Auglýsing í Lögbirtingarblaði
Auglýsing í Lögbirtingarblaði
Eitt af verkum lögmanna og annarra starfsmanna réttarkerfisins er að fylgjast með auglýsingum í Lögbirtingablaði. Þótt slíkar auglýsingar geti verið óþægilegar og komið illa við almenna borgara, á það síður við um réttarkerfismenn. Að því leyti sem auglýsing gæti átt við um þá sjálfa, sem kemur fyrir, eru menn jafnan búnir að sjá afleiðingar þess fyrir í aðalatriðum.
Athuganir réttarkerfismanna á Lögbirtingablaðinu miða helst að því að fylgjast með uppboðum og missa ekki af kröfulýsingarmöguleikum gjaldþrotabúa og öðru slíku. Lestur Lögbirtingablaðsins getur naumast verið réttarkerfismönnum skemmtilestur. En hann getur verið nauðsynlegur til að komast hjá áföllum í lögmannsstarfinu. Víst kemur fyrir að þar eru birtar auglýsingar um álitlegar lausar stöður í réttarkerfinu sem og aðrar opinberar stöður. En yfirleitt eru þeir réttarkerfismenn sem helst láta sig varða slíkar auglýsingar búnir að fá upplýsingar um þessar lausu stöður alllöngu fyrr. Þeir sem hafa áhuga á hreyfingum og uppgangi manna í réttarkerfinu eru oft búnir að sjá stöðubreytingar í höfuðatriðum fyrir, miðað við að meginviðmið um starfsferil, ættartengsl og stjórnmálaafsatöðu haldi. Sumum er það býsna flókin og ögrandi gáta að spá fyrir um jafnvel þrjár til fjórar stöðutilfærslur innan réttarkerfisins, sem stundum gerist þegar ein há staða losnar. Að þessu frá töldu er erfitt að ímynda sér að efni Lögbirtingablaðsins geti verið réttarkerfismönnum áhugaverð lesning, því fræðilegi þáttur lögfræðinnar, lögin sjálf, eru birt í Stjórnartíðindum.
Höfundur hafði ekki minnstu hugmynd um fyrr en í janúar 1995, að hann ætti eftir að bíða eftir auglýsingu í Lögbirtingablaðinu með eftirvæntingu, en að því kom. Eftir leyndarbréfaferilinn, gerð og útsendingu Skýrslunnar frá 20. okt. 1994, viðbragðaleysi viðtakenda, en fyrir ráðgerða bókarútgáfu, þótti við eiga að gefa viðtakendum enn formlegan kost á því að bera fram mótmæli og gera athugasemdir við efni Skýrslunar. Auðvitað var mögulegt að senda þessum talsvert á annað hundrað viðtakendum sérstök bréf þar um, en háttvísi mín sagði mér að næstum nóg væri komið af sendibréfum. Auglýsing í blaði væri álitlegri. Í henni mundi felast opinber sönnun um að viðtakendur hefðu fengið tækifæri og ef til vill mundi hún vekja athygli á bókinni, sem nú átti að verða áhrifavaldur. Vandalaust var að velja fjölmiðilinn. Enginn kom til álita á undan Lögbirtingablaðinu.
Föstudaginn 6. janúar 1995 hringdi ég í útgefanda Lögbirtingablaðsins og ábyrgðarmann fyrir hönd Dómsmálaráðuneytisins, Margréti Steinarsdóttur. Ég sagði Margréti frá hug mínum til að auglýsa í Lögbirtingi og las fyrir hana uppkast að auglýsingunni. Margrét sagðist ekki sjá neitt athugavert við að birta auglýsinguna, en þar sem efni hennar væri óvenjulegt, myndi hún ekki birta auglýsinguna nema að höfðu samráði við yfirmann í Dómsmálaráðuneytinu, Jón Thors. Það voru góð tíðindi að auglýsingin skyldi lenda á borði Jóns Thors, fyrst hún þurfti að fara niður í Dómsmálaráðuneyti. Ég hafði af og til í um þrjátíu ár átt skipti við Jón Thors og ég taldi mig hafa fengið réttar niðurstöður erinda sem hann hafði afgreitt. Jón var stundum nokkuð seinn til svara, þó ekkert umfram aðra í Ráðuneytinu. Eitt orð átti betur við embættisfærslu Jóns en flest önnur, það er orðið Òkorrekt".
Mánudaginn 9. janúar afhenti ég auglýsingu mína til Lögbirtingablaðsins ásamt bréfi með stuttri greinargerð fyrir óskum um birtingu. Margrét tók erindinu vel og vonir stóðu til að auglýsingin yrði birt miðvikudaginn 18. janúar 1995.
