Alþjóðadómstóllinn telur notkun kjarnorkuvopna ólögmæta
Kjarnorkuvopn lýst ólögleg
Elías Davíðsson / 24. september 1996
Frá því árið 1961 hefur þorri aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna ályktað að beiting kjarnorkuvopna verði lýst saknæm samkvæmt þjóðarétti og hafa því lagt til að kjarnorkuvopn verði alfarið bönnuð. Alþjóðasamningar banna hernað sem bitnar af handahófi á óbreyttum borgurum eða á hlutlausum ríkjum og vopn sem valda víðtækum, alvarlegum og langvarandi skaða á umhverfi eða óhóflegum skaða miðað við hernaðalega nauðsyn. Kjarnorkuvopn hafa allar þessar afleiðingar í för með sér. Það er ekki unnt að beita þeim án þess að brjóta alþjóðalög.
Andstyggð fólks á kjarnorkuvopnum er nú slík að jafnvel kjarnorkuveldin hafa orðið að heita því að semja í góðri trú um eyðingu þeirra. Tregða kjarnorkuveldanna til að standa við fyrirheit sín hefur hins vegar orðið til þess að þeim ríkjum fjölgar sem vilja eignast kjarnorkuvopn eða framleiða þau. En þorri aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna vill banna kjarnorkuvopn alfarið með alþjóðasamningum, líkt og gert hefur verið við efna- og sýklavopn. Árið 1994 bað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna alþjóðadómstólinn í Haag um álitsgerð um lögmæti kjarnorkuvopna. Kjarnorkuveldin gerðu allt sem þau gátu til að hindra þessa lagalegu umfjöllun, en án árangurs.
Með ítarlegri tímamótaálitsgerð frá 8. júlí 1996 úrskurðaði Alþjóðadómstóllinn í Haag að ógnun með kjarnorkuvopnum eða notkun þeirra bryti undir flestum kringumstæðum í bága við alþjóðalög. Dómstóllinn gat ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvort beiting slíkra vopna við ýtrustu aðstæður sjálfsvarnar, þ.e. þegar sjálfri tilveru ríkis er ógnað, teldist lögmæt eða ólögmæt. En þar sem þróun, smíði, eign, flutningur og uppsetning slíkra vopna á friðartímum getur ekki talist neyðarúrræði sbr. ofangreint, hlýtur sú ógn sem af þessu leiðir einnig að vera ólögmæt.
Dómstóllinn áréttaði einnig að kjarnorkuvopn og beiting þeirra falli undir ákvæði alþjóða samninga um vopnuð átök og hafnaði þeirri túlkun kjarnorkuveldanna að kjarnorkuvopn væru undanþegin ákvæðum Haag- og Genfarsáttmálanna um ólögmætan hernað. Þessi úrskurður er þýðingarmikill og má búast við að til hans verði vitnað um ókomin ár.
Af úrskurði dómstólsins leiðir að þeir sem ógna með kjarnorkuvopnum eru nú jafn saknæmir og þeir sem ógna með sýkla- og efnavopnum.
Það er ljóst að ríki geta ekki grundvallað öryggisstefnu sína á því að hóta öðrum með ólögmætum vopnum: Fælingarmáttur vopna sem þarf að fela frá umheiminum er að sjálfsögðu lítill sem enginn. Aðeins sýnilegt og trúverðugt vald hefur fælingarmátt.
Þótt kjarnorkuveldin reyni nú að gera sem minnst úr úrskurði alþjóðadómstólsins, kemur hann eins og sending af himnum ofan fyrir okkur Íslendinga. Slys við flutninga á geislavirkum kjarnorkuvopnum um hafsvæðið í kringum Ísland, gætu lagt í rúst bestu fiskimið okkar og grafið undan tilveru þjóðarinnar. Sú hætta vofir yfir framtíð okkar meðan slíkir flutningar fara fram. Íslensk yfirvöld geta nú með góðri samvísku sett lög til að banna staðsetningu og flutning kjarnorkuvopna um íslenska lögsögu og unnið jafnhliða ásamt grannríkjum okkar að stofnun kjarnorkulauss svæðis á norðurhöfum, svipað og gert hefur verið víða í heiminum.
Framlag alþjóðadómstólsins í þágu afvopnunar og þjóðaréttar hlýtur að vera fagnaðarefni öllum þeim sem þrá betri og friðsamlegri heim. Smáþjóðir ættu að nýta þennan áfangasigur til að styrkja stoðir þjóðaréttar sem tækis til friðsamlegra alþjóðasamskipta.