Bréf E.D. til Matthíasar Johannessen, 8.2.1998
Reykjavík, 8.2.98
Matthías Jóhannesen,
ritstjóri
Morgunblaðið
Ágæti Matthías,
Meðan ég nýt þess í auknum mæli að vera sá Íslendingur sem hefur sætt ritskoðun af ykkar hálfu lengst allra manna, eða samfellt í 17 ár, geri ég það stundum til dundurs að fletta blaðið þitt, enda fæst það í sjoppum í Reykjavík.
Í dag birtist Reykjavíkurbréf, að venju óundirittað (hvaða kommissar skrifaði það í dag?) með litla úttekt á þjóðarmorði, hreint fúsk.
Nokkur dæmi um fúskið:
1. Viðskiptabannið á Írak hefur ekki staðið í rúm sex ár heldur í rúm sjö ár (ágúst 1990-febr. 1998).
2. Staðhæft er að rúmlega helmingur barna í Írak væri á sjúkrahúsi. Hvaða vitleysa !
3. Haft er eftir fulltrúa UNICEF að það skiptir ekki máli hvort dánartalan sé 4.500 eða 4.299. En ekki sagt hvort þessi tala á við dag, viku, mánuð, ár eða allt tímabilið frá 1990.
5. Höfundur heldur því fram eins og óyggjandi staðreynd að uppfylli Írakar (höfundur á líklega við einn mann þótt fleirtalan sé notuð) settar kröfur (höfundur á líklega um kröfur Bandaríkjanna, þ.e. Sameinuðu þjóðanna), verður refsiaðgerðunum aflétt. Er höfundur skyggn? Það er alltaf hægt að setja nýjar kröfur, eins og dæmin sanna, til að tryggja að Írakar verði fátæk þjóð um ókomna framtíð. Það er styrkur írösku þjóðarinnar, sem byggist á ólíuauði, sem ógnar hagsmunum Bandaríkjanna, ekki einhver einræðisherra.
6. Höfundur heldur því fram að Saddam Hussein beri sökina á ástandinu sem ríkir í Írak. Saddam Hussein hefur ekki undirritað skipun um að svelta þjóð sína og valda dauða 750.000 barna. Það hafa aðrir gert. Viðskiptabanninu er ætlað að þjarma að almenningi, annars hefði bannið verið takmarkað við hergögn og til hallarbygginga Saddams Husseins.
8. Höfundur bendir til þess að Morgunblaðið hafi lagst gegn því að beita alþjóðlegum þvingunum á þeirri forsendu að þær bitni á þeim, sem síst skyldi. Þótt fagna beri slíkri yfirlýsingu, verður Morgunblaðið að gera meira til að sanna fyrir lesendum einlægni sína. Það er ekki nóg að skrifa eitthvað í þessum dúr í smáletri við hverja kvartmilljón barna sem verið er að drepa í Írak. Annað og meira þarf að koma til.
Ef þú getur hagnýtt þér eitthvað af þessum athugasemdum, þá er tilgangi þessa bréfs náð.
Með kærri kveðju,
Elías Davíðsson