Innflytj.: Í 23 ár. Þetta er eins og draumur. Loksins fæ ég að stíga fæti á fósturjörðina. Ég er loksins kominn heim.
Ráðherra: Hér ertu heima hjá þér, Jósef. Við munum reyna að auðvelda þér aðlögunina eins og kostur er. Varstu að vinna í Leníngrad?
Innflytj.: Að sjálfsögðu. Ég fór til Leníngrad til að læra þar læknisfræði í háskólanum. Ég hef sérhæft mig í meðferð krabbameins á forhúð.
Ráðherra: (vandræðalegur) Ojá, jæja, hér verður þú víst að fara í endurþjálfun. Segðu mér Jósef, átt þú ættingja hér á landi?
Innflytj.: Öll fjölskylda mín er hér. Ég á ættingja í Haifa og á Golanhæðunum.
Ráðherra: Hvað er langt síðan þú hefur séð þau?
Innflytj.: Í 23 ár. Þau vissu að ég var að reyna að komast heim en trúðu ekki að mér takist það. Þú veist, það hefur verið mjög erfitt að komast heim öll þessi ár.
Ráðherra: Satt segir þú, en þetta heyrir sögunni til. Eins og þú getur séð, eru hliðin í dag opin á gátt.
Innflytj.: Ég er mjög undrandi. Ég hélt að mér tækist aldrei að komast hingað. Ég hélt ég yrði að deyja í útlegð.
Ráðherra: Af og frá. Drottinn hinn miskunnsami er að sækja öll börn sín úr útlegð.
Innflytj.: Guði sé þökk.
Ráðherra: Segðu mér Jósef, skilurðu smávegis í hebresku?
Innflytj.: Mjög lítið, einungis það sem ég lærði sem barn, í þorpinu.
Ráðherra: Af því að við öll, ásamt þér og bræðrum þínum, við munum breyta Ísrael í eitt af undursamlegustu ríkjum heims.
Innflytj.: Ég skil ekki.
Ráðherra: (með föðurlegri þolinmæði) Það sem ég meina er að þú munt taka þátt í lífi þessa samfélags og verða hluti af samfélaginu í Ísrael þangað til að þú samlagast alveg.
Innflytj.: (svolítið tortrygginn) Rétt andartak. Fæ ég sömu réttindin eins og allir hinir? Fæ ég að kjósa?
Ráðherra: Hvílíka spurningu? Þetta er ekki Sovétríkin, hér er lýðræði!
Innflytj.: Og öll fjölskylda mín og allt þorpið mitt líka?
Ráðherra: Hvaða þorp? Í Rússlandi?
Innflytj.: Nei, á Golanhæðunum þar sem ég er fæddur.
Ráðherra: Ertu ekki fæddur í Rússlandi?
Innflytj.: Nei, ég sagði þér, ég fór til Leníngrad fyrir 23 árum til að læra læknisfræði.
Ráðherra: Frá Ísrael?
Innflytj.: Frá Palestínu. Fyrir stríðið fór ég til Sovétríkjanna. Nú ákvað ég að snúa aftur heim, þó að fjölskylda mín hafi sagt mér að stjórnvöldin í Ísrael viðurkenni ekki enn rétt okkar til að snúa aftur heim. En ég var bjartsýnn og ég sé að ég hafði rétt fyrir mér. Það sem þú sagðir snart mig djúpt, sérstaklega að hliðin séu nú opin upp á gátt og að Guð væri að leiða börnin sín heim. Það er gott að vita að það eru einnig gyðingar eins og þú.
Ráðherra: (fölur, með þurrar varir) Ertu ekki gyðingur?
Innflytj.: Nei, ég er kristinn Palestínumaður. Ég las í Prövdu um beint flug til Ísraels í gegnum Varsjá og ákvað að nú væri rétti tíminn til að snúa aftur heim.
Ráðherra: Komdu þér burt héðan hið snarasta! Farðu aftur í flugvélina, hryðjuverkamaður!
Innflytj.: En þú sagðir að við myndum sameiginleg byggja upp fyrirmyndar ríki hér. Þú sagðir að ég fengi réttindi.
Ráðherra: (til áhorfenda) Kallið í lögregluna. Takið hann fastan. Flytjið hann út á flugvöllinn. Stöðvið tónlistina. Hættið að ljósmynda. Hvar er bílstjórinn minn?