Miðvikudaginn 11. janúar hafði ég samband við Margréti sem hafði strax mánudaginn áður sent erindi mitt á faxi niður í Dómsmálaráðuneyti. Margrét hafði ekkert frétt. Aftur hringdi ég í Margréti fimmtudaginn 12. janúar og spurði frétta. Hún hafði þá náð í Jón Thors og hann sagt að hann hefði séð erindi mitt lauslega, en jafnframt sagt að hann þyrfti nokkurn tíma til að afgreiða málið. Margrét var bjartsýn á að afgreiðsla drægist ekki lengi. Ég sagði Margréti að ég óttaðist að svarið yrði neikvætt og byggði það á því að menn gætu verið fljótir að segja já. En ég hafði óskað eftir að neitun Lögbirtingablaðsins, ef til hennar kæmi, yrði rökstudd. Til þess þyrfti tíma. Margrét gaf ekkert út á það, en næsta mánudag, 16. janúar, hringdi hún og sagði að afstaða Dómsmálaráðuneytisins lægi fyrir og auglýsingin mundi birtast í Lögbirtingablaðinu næsta föstudag 20. janúar 1995 og það stóð. Þarna var auglýsingin komin á besta stað á forsíðu Lögbirtingablaðsins nr. 6/1995.
Nú höfðu tíðindi gerst. Réttarkerfið hafði með tveimur fyrstu bréfum Hæstaréttar vísað erindum mínum frá og það höfðu aðrar réttarkerfisstofnanir gert í verulegum mæli þegar undan er skilinn Héraðsdómur Vestfjarða. Að þessu frá töldu höfðu réttarkerfismenn naumast brugðið öðru fyrir sig en þögn og aðgerðaleysi. Hér var einn angi réttarkerfisins, Lögbirtingablaðið, farið að svara og það sem meira var, svarið var jákvætt. Gat þetta verið? Var um að ræða mistök? Gat verið að Dómsmálaráðuneytið hefði tekið sér vikutíma til að athuga auglýsingu um meint lögbrot Hæstaréttar og síðan ákveðið að birta hana í málgagni sínu, Lögbirtingablaðinu?
Á þeim árum sem ég var í Lagadeildinni, í kringum 1960, hefði ég talið óhugsandi að prófessorar Deildarinnar og sakadómarinn í Reykjavík, Valdimar Stefánsson, hefðu tekið því þegjandi að auglýsing birtist í Lögbirtingablaðinu um meint lögbrot, einkum tengd þremur leyndarbréfum Hæstaréttar Íslands og forseta Hæstaréttar og viðbrögð opinberra aðila við þeim. Svo ekki sé nú talað um dómara í Hæstarétti. Á þeim tíma var Hæstiréttur á slíkum stalli að orðin: Òlögbrot starfsmanna Hæstaréttar" áttu tæpast saman. Auglýsingin hefði án umsvifa leitt til opinberrar rannsóknar.
Auglýsingin í Lögbirtingablaðinu nú var einnig slíkt stílbrot frá fyrri afstöðu réttarkerfisins að skýringar voru forvitnilegar. Ekki þurfti að efast um að Margrét ábyrgðarmaður hefði fengið samþykki Dómsmálaráðuneytisins til að birta auglýsinguna. Þó gat verið um einhvern misskilning að ræða. Eftir að ég frétti að Jón Thors teldi sig þurfa tíma til svara erindi mínu átti ég von á að það væri til skoðunar hjá æðstu mönnum Dómsmálaráðuneytisins. Ég hef áður fjallað um meinta skipulagða þögn fjölmiðla um viðbrögð opinberra aðila við leyndarbréfaerindum mínum. Taldi ég að yfirstjórn þagnarinnar hefði verið í höndum dómsmálaráðherra, þótt forseti Hæstaréttar hafi einnig reynt með öllum ráðum að koma í veg fyrir birtingu samantektarinnar og fyrsta leyndarbréfsins eins og segir í öðru leyndarbréfinu til stjórnar Lögmannafélagsins. Með það í huga gerði ég tæpast ráð fyrir að auglýsingin yrði birt nema með samþykki æðstu manna Dómsmálaráðuneytisins. Líkurnar á að það samþykki yrði veitt hafði ég talið litlar.
Hinn kosturinn sem Dómsmálaráðuneytið hafði, að neita að birta auglýsinguna, var reyndar ekki góður. Þá var ráðgert, eftir skeytasendingar og eitthvert skark, að reyna að fá auglýsinguna birta í einhverjum viðurkenndum fjölmiðli, svo sem útvarpi eða blaði. Hefði sú athugasemd fylgt að auglýsingin hefði ekki fengist birt í Lögbirtingablaðinu. Sá meinbugur hefði einnig fylgt neitun Dómsmálaráðuneytisins, hefði til hennar komið, að Ráðuneytið og starfsmenn þess voru tæpast hæfir til að fjalla um neitun á birtingu auglýsingarinnar, vegna þess að efni auglýsingarinnar beindist að Dómsmálaráðuneytinu og ýmsum starfsmönnum þess.
Nánari athugun gat því bent til að í birtingu auglýsingarinnar fælust breytingar á afstöðu valdhafa í leyndarbréfamálinu. Höfundur taldi að meginforsenda þagnar og aðgerðaleysis réttarkerfismanna almennt væri sú að þeir treystu sér ekki til að brjóta gegn viðhorfum æðstu valdamanna og þeir treystu því jafnframt að samstaða og samtrygging kerfsins brysti ekki. Og hver gat verið meiri burðarás samtryggingarinnar í þessu máli en dómsmálaráðherrann? En svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Lögbirtingarblaðið var ekki aðeins opinbert málgagn Dómsmálaráðuneytisins, sem réttarkerfismenn gátu ekki sniðgengið ef það var þá yfirhöfuð eitthvað til sem ekki var hægt að sniðganga. Heldur varðaði efni auglýsingarinnar meint lögbrot æðstu manna réttarkertisins og tengdust að auki þorra dómara lýðveldisins auk annarra réttarkerfismanna. Þá var enn frekari tenging með sérstökum erindum skýrsluhöfundar til fjölmargra einstakra embættismanna réttarkerfisins og bókin ráðgerða mundi hnýta enn fastar saman tengsl þeirra við leyndarbréfamálið og aðgerðaleysi þeirra og þögn.
Þessi staða gat verið réttarkerfismönnum háskaleg. Ekki aðeins gagnvart einstökum málsaðilum eða sakborningum framtíðarinnar, sem gátu haft í frammi athugasemdir og jafnvel aðgerðir. Heldur þurfti ekki nema einn Òstrigakjaft" í sæmilegri stöðu fjölmiðils eða á Alþingi til að opna meint lögbrotamál og hyldýpi vanhæfis, sem leitt getur af leyndarbréfamálinu. Þá var tenging réttarkerfismanna við hin meintu lögbrot og núverandi dómsmálaráðherra ekki ákjósanleg. Að vísu liggur ekki fyrir hversu lengi Þorsteinn Pálsson gegnir embættinu. En báðir möguleikarnir, að hann sitji stutt eða lengi geta ekki verið viðunandi sem starfsaðstaða réttarkerfismanna, nema leyndarbréfamálið verði upplýst. Löng dómsmálaráðherraseta Þorsteins gefur tilefni til að óttast að einstöku menn sem ekki vilja þegja um leyndarbréf eigi .ekki leið upp á æðsta pallborð réttarkerfisins. Ef nýr dómsmálaráðherra tekur við embætti á næstunni er aldrei að vita hvað hann vill gera eða hvað hann kann að telja sig neyddan til að gera. Ekkert kerfi hefur reynst eilíft og kerfi hafa jafnan lifað því skemur sem þau hafa verið spilltari. Og nú var ný vá komin til fyrir þögult réttarkerfið. Lögbirtingablaðið.
Þar sem dómsmálaráðherrann hefði vafalaust getað haft síðasta orðið um efni Lögbirtingablaðsins má líta á birtingu auglýsingarinnar þar sem bakstungu. Þarf stóran skammt af umburðarlyndi og lipurð réttarkerfismanna til að taka erindum um meint lögbrot með þögn og aðgerðaleysi og eiga á hættu að embættum þeirra og starfsferlum sé spillt. En horfa jafnframt upp á auglýsingar í Lögbirtingablaðinu um hin meintu lögbrot. Þótt dómsmálaráðherrann hafi síðasta árið sýnt á sér ýmsar hliðar, á jafnvel skýrsluhöfundur erfitt með að trúa því að einmitt svona hafi hann viljað leysa málið. Enda ekki líkleg lausn til langframa. Þá eru tveir aðrir möguleikar. Að auglýsingin hafi verið birt fyrir athugunarleysi og mistök eða að dómsmálaráðherrann hafi ekki lengur þau tök í ráðuneyti sínu að hann fái ráðið hvað birtist í Lögbirtingablaðinu. Ekki skiptir öllu hver skýringin er. En freistandi er að meta auglýsinguna sem tímamótaatburð í leyndarbréfamálinu. Fjórða möguleikann má nefna. Að dómsmálaráðherrann telji ekki skipta máli hvað birtist í Lögbirtingablaðinu, en einnig sá möguleiki felur í sér breytta afstöðu um birtingar vegna leyndarbréfa og er að auki líklegur til að hafa eftirköst.
Þess má að lokum geta að Lögbirtingablaðið birti auglýsinguna aftur í 7. tölublaðinu 25. janúar 1995 vegna þess að handritið komst ekki alveg villulaust til skila í fyrri auglýsingunni. Mynd af Lögbirtingablaðinu er birt á bls.