Bréf E.D. til Björns Bjarnasonar, 6.10.1988
Ólafsvík, 6. október 1988
Hr. Björn Bjarnason
Ritstjóri
Morgunblaðið
Aðalstræti 10
!01 R
Nýlega birtist í Mbl. skopmynd af þjóðarleiðtoga Palestínumanna, Yassir Arafat, eftir Sigmund.
Satt að segja var ég harmi sleginn að sjá þessa skopmynd, því hún minnti mig óþyrmilega á skopmyndir nasísta gegn gyðingum, sem birtust á valdatímum þeirra. Ég leyfi mér að senda þér nokkur sýnishorn af þessum ógeðfelldum skopmyndum, sem hjálpuðu á sínum tíma að festa í sessi fordóma og kynda hatur í garð gyðinga í Evrópu. Allir þekkjum við afleiðingarnar.
Yassir Arafat hefur um áraraðir gefið Palestínuþjóðinni von um frelsi og mannréttindi og breytt þessa þjóð úr hálfgleymdum og nafnlausum flóttamönnum í þjóð sem ber nafn sitt með stolti, hefur alþjóðlega vðurkennda forystu, hefur sinn fána og þjóðarsöng og tekur þátt í alþjóða samstarfi þjóða. Yassir Arafat hefur lagt líf sitt að veði fyrir það að bjóða Ísraelum sættir og sætir því fjandskap Sýrlendinga. Hann nýtur virðingar margra stjórnmálamanna í heiminum, einnig á Vesturlönum og í Ísrael, vegna hæfileika sinna og friðarvilja. Hann gerir sér far um að hitta og ræða við ísraelska þingmenn og við fulltrúa gyðingasamtaka, sem koma langar leiðir til að hitta hann. Hann leggur áherslu á friðsamlega lausn á deilu Palestínumanna við Ísraelsmenn með tilstilli Sameinuðu þjóðanna.
Arafat er ekki blóðþyrstur hryðjuverkamaður, eins og látið er í veðri vaka. Hann er framsýnn og hófsamur stjórnmálamaður. Hann er laus við trúarofstæki og hallast ekki að einni öfgakenndri stjórnmálastefnu. Þótt hann sé að einhverju leyti umdeildur, jafnvel meðal landsmanna sinna, nýtur hann trausts stórs meirihluta þjóðar sinnar sem sameiningartákn hennar, ekki ólíkt því sem á við forseta okkar Íslendinga á hverjum tíma. Færi ekki vel á því, að Íslendingar sýndu þjóðarleiðtoga Palestínumanna sömu virðingu og við væntum að aðrir sýni þjóðarleiðtoga okkar?
Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri því ég er viss um, að það er ekki ásetningur Mbl. að breiða út fordóma gegn Palestínumönnum né gegn viðurkenndri forystu hennar. Ég vona jafnframt að Mbl. sýni baráttu Palestínumanna og friðarafla í Ísrael fyrir réttlæti og frið, aukinn skilning.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson