Bréf Lögreglustjóra til E.D., 16.12.1998
Lögreglustjórinn í Reykjavík
Hverfisgötu 115
Reykjavík, 16 desember 1998
Elías Davíðsson
Hörpugötu 14
101 Reykjavík
varðar: bréf yðar, dags. 4. desember s.l.
Í bréfi yðar óskið þér eftir upplýsingum um ástæðu þess að lögreglan verður við beiðni öryggisvarðar verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar um aðstoð vegna ónæðis. Þegar lögreglan verður [við] beiðni um slíka aðstoð metur hún hvort brot hafi hugsanlega átt sér stað. Hún metur ekki eða tekur ákvörðun um hvert verður framhald málsins, þ.e. hvort að málið skuli rannsakað náðar eður ei. Þegar mál yðar barst lögfræðideild var tekin sú ákvörðun að hefja ekki rannsókn á málinu.
Samkvæmt 1. gr. lögreglulaga nr. 90,1996 er það hlutverk lögreglu að halda uppi lögum og reglu. 15. gr. s.l. kveður á um að lögreglu er heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau. Í því skyni er lögreglu heimilt m.a. að banna dvöl á ákveðnum svæðum, vísa á brott eða fjarlægja fólk. Í 16. gr. s.l. er fjallað um heimild lögreglu til að handtaka mann og færa á lögreglustöð eða á annan stað þarf sem lögregla hefur aðstöðu í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu. Samkvæmt 19. gr. s.l. er almenningi skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Ákvæði sama efnis er að finna í 9. gr. lögreglusamþykktar Reykjavikur nr. 625,1987 en þar kemur jafnframt fram að lögreglan getur vísað mönnum í burtu af almannafæri, sem með háttsemi sinni valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði. Almannafæri er skilgreint m.a. svo á 2. gr. áðurnefndrar samþykktar sem staðir, sem opnir eru almenningi, versalnir, veitingastaðir, o.fl. Brot gegn samþykktinni varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skulu refsimál rekin að hætti opinberra mála.
Þegar skýrsla lögreglu er skoðuð í máli yðar verður að skilja hana svo að þér hafið verið handtekinn þar sem þér neituðuð að hlýða fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa vettvang. Vonandi svarar þetta spurningum þínum (sic). Ef þér eruð ósáttir við svör mín varðandi störf lögreglumannanna er yður bent á að ræða við Geir Jón Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjón.
F.h.l.
(ólæsileg undirskrift)
Ath. Elíasar Davíðssonar við ofangr. bréf:
Samkvæmt ofangr. túlkun embættis Lögreglustjóra í Reykjavík hafa lögregluþjónar ótakmarkaða heimild til að handtaka menn hvar sem er, án sýnilegrar ástæðu, ef þeir eru beðnir um það af hálfu þriðja aðila. Svo virðist að það skipti máli hver það er sem biður um að fjarlægja fólk. Í réttarríki hljóta borgarar að gera þá kröfu til lögreglu, að hún meti hvort dvöl einstaklings á tilteknum stað ógni friði eða ei. Hún hefur enga heimild til að fjarlægja einstaklinga úr stað eingöngu vegna deilu þeirra um túlkun á lögum.
Í ofangreindu atviki sem átti sér stað við Kringluna ætti það að vera hlutverk lögreglunnar að verja þá sem njóta tjáningarfrelsis og láta samborgara sína fá blað í hendur, gegn þeirri ógn sem stafar af sjálfskipuðum öryggisvörðum og öðrum aðilum sem taka lögin í sínar hendur.
Svo virðist að það sé tilgangslaust að pexa áfram við lögmenn lögreglunnar. Í ofangreindu bréfi er engin tilraun gerð einu sinni til að meta aðfarir lögreglu gegn undirrituðum með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála um tjáningarfrelsi, né tilraun til að kanna hvort munur sé á því að afhenda vegfarendum blað, halda fjöldamótmæli eða ógna mönnum. Vegna þess er erfitt að bera traust til slíks embættis, sem ætti að vernda til jafns rétt allra borgara, þ.e. mannréttindi þeirra.