Eru kjarnorkuvopn lögleg samkvæmt þjóðarétti ?
Elías Davíðsson / 1995
Í mörg ár hafa friðarhreyfingar beitt sér gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna og þeirri ógn sem af þeim stafar. Stórveldin hafa reynt að draga úr þessu andófi með því að þykjast að vinna að heiðarlegri og almennri afvopnun. Þeim hefur tekist sæmilega vel að hylja markmið sín sem eru fyrst og fremst að tryggja einokun þeirra á slíkum vopnum, frekar en að útrýma þeim. Þessi viðleitni verður augljósari nú en áður. Að þessu verður m.a. vikið hér á eftir.
Þótt kjarnavopnum hafi ekki verið beitt síðan í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, stafar mannkyninu stöðug ógn af þeim. Hætturnar af slíkum vopnum eru margvíslegar: Tæknileg eða mannleg kjarnorkuslys, sú ógn að kjarnorkuveldi beiti þeim með takmörkuðum hætti til að gæða fælni trúðverðugleika og ekki síst sú spenna í samskiptum þjóða sem hlýst af tilvist þeirra og eykur tortryggni milli þjóðríkja. Þrátt fyrir allt, er kjarnaoddum enn beint að þéttbýlum svæðum víða um heim og ekki sést endir á þeirri ógn. Ekki má heldur vanmeta þá fjármuni sem hönnun, smíði, flutningur, geymsla, mönnun og förgun slíkra vopna gleypa. Þessa fjármuni hefði verið annars unnt að nýta til að vinna gegn hungri, fátækt, sjúkdómum og öðrum hörmungum sem hrjá stóran hluta mannkynsins, enda kemur meginhluti þessara fjármuna frá opinberum aðilum. Segja má að með því einu að láta smíða slík vopn (og reyndar flestöll önnur vopn) er þegar verið að dæma milljónir barna til ævilangrar örbirgðar. Þvi er sjálf framleiðsla kjarnorkuvopna þegar orðinn glæpur þótt þeim verður aldrei beitt.
Fælniskenning kjarnorkuveldanna fólst í því að halda fram að kjarnorkuvopn eigi aðeins að fæla en ætlunin sé alls ekki að beita þessum vopnum. En kenningin byggist á innri mótsögn. Til þess að fæla raunverulega, verður sá sem fælir að sannfæra andstæðinga sína að honum sé alvara með hótuninni og að hann gæti vel hugsað sér að beita vopnunum ef þörf krefur. Til þess að menn óttist þessum vopnum, til þess að fælingin hafi tilætluð áhrif, til þess að ógnunin verði trúverðug, verða eigendur slíkra vopna að geta sýnt umheiminum að þeir geti beitt vopnunum með örstuttum fyrirvara. Vopnin verða því að vera sett upp í árásarstöðu, fjarskiptakerfin tilbúin og æfð og þeim sem verið er að ógna verður allt þetta að vera ljóst. Fælingin er þannig stöðugur leikur að eldi, eins konar pókerleikur með lífi milljóna manna. Notkun kjarnorkuvopna í ógnunarskyni framkallar því óhjákvæmilega spennu í samskiptum þjóða og ríkja, ef ógnunin á að verða trúverðug.
Hvert er svar friðarsinna við kjarnorkuvopnum ?
Kjarnorkuvopn mynda gífurlegt veraldlegt vald í samþjöppuðu formi. En jafnvel öflugustu vopnin geta ekki tryggt öryggi til lengri tíma. Ísraelsríki, svo dæmi sé tekið, á a.m.k. 200 kjarnorkusprengjur, en þessi vopn eru algjörlega gagnslaus gegn uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum. Í raun eru Ísraelsmenn smám saman að uppgötva að vopn þeirra geta ekki tryggt öryggi Ísraelsmanna til frambúðar. Þeir geta ekki upprætt beiskju réttlausra og kúgaðra Palestínumanna með vopnavaldi heldur með því að bæta upp þann misrétti sem þeir ollu Palestínumönnum og sýna þeim þá virðingu sem Ísraelar sækjast eftir.
Eftir hrun Sovétkerfisins hefur komið æ betur í ljós að NATÓ-ríkin vilja ekki afnema kjarnorkuvopn, heldur tryggja alger yfirráð sín yfir kjarorkuvopnum. Slík stefna er þegar farin að valda spennu í alþjóðamálum og stuðlar að viðleitni fjölmargra ríkja – Pakistan, Indland, Norður-Korea, Írak, Íran, o.fl. – til að eignast eigin kjarnorkuvopn. Tilraunir NATÓ-ríkja til að takmarka útbreiðslu kjarnorkuvopna hljóta því að mistakast vegna stöðugra tæknifara og af því að sérfræðiþekking, þ.m.t. sú þekking sem tvífætlingar geta borið með sér í heilabúum sínum, þekkir engin landamæri.
Hnefarétturinn og réttarríki
Siðmenntuð samfélög hafa frá fornu fari uppgötvað notagildi réttarkerfis og skrifaðra laga, þótt öllum sé ljóst að lög sem slík geti ekki útrýmt afbrotum. Gildi laga er margþætt: Þau mynda formlegan ramma sem gildir fyrir alla og sem allir geta kynnt sér. Þannig draga þau úr geðþóttarmálsmeðferð í deilumálum. Mjög lítil samfélög, t.d. ættbálkar í Afríku, hafa geta blómstrað án formlegra lagabákns: Almenn hefð þar nægir fyrir dómara eða málamiðlara sem deiluaðilar treysta til að tryggja viðunandi lausn deilumála Nútíma samfélög eru stærri og flóknari. Með auknum samgöngum er samsetning íbúa sífellt að breytast: Menn flytjast burt og aðrir flytjast inn. Almenn siðferðisvitund dómara nægir ekki lengur til að tryggja viðunandi málsmeðferð. Dómstólar verða að geta byggt niðurstöður sínar á formlegum lagagrunni, skráðum fordæmum og öðrum skriflegum heimildum. Með því að skilgreina formlega viss atferli sem ólögleg eða refsiverð, er verið að hækka gjaldið sem sakborningar verða að borga ef sekt þeirra er sönnuð – með félagslegri útskúfun, með fjárhagssektum eða með frelsissviptingu. Lög skapa því óneitanlega aðhald. Vafalaust þjóna lög enn öðrum markmiðum.
Sama gegnir um alþjóða lög. Þótt engin lögregla hafi enn verið mynduð sem getur framfylgt brotum á alþjóða lögum, er margt svipað með þróun alþjóða laga og þróun landsréttar. Eðli laga er að þau gilda jafnt fyrir alla. Í þeim felst jöfnuður. Að sjálfsögðu er lögum ekki alltaf beitt eins réttlátt og æskilegt væri en það er ekki við sjálf lögin að sakast heldur við framkvæmd þeirra. Þeir sem gera lítið úr þjóðarétti af því að erfitt sé að framfylgja honum, misskilja hlutverk þjóðaréttar. Í ýmsum ríkjum er unnt að vísa til brota á þjóðarétti í málflutningi fyrir staðbundnum dómstólum, t.d. í sambandi við skaðabótamál, stríðsglæpi o.fl.
Að styrkja stoðir alþjóðalaga er eðlilegt viðbragð þeirra sem minna mega sín á alþjóðavettvangi, t.d. smáríkja, andspænis hnefarétti stórvelda. Þótt alþjóðalög geti ekki ein og sér komið í veg fyrir árásir eins ríkis á annað, gera þau samfélagi þjóða og ríkja kleift að grundvalla mótmæli og jafnvel refsiaðgerðir á sameiginlegum lagalegum grunni, sem öll ríki viðurkenna, frekar en á stjórnmálalegum aðstæðum, sem breytast dag frá degi. Ríki sem brjóta af sér gagnvart fjölskyldu þjóðanna uppskera fyrr eða síðar vanþóknun almenningsálitsins í heiminum. Viðskiptakeppinautar slíkra ríkja geta fært sér þessa vanþóknun í nyt.
Kjarnorkuveldin gera sér fulla grein fyrir þessari hættu og rembast því eins og rjúpa við stein til að koma í veg fyrir að kjarnorkuvopn verði lýst ólögleg. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur að undirlagi Samtaka óháðra ríkja hvað eftir annað samþykkt tillögur um gerð alþjóðasamnings sem myndi banna kjarnorkuvopn, en tillögur allsherjarþingins, þótt þær hljóti yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, hafa aðeins ráðgefandi hlutverk. Aðeins Öryggisráðið hefur framkvæmdavald en NATÓ-ríkin, sem hafa þrjá fastafulltrúa í ráðinu, geta auðveldlega beitt neitunarvaldi sínu gegn hvers kyns tillögu sem skerðir kjarnorkueinokun þeirra. Tillögunni um bann við kjarnorkuvopnum hefur því af skiljanlegum ástæðum aldrei verið vísað til Öryggisráðsins.
