Fleiri hryðjuverkamenn taldir ganga lausir
Washington. AFP, AP.
Mbl. (19. september, 2001)
ÖRYGGISEFTIRLIT hefur verið hert um gjörvöll Bandaríkin sökum grunsemda um að samverkamenn flugræningjanna, sem flugu þremur farþegaþotum á World Trade Center í New York og Pentagon-bygginguna í Washington, leiki enn lausum hala þar vestra.
ÖRYGGISEFTIRLIT hefur verið hert um gjörvöll Bandaríkin sökum grunsemda um að samverkamenn flugræningjanna, sem flugu þremur farþegaþotum á World Trade Center í New York og Pentagon-bygginguna í Washington, leiki enn lausum hala þar vestra.
John Ashcroft, dómsmálaráðherra, hefur sagt að vera kunni að það kerfi sem hryðjuverkamennirnir studdust við og nutu aðstoðar frá geti enn verið við lýði í Bandaríkjunum. Kom fram í máli ráðherrans í gær að hann og yfirmaður Alríkislögreglunnar (FBI), Robert Mueller, hefðu rætt "fyrirliggjandi hættumat" og þar hefði m.a. komið fram sú sameiginlega niðurstaða þeirra að samverkamenn flugræningjanna, sem tengdust hryðjuverkasamtökum, kynnu enn að vera á kreiki í Bandaríkjunum. Robert Mueller sagði að alls hefðu um 50.000 vísbendingar, sem tengdust hryðjuverkinu síðastliðinn þriðjudag, borist Alríkislögreglunni um Netið. Um 8.000 hefðu borist í sérstakt símanúmer sem tekið hefur verið í notkun og svæðisskrifstofur FBI víðs vegar um Bandaríkin hefðu fengið um 26.000 til viðbótar. Kvað hann 500 manns vinna allan sólarhringinn að rannsókn málsins í Washington og víðar. Þá kæmu meira en 30 skrifstofur FBI og leyniþjónustustofnanir á vegum lögreglunnar að rannsókn málsins.
Rannsóknin hefur einnig tekið til annarra landa, m.a. Kanada, Japans, Þýskalands, Ekvador, Belgíu og Hollands. Húsleit hefur farið fram á 19 heimilum í Þýskalandi þar sem leitað er upplýsinga um þá Mohammed Atta, Marawan Al-Shehhi og Ziad Amir Jarrah, sem talið er að hafi lært flug í Bandaríkjunum eftir að hafa stundað nám í Hamborg.
Tölvugögn rannsökuð
Rannsóknin beinist og að samskiptum hryðjuverkamannanna um Netið. Heimildarmaður AP-fréttastofunnar greindi frá því að FBI hefði farið þess á leit við Microsoft-fyrirtækið að það léti í té útskriftir af samskiptum sem fram hefðu farið um tiltekna áskrift hjá Hotmail netþjónum. Svipuðum beiðnum hefði verið komið á framfæri við America Online og Earthlink. Þá er talið að nokkrir hinna grunuðu hafi nýtt sér almenningsbókasöfn í Flórída til að halda uppi tölvusamskiptum við samverkamenn sína.
Washington. AFP, AP.