Fréttatilkynning frá Elíasi Davíðssyni 3.2.1998
Fréttatilkynning frá Elíasi Davíðssyni
3. febrúar 1998
vegna áframhaldandi stuðnings utanríkisráðherra við glæpsamlegt athæfi
Í dag, 3. febr. 1998, birtist í DEGI blaðagrein eftir Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra um Írak, Sameinuðu þjóðirnar og ábyrgð Íslands. Í greininni rökstyður utanríkisráðherra stuðning sinn við aðgerðir gegn írösku þjóðinni sem þegar hafa leitt til dauða 750.000 barna.
Þar sem undirritaður hefur neyðst til að saka utanríkisráðherra opinberlega um þátttöku í alþjóðaglæpum gegn almennum borgurum í Írak, er rétt að eftirfarandi komi fram:
1. Undirritaður telur bæði óviðeigandi og siðlaust að svara í fjölmiðlum röksemdum utanríkisráðherra um lögmæti þjóðarmorðs. Ásökun um meinta þátttöku einstaklinga í alþjóðaglæpum er aðeins unnt að brjóta til mergjar fyrir dómi þar sem fylgt er viðurkenndum réttarreglum um málsmeðferð. Sé ásökunin röng ber að refsa þeim sem bera hana fram. Sé hún réttmæt, ber að refsa þeim sem taka þátt í þessum alþjóðaglæpum.
2. Eitt hundrað sjötíu og fimm Íslendingar, þar á meðal þjóðkunnir einstaklingar, hafa krafist þess að Alþingi láti hefja opinbera rannsókn vegna stuðnings Halldórs Ásgrímssonar við alþjóðleg hryðjuverk, stríðsglæpi og þjóðarmorð gegn almenningi í Írak. Að baki kröfu þessari liggur ítarlegt lögfræðiálit á afleiðingum og lögmæti viðskiptabannsins gegn írösku þjóðinni.
3. Telji utanríkisráðherra ómaklega að sér vegið með ofangreindum ásökunum – eins og hann gefur í skyn í grein sinni – er honum í lófa lagið að hreinsa mannorð sitt fyrir dómi.
Elías Davíðsson, tónskáld
Reykjavík, 3. febr. 1998