Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum (Alþingisumræður)
Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum
Umræður á Alþingi
Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. Umræða 19.3.98
Steingrímur J. Sigfússon: http://www.althingi.is/altext/122/03/r19163340.sgml "Markmið laganna er eins og greint er frá í 2. gr. að gera íslenskt yfirráðasvæði að slíku kjarnorku- og eiturefnalausu svæði og afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar. Að dómi okkar flutningsmanna væri með því dregið úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland, og síðast en ekki síst stuðlað að afvopnun og friði af Íslands hálfu.
Halldór Ásgrímsson: http://www.althingi.is/altext/122/03/r19165237.sgml Það er hins vegar svo að þó hér séu góðar fyrirætlanir í þessu frv. þá liggur fyrir, eins og ég hef sagt áður á Alþingi, að lög af þessu tagi standast ekki skuldbindingar okkar gagnvart Atlantshafsbandalaginu, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Ég tel því að ef slík lög yrðu sett þá væri það jafnframt yfirlýsing um að Íslendingar ætluðu sér að fara úr Atlantshafsbandalaginu og hætta samstarfi við það, m.a. samstarfi við Atlantshafsbandalagið um að vinna að útrýmingu kjarnorkuvopna.
Hjörleifur Guttormsson http://www.althingi.is/altext/122/03/r19165752.sgml "Ég er ekki í nokkrum vafa um að allt of fáir hafa gert sér grein fyrir inntaki hernaðarstefnu NATO. Við ræddum einmitt fyrr á þessum degi kjarnorkuvígbúnaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins og þá fælingarstefnu sem svo var kölluð sem hefur verið undirstaðan í hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Það eru vafalaust nokkur tíðindi fyrir ýmsa að að mati utanrrh. Íslands fari ekki saman að vera í Atlantshafsbandalaginu og að lögleiða á Íslandi friðlýsingu landsins gagnvart staðsetningu, geymslu og meðhöndlun kjarnorku- eða eiturefnavopna eins og segir í 1. gr. frv. Það má vel vera að skilningur hæstv. utanrrh. sé í samræmi við það sem ráðamenn í Atlantshafsbandalaginu segja. Ég vil ekki út af fyrir sig skera úr um það. En mér þykir trúlegt að þetta sé boðskapur sem hæstv. utanrrh. hefur hlýtt á og tekið góðan og gildan af sinni hálfu og metur það svo að þarna megi ekki stíga skref af þessu tagi, enda felist í því að Ísland væri að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu ef landið væri friðlýst gagnvart þessum tólum, þessum skelfilegu vopnum sem hér er um að ræða. Þá gera menn sér kannski grein fyrir því hvaða skyldur það eru sem Íslendingar eru að taka á sig með veru í þessu hernaðarbandalagi. Þeir eru að samsama sig þeirri stefnu að halda fyrir sig réttinum til að hafa, beita, jafnvel að fyrra bragði og raunar með skýrum hætti réttinum til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði."
Steingrímur J. Sigfússon http://www.althingi.is/altext/122/03/r19171624.sgml: Segjum að lagasetning eins aðildarríkis af þessu tagi samrýmist ekki skuldbindingum þess á grundvelli aðildar að NATO og jafngildi úrsögn úr bandalaginu, þá spyr ég náttúrlega í beinu framhaldi: Hvers vegna er það? Hvað er það sem brýtur í bága við stefnu NATO? Jú, er það ekki fyrst og fremst áskilnaður NATO til þess að beita kjarnorkuvopnum. NATO áskilur sér í fyrsta lagi réttinn á að búa yfir þeim, í öðru lagi að hóta beitingu þeirra og í þriðja lagi að játa hvorki né neita tilvist þeirra á einstökum stöðum á yfirráðavæði sínu, hvort sem er á landi, í herskipum eða flugvélum. Gott væri að hæstv. utanrrh. útskýrði hvort það er ástæðan.
Ef ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. metur það öðruvísi en t.d. forveri hans á stóli formanns í Framsfl., að lagasetning af þessu tagi sé ekki samrýmanleg skuldbindingum okkar á vettvangi NATO, þá væri mjög fróðlegt að fá að heyra í hverju það liggur. Ef ágiskun mín reynist rétt, um að það sé þessi kjarnorkuvígbúnaðarstefna, hvers virði eru þá yfirlýsingar Íslendinga um að hér skuli aldrei vera kjarnorkuvopn? Hvað var á bak við þær fullyrðingar? Voru þær ekki jafnmikið í ósamræmi við skuldbindingar okkar eins og lögfesting hins sama? Af hverju ekki? Hvað er að marka þá yfirlýstu stefnