Bréf til forseta Alþingis um þátttöku ráðherra í glæpum
Bréf til forseta Alþingis um meinta þátttöku ráðherra í alþjóðaglæpum11. mars 1998 |
Reykjavík, 11. mars 1998
Hr. Ólafur G. Einarsson
Forseti Alþingis
Reykjavík
Við undirrituð leyfum okkur til að senda yður hérmeð, í nafni 183 einstaklinga, eftirfarandi skjöl um meinta þátttöku ráðherra í núverandi ríkisstjórn í alþjóðaglæpum.
Með þessu erindi, krefjumst við þess að Alþingi láti hefja opinbera rannsókn vegna stuðnings Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, við alþjóðleg hryðjuverk, stríðsglæpi og þjóðarmorð gegn almennum borgurum í Írak. Krafan er sett fram af bestu vitund og á grundvelli ákvæða þjóðaréttar sem hafa lagagildi á Íslandi.
Þann 28. apríl 1992 undirritaði fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, auglýsingu nr. 160, sem birtist þann sama dag í Stjórnartíðindum, um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990), sem fól í sér þátttöku í aðgerðum gegn írösku þjóðinni allri (sjá fskj. C1). Þessar aðgerðir hafa þegar leitt til dauða a.m.k. 600.000 barna í Írak og til alvarlegs heilsumissis enn fleiri barna (sjá fskj. A1-A16). Þessar aðgerðir eru í senn alþjóðleg hryðjuverk (sjá fskj. B2), stríðsglæpir (sjá fskj. B4) og þjóðarmorð (sjá fskj. B3).
Eftir embættistöku núverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, var skorað á hann margsinnis og með ýmsum hætti að binda enda á þátttöku Íslands í hinum villimannlegu refsiaðgerðum gegn almenningi í Írak (sjá m.a. fskj. C12 og C14). Það var og er á hans valdi að afturkalla þátttöku Íslands í þessum aðgerðum. Hann lét hins vegar þessar áskoranir eins og um vind um eyru þjóta. Frá því hann tók við embætti árið 1995 til dagsins í dag er áætlað að fleiri en 150.000 börn hafi látið lífið í Írak af völdum aðgerða sem hann studdi og styður enn.
Samkvæmt ákvæðum Nürnbergsáttmálans frá 1945, sem er hluti af hinum viðurkennda þjóðarétti, bera einstaklingar persónulega refsiábyrgð á þátttöku sinni í stríðsglæpum og þjóðarmorði án tillits til stöðu og þess hvort verknaðurinn hafi verið framinn í krafti embættis. Samkvæmt þessum sáttmála firrir hlýðni við glæpsamlegar tilskipanir annarra engan refsiábyrgð.
Það er jafnframt ófrávíkjanleg lagaleg skylda dómstóla í hverju ríki að refsa þeim einstaklingum sem dvelja innan lögsögu viðkomandi ríkis og hafa tekið þátt í stríðsglæpum (sbr. 146. gr. IV Genfarsáttmálans frá 12. ágúst 1949). Samkvæmt ákvæðum alþjóðasáttmála sem Ísland hefur samþykkt (European Convention on the Non-Applicability of Statutory Limitations to Crimes against Humanity and War Crimes, Strasbourg, 25. January 1974), fyrnist þáttaka í stríðsglæpum og í glæpum gegn mannkyninu (þ.e. þjóðarmorði) ekki.
Endaþótt það hafi verið öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem ákvað að beita Íraka viðskiptabanni, er framkvæmd bannsins í höndum aðildarríkjanna sjálfra, sem bera endanlega ábyrgð á afleiðingum gerða sinna . Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er ekki í stakk búið til að firra einstaklinga refsiábyrgð vegna brota gegn ákvæðum jus cogens, jafnvel þótt brotin séu framin að tilstuðlan eða samkvæmt skipun Sameinuðu þjóðanna (sjá nánar fskj. C1).
Enn er hvergi starfandi almennur alþjóðlegur dómstóll með umboð þjóða til að höfða mál gegn meintum stríðsglæpamönnum . Samkvæmt ákvæðum alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur undirritað og heitið að virða (Genfarsáttmálanna frá 12. ágúst 1949, sem voru fullgiltir af Íslands hálfu 10. ágúst 1965 og gengu í gildi að því er Ísland varðar 10. febr. 1966; viðbótarbókana við þessa sáttmála frá 1977; og alþjóðasáttmála gegn þjóðarmorði (1948)), ber íslenskum réttaryfirvöldum að lögsækja hvern þann sem tekur þátt í stríðsglæpum eða þjóðarmorði og fyrirfinnst innan íslenskrar lögsögu . Um hópaðild að refsiverðum verknaði og um stuðning við slíkan verknað er vísað til ákvæða í íslenskum lögum og til réttarvenju. Sá sem lánar öðrum hníf til drýgja morð er samsekur morðingjanum. Það er hins vegar aðeins á færi dómstóla að meta hlutdeild hvers þátttakanda þegar um hópaðild að refsiverðum verknaði er að ræða, s.s. í þessu tilviki, þar sem mörg ríki og fjölmargir einstaklingar eru aðilar að þjóðarmorði.
Við teljum okkur mæla fyrir munn allra þegar við höldum því fram, að erindi okkar sé sent af bestu vitund, að íhuguðu máli og vegna almannaheilla. Að baki kröfunni liggja margvíslegar siðferðilegar og réttarfarslegar ástæður.
Þar sem málið er bæði umfangsmikið og varðar meinta þátttöku ráðherra í auvirðilegustu glæpum gegn mannkyninu, teljum við undirrituð að saknæmi vegna þátttöku í viðskiptabanninu gegn írösku þjóðinni verði aðeins útkljáð með réttarfarslegum aðferðum. Meðan það hefur ekki verið gert, verður ásökuninni um glæpsamlegt athæfi haldið á loft.
Það er von okkar að Alþingi þjóðarinnar axli ábyrgð sína með því að takast á við þetta mál af fullri alvöru og með virðingu fyrir ófrávíkjanlegum þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og tryggi þannig stoðir lýðræðis og réttarríkis.
fyrir hönd 183 einstaklinga
Arnþór Helgason, deildarstjóri
Sigurður A. Magnússon, rithöfundur
Elías Davíðsson, tónskáld
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir
Sigrún Gunnlaugsdóttir, kennari
Meðf.
1. Áskorun frá 183 einstaklingum um lögsókn
2. Fylgiskjöl
A1 til A16: Um afleiðingar viðskiptabannsins á almenning í Írak
B1 til B4: Lagalegt mat á eðli viðskiptabannsins í ljósi þjóðaréttar
C1 til C20: Ýmis gögn (bréf, ávörp, greinar, ofl)
3. Ljósmyndir um afleiðingar viðskiptabannsins á börn