Af þessum ástæðum hefur andstæðingum kjarnorkuvígbúnaðar þótt rétt að undirbyggja betur baráttu sína. Sú leið hefur verið valin að freista þess að alþjóða dómstóllinn í Haag úrskurði um lögmæti kjarnorkuvopna samkvæmt þjóðarétti. Með slíkum úrskurði í farteskinu verður auðveldara að einangra kjarnorkuveldin og beita þeim þrýstingi.
Alþjóðlega friðarsambandið, International Peace Bureau (IPB), hefur unnið að þessu máli í nokkur ár. Í þessu sambandi eru flestar friðarhreyfingar í heiminum. Árangur af þessu miklu starfi er í fyrsta lagi ályktun sem samþykkt var á þingi WHO (alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar)1993. Þar er þeirri spurningu beint að alþjóða dómstólnum í Haag, hvort beiting kjarnorkuvopna samrýmist skyldum lækna og heilbrigðisstofnana. Bandaríkin reyndu að koma í veg fyrir þessari ályktun og samkvæmt óstaðfestum en þrálátum orðrómi, reyndu Bandaríkin að beita stofnunina fjárkúgun í þessu skyni.
Í nafni Samtaka óháðra ríkja, ætlaði Indónesía árið 1993 að leggja fram ályktun á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem farið er þess á leit við alþjóða dómstólinn í Haag að hann úrskurði hvort beiting kjarnorkuvopna geti verið lögleg samkvæmt þjóðarétti. Á síðustu stundu – og vegna gífurlegs þrýstings Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands – var ályktunin dregin til baka áður en hún var borin til atkvæða. NATÓ-ríki virðast hafa verið grípin skelfingu af ótta við að Alþjóðadómstóllinn fengi erindið og úrskurði kjarnorkuvopn ólögleg. Þetta sýnir að NATÓ-ríkin sjálf gera sér grein fyrir veikri lagalegri stöðu kjarnorkuvopna í þjóðarétti.
Hér er ekki rúm til að telja upp öll lagaleg rök sem mæla með banni kjarnaorkuvopna. Slíkar upplýsingar er að finna m.a. í sérstökum bæklingi sem IPB. gaf út og er hægt að panta hjá höfundi. Þess verður að geta að meira en 10.000 lögfræðingar, þ.m.t. prófessorar í þjóðarétti, hafa stutt þetta erindi. Meðal þeirra sem telja ljóst að beiting kjarnorkuvopna geti aldrei talist lögleg samkvæmt þjóðarétti eru fyrrverandi dómarar í Alþjóðadómstólnum. Meðal þeirra sem styðja þetta átak má nefna fjölda þingmanna í ýmsum löndum og Nóbelverðlaunahafa.
Í viðbót við þessar undirtektir, hefur "Samvískuyfirlýsingu gegn kjarnorkuvopnum" verið dreift víða um heim, sem ætlað er að óbreyttir borgarar undirriti. Í þessu plaggi lýsa einstaklingar að samkvæmt samvísku þeirra, getur beiting kjarnorkuvopna aldrei talist réttlætanleg. Þessum yfirlýsingum hefur verið sent í milljónatali til Alþjóðadómstólsins í Haag. Við mótun afstöðu sinnar, verður dómstóllinn að taka mið m.a. af gildandi alþjóðasamningum, ályktunum Sameinuðu þjóðanna og hefðarrétti. Samkvæmt Martens-klausunni svonefndu, verður dómstóllinn einnig að taka tillit til "samvísku mannkynsins" sem birtist m.a. í yfirlýsingum frjálsra samtaka og einstaklinga.
Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki greint frá þessum alþjóða sviptingum. Utanríkismálanefnd Alþingis hefur ekki heldur fengið málið til umfjöllunar. Á borði utanríkisráðherra Íslands liggur hins vegar erindi frá Alþjóðadómstólnum í Haag. Þar eru íslensk stjórnvöld beðin um að lýsa afstöðu sinni til lögmæti kjarnorkuvopna og senda dómstólnum greinargerð sína.