ESB smáklíkuræði, ekki lýðræði (grein)
ESB smáklíkuræði, ekki lýðræði (hluti)
Hannes Jónsson, fyrrv. sendiherra, Morgunblaðið 10. mars 2000
Á árum áðum, þegar Sovétríkin voru enn við lýði og styrktu áróðursstarf sósíalista um víða veröld, var blómatími hugtakabrengls og öfugmæla áróðursmanna rauða valdsins. Smáklíkuræði (oligarchy) Kremlverja var kallað “alþýðulýðræði, sem hið hið fullkomna lýðræði”. Upplogin og fegruð mynd af fullkomnleika fyrirmyndaríkisins og “alræði öreiganna” þar í landi var dásömuð. Hörmungrástand mannréttinda, heft persónu- og tjáningarfrelsi með refsirétti “gúlagsins” og geðveikrahælisins var skilgreint sem réttlátur áfangi í framfarasókn til hins fullkomna framtíðarríkis sósíalismans. Þagað var yfir morðum og manndrápum í milljónavís en menning og listir í sovétinu rómaðar. Ryðgað framleiðslu- og framleiðnirýrt kerfi efnahagsmála með tilheyrandi fátækt og lágu neyslustigi fólksins var í frásögninni puntað með merkingarlausu slagorðagljáfri.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég las um glansmynd Þórunnar Sveinbjarnardóttur af ESB í blaðinu 17. febrúar og halelújaboðskap Eiríks B. Einarssonar 4. þ.m. Hann gengur svo langt í öfugmælunum að skilgreina ESB sem “lýðræðisbandalag Evrópu”.
Hafa menn heyrt annað eins ?
Skoðum staðreyndirnar um stjórnskipun ESB.
Fjórar aðalstofnanir ESB
Stjórnskipun ESB endurspeglast í fjórum aðalstofnunum þess. Þær eru ráðherraráðið, framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið og dómstóllinn.
Valdið liggur fyrst og fremst hjá ráðherraráðinu. Það fer með æðsta ákvarðanavald í öllum málum, þar með talið löggjafarvald og vald til þess að gefa út tilskipanir og reglugerðir innan ákvæða ESB-samninganna. Einnig fer það með samningsréttinn við utanbandalagsríki, m.a. um sjávarútvegs-, tolla- og viðskiptamál. Það kýs framkvæmdastjórnina 4. hvert ár og dómara til 6 ára í senn. Það afgreiðir tillögur, sem framkvæmdastjórnin hefur átt frumkvæði að. Undir vald hennar á öllum þessum sviðum beygja sig liðlega 375 milljónir kjósenda, sem hafa engan rétt til að velja þennan æðsta ákvörðunaraðila ESB, heldur aðeins hlýða og nöldra.
Hafa menn heyrt áður um þvílíkt “lýðræði”, þetta fullkomna “Evrópulýðræði” ?
Kjósendur aðildarríkjanna hafa ekki rétt til að velja löggjafann.
Löggjafinn er ekki kjörinn lýðræðislegri kosningu heldur skipar ríkisstjórn hvers aðildarríkis einn fulltrúa í ráðherraráðið. Þeir eru því 15 í dag.
En atkvæðin í ráðherraráðinu eru ekki 15 heldur 87, af því að ríkjunum er mismunað.
Fulltrúar Breta, Frakka, Ítala og Þjóðverja fara með 10 atkvæði hver í ráðinu. Fulltrúi Spánar hefur 8 atkvæði. Fulltrúar Belgíu, Grikklands, Hollands og Portúgal 5 atkvæði hver. Fulltrúar Austurríkis og Svíþjóðar 4 atkvæði hver. Fulltrúar Danmerkur, Finnlands og Írlands 3 atkvæði hver. Fulltrúi Lúxemborg 2 atkvæði.
Hversu þungt halda menn svo að áhrifavægi Íslands yrði við þessar reglur, ef til aðildar kæmi ? Í mesta lagi 1 á móti 87.
Framkvæmdastjórnin, þingið og dómurinn
Í reynd er framkvæmdastjórnin önnur mesta valdastofnun ESB. Hún er ekki lýðræðislega kjörin í almennum kosningum heldur skipuð af ráðherraráðinu. Í henni eru nú 20 embættismenn, sem almennir kjósendur aðildarríkjanna eru ekki í neinum beinum tengslum við. Hún sér um daglegan rekstur ESB, tekur þátt í löggjafarstarfi þess með því að hafa frumkvæði og gera tillögur til ráðherraráðsins um ný verkefni og útgáfu laga, reglugerða og tilskipana, auk þess sem hún sér um að framkvæmd fjárlög sambandsins. Hlutverk hennar er þó ekki síst að sjá til þess að lög, reglur og tilskipanir ESB séu virt af aðildarríkjunum. Einnig gerir hún samninga við utanbandalagsríki og leggur fyrir ráðherraráðið til samþykktar. Hún er líka vörsluaðili samninga og hefur eftirlit með að ákvæðum þeirra sé framfylgt, stjórnar starfsliðinu og er í beinum tengslum við fastanefndir aðildarríkjanna og fulltrúa annarra ríkja, sem hafa fastanefndir hjá ESB.
Þriðja aðalstofnunin er Evrópuþingið. Reyndar er það öfugmæli að tala um þingið. Það er ekkert þing í okkar skilningi á löggjafarþingi heldur var það lengst af aðeins valdalaus ráðgjafarsamkoma, þótt hresst hafi verið lítillega upp á myndugleik þess á takmörkuðu sviði á undanförnum árum. Á því sitja nú 626 valdarýrir fulltrúar, kjörnir í almennum kosningum aðildarríkjanna. Það endurspeglar smávægi þess í huga hins almenna kjósanda, að kosningaþátttaka til þess er yfirleitt á bilinu 30-40%. Það er fyrst og fremst blekkingarpunt í stjórnskipun smáklíkuræðisins, þar sem 15 manna ráðherraráð fer með æðsta valdið og er löggjafinn, ekki þingið.
Um Evrópudómstólinn þarf ekki að fjalla að öðru leyti en því, að hann er kjörinn til 6 ára af ráðherraráðinu og dómar hans hafa forgang fyrir landsrétti aðildarríkjanna.
Stjórnskipulag af þessu tagi er ekki lýðræði. Það sér hver heilvita maður. Þetta skipulag kemur undir gömlu skilgreiningu forngrikkja á “oligarchy” eða smáklíkuræði. Það er ástæðulaust fyrir Íslendinga að láta telja sér trú um, að þetta sé lýðræði.
(…)