Bréf E.D. til Lögreglustjóra, 4.12.1998
Elías Davíðsson
Hörpugötu 14
101 Reykjavík
4. des. 1998
Lögreglustjórinn í Reykjavík
Hverfisgötu 115
105 R
Um: Bréf yðar frá 3. des. 1998
Ég þakka yður skjótt og efnislegt svar við fyrirspurn minni frá 26. nóv. s.l.
Í svari lögreglustjórans frá 3. des. er sagt:
"Málið berst ekki lögreglu sem kæra á hendur [E.D.] fyrir ónæði sem refsiverður verknaður heldur sem beiðni um aðstoð".
Af þeim sökum vil ég gjarnan vita hvaða reglur gilda um "aðstoð" af þessu tagi ? Getur hver sem er krafist "aðstoðar" lögreglunnar til að framfylgja eigin túlkun á lögum landsins, þótt ekkert sýnilegt framferði (t.d. ógnun) krefðist beinna afskipta lögreglunnar ?
Nú hefur lögreglan ekki getað sýnt fram að undirritaður hafi valdið "ónæði" heldur vísar hún á ósannaðar fullyrðingar annarra. Samt svipti lögreglan undirritaðan frelsi, þótt stutt hafi verið.
Forráðamenn Kringlunnar staðhæfa að undirritaður hafi brotið húsreglur með því að dreifa blöðum í húsnæðinu. Þessar húsreglur eru ekki bindandi fyrir lögregluyfirvöld. Lögreglan getur aðeins framfylgt landslögum, ekki einhliða reglum einkaaðila. Hafi undirritaður brotið landslög með því að dreifa þessum miðum, biður undirritaður um að fá vísbendingu þar um.
Ef lögreglunni hefur orðið á með því að handtaka undirritaðan án nægilegrar lagaheimildar, biður undirritaður um það, að málinu verði lokið með einfaldri afsökunarbeiðni. Hafi lögreglan hins vegar í hyggju að handtaka undirritaðan aftur við svipaðar kringumstæður, þætti undirrituðum eðlilegt að fá að vita hvaða lagalegar forsendur heimila slíka handtöku.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson