Bréf til Þorsteins Pálssonar, dómsmálar. vegna Genfarsamninganna
R. 25. júní 1992
Hr. Þorsteinn Pálsson
Dómsmálaráðherra
Arnarhvoli
Reykjavík
Í útvarpsviðtali í dag sagðist þú vilja láta kanna hvort rétt sé að lögleiða hér mannréttindasáttmála Evrópu. Ég fagna innilega þessari viðleitni þinni og vona jafnframt að þér takist í ráðherratíð þinni að festa mannréttindasáttmálann í íslenskri löggjöf. Bravó !
Jafnframt vil ég vekja athygli á því, að Ísland hefur enn ekki sett löggjöf í samræmi við skuldbindingar sínar gagnvart Genfarsáttmálunum frá 1949 og viðaukum þeirra, t.d. setningu laga um stríðsglæpi (sbr. t.d. 146 gr. fjórða Genfarsáttmálans). Slík löggjöf hefur verið sett í flestum Evrópuríkjum. Slík löggjöf – sem hefur yfirþjóðlega lögsögu – veitir þeim aðhald sem brjóta gróflega á réttindum fanga, sjúkra og íbúa hernumdra svæða. Ég hef kynnt mér rækilega þessi mál og fengið talsvert af gögnum frá erlendum ríkjum og stofnunum um þau.
Einnig virðist sem Ísland hafi ekki fyllilega staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Alþjóða sáttmála um borgaraleg og pólítisk réttindi (sem Ísland hefur staðfest). Ofangreindir sáttmálar hafa t.d. ekki verið kynntir almenningi né þýddir yfir á íslensku. Þeir finnast ekki einu sinni í almenningsbókasöfnum á frummálum. Í þessum sáttmálum eru þó ákvæði þar sem aðildarríki heita að standa að almennri kynningu á þeim.
Ég hef einnig fengið upplýsingar um það að ýmsir fulltrúar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hafi á fundum sínum í Genf gert athugasemdir um mannréttindamál á Íslandi, einkum um það að íslensk löggjöf tryggir ekki sem skyldi mannréttindi í samræmi við alþjóða sáttmálann um pólítisk og borgaraleg réttindi. Einnig er ljóst að lagaákvæði gegn kynþáttastefnu og kynþáttamismunun, sem sett voru í lög í framhaldi af undirritun Íslands undir alþjóða sáttmála um afnám kynþáttamismununar, tryggja ekki fyllilega framkvæmd þessa sáttmála. Þeim fáu ákvæðum sem hefir verið lögleidd er ekki heldur framfylgt í neinni alvöru (sbr. að fjölmiðlar birta óátalið – og í bága við lög – efni þar sem hvatt er beinlínis til kynþáttahaturs og mismununar eða kynt undir það).
Ég vona að þetta bréfkorn hvetji þig enn frekar til dáða í mannréttindamálum og óska þér velgengis í þessari viðleitni.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson