Annað bréf til Þorsteins Pálss., dómsm.rh, vegna Genfarsamninganna
14. nóvember 1997
Hr. Þorsteinn Pálsson
Dómsmálaráðherra
Reykjavík
Eins og þér er vafalaust minnisstætt, hef ég þegar ritað þér a.m.k. einu sinni um skuldbindingar Íslands gagnvart ákvæðum Genfarsáttmálanna frá 12. ágúst 1949 og hef undir höndum bréf til þín frá 25.6.1992 um þetta mál, sem ég hef ekki fengið viðbrögð við.
Eins og kemur fram í samantekt Rauða kross Íslands frá 1991 um Genfarsáttmálana "leggja sáttmálinn og [viðbótar]bókunin [frá 1977] þá skyldu á herðar yfirvalda að þau setji lög með refsiákvæðum við hæfi fyrir þá sem fremja alvarleg brot eða skipa öðrum að fremja slík brot. Þau leiti þeirra einstaklinga sem sakaðir eru um að hafa framið brot eða skipað öðrum að brjóta sáttmálana, þar með talin brot vegna aðgerðaleysis þegar mönnum ber skylda til að bregðast við…Sérhver samningsaðili verður einnig að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir brot sem eru ekki alvarleg en brjóta samt í bága við sáttmálan."
Þar sem Ísland hefur ekki enn, um hálfa öld eftir að þessir sáttmálar tóku gildi, uppfyllt skuldbindingar sínar að setja viðurlög gegn stríðsglæpum, kynna Genfarsáttmálana fyrir almenning og koma í veg fyrir þátttöku Íslendinga í brotum á þessum sáttmálum, spyr ég:
1. Hverjar eru ástæður þess að Ísland hefur ekki enn uppfyllt skuldbindingar sínar sem það undirgekkst við undirritun sáttmálanna ?
2. Ætlar þú að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um löggildingu Genfarsáttmálanna hér á landi, beita þér fyrir almennri kynningu á þeim og láta kanna ásakanir undirritaðs um þátttöku Íslendinga í stríðsglæpum ?
Um leið og ég óska eftir svörum við ofangreindum spurningum, leyfi ég mér að benda á ráðgjafaþjónustu Alþjóða rauðakrossins í Genf um alþjóða mannúðarlög ("Advisory Service in International Humanitarian Law"), sem var sett upp til að aðstoða aðildarríki við lagagerð og fleira sem tengist skuldbindingum ríkjanna við þessa sáttmála.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson
Samrit:
Davíð Oddsson, forsætisráðherra
Guðjón Magnússon, formaður, Rauðikross Íslands
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. ráðherra
Ágúst Þór Árnason, Mannréttindaskrifstofa Íslands