Bréf E.D. til Halldórs Ásgrímssonar, 9.5.1996
Hr. Halldór Ásgrímsson
Utanríkisráðherra
Reykjavík
Fyrir einu ári skoraði ég á þig að beita þér fyrir því að Ísland hætti tafarlaust þátttöku í viðskiptabanninu gegn Írak, sem hefur þegar leitt til dauða um hálfrar milljónar óbreyttra borgara. Ég hef veitt þér heiðarlegt tækifæri til að takast á við þetta hörmulega mál og hélt mig við þá pólítiskar leikreglur sem fela í sér að einstaklingar mótmæli stefnu yfirvalda og sendi áskoranir.
En nú er tími pólítiskra mótmæla útrunninn. Það sem verið er að gera írösku þjóðinni í nafni siðmenntaðra þjóða er einn mesti glæpur þessarar aldar. Það er óafsakanlegur glæpur. Þeir sem bera ábyrgð á þessum aðgerðum, hvort sem það er með beinum hætti eða með liðsinni, verða að taka afleiðingar gerða sinna.
Því hef ég ákveðið að hefja réttarfarslegar aðgerðir gegn þér fyrir liðsinni við aðgerðir sem fela í sér manndráp, alþjóðleg hryðjuverk og stríðsglæpi. Það verða dómstólar, eða landsdómur, að skera úr um sekt þína eða sakleysi sitt.
Ég hef þegar sent forseta Alþingis erindi um ákæru gegn þér, í samræmi við gildandi lög um ábyrgð ráðherra og skv. 14. gr. stjórnarskrár. Ég sendi þér málsgögnin hér með, svo þú getir kynnt þér þau af eigin rammleik.
Ég undirstrika hér að þessar aðgerðir beinast ekki að æru þinni eða persónu, heldur að embættisverkum þínum, sem ég tel refsiverð. Ef þú hefur eitthvað þér til málsbóta, er ég að sjálfsögðu reiðubúinn að heyra það. Ég vona að þú munt ekki skorast undan að láta dómstóla skera úr ábyrgð þinni í þessu máli.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson
9. maí 1996