Bandaríkjamenn ásaka leiðtoga Íraks (frétt)
Bandaríkjamenn ásaka leiðtoga Íraks
Frétt í Morgunblaðinu 11 maí 1996
New York, Reuter.
Yfir hálf milljón barna hefur látið lífið í Írak frá því að Sameinuðu þjóðirnar, SÞ, lýstu yfir viðskiptabanni á landið fyrir fimm árum. Á sama tíma hefur Saddam Hussein, leiðtogi landsins eytt yfir einum milljarði Bandaríkjadala, um 66 milljörðum ísl. kr., í byggingu 48 nýrra halla og lystisnekkju, að því er fullyrt er í fréttaþættinum “60 mínútum” sem sýndur verður á sunnudag í Bandaríkjunum.
Í þættinum segir að viðskiptabann SÞ hafi valdið skorti á matvælum, lyfjum og vatnshreinsibúnaði sem hafi orðið til þess að barnadauði hafi fimmfaldast.
Haft er eftir mannréttindahópum að 567.000 börn undir fimm ára aldri hafi dáið frá því að viðskiptabannið tók gildi en upplýsingarnar byggir hópurinn á tölum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO).
Fréttamenn “60 mínútna” ræddu einnig við Madeleine Albright, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sem viðurkennir að það, sem átt hafi sér stað í Írak, sé vissulega harmleikur [sjá ath.]. “En við vitum að hann [Saddam] ver ótrúlegum fjárupphæðum í þá hluti sem honum þykja máli skipta,” segir Albrigt (sic) og sýnir fréttamanni myndir af 122 metra lystisnekkju sem leiðtoginn er sagður eiga. Ekki var upplýst hvernig Bandaríkjamenn komust yfir mynd af skipinu. Auk skipsins nefndi Albrigt (sic) byggingu 48 halla og sagði áætlað að kostnaðurinn væri um einn milljarður dala.
* * *
Ath. Elíasar Davíðssonar Fréttin er ekki aðeins ónákvæm heldur vísvítandi röng. Madeleine Albright sagði nefnilega ekki við sjónvarpsþáttinn að henni þætti ástandið í Írak “harmleikur”, heldur sagði að þrátt fyrir dauða 500.000 barna, hefði stefna Bandaríkjanna gagnvart Írak, þ.e. viðskiptabannið, verið “þess virði”. Hér er nákvæmt orðalag þess hluta viðtalsins sem vék að viðskiptabanninu:
“Lesley Stahl: We have heard that a half a million children have died [in Iraq as a result of the sanctions]. I mean, that’s more children than died when – wh – in – in Hiroshima. And- and, you know, is the price worth it ?
Ambassador Albright: I think this is a very hard choice, but the price – we think the price is worth it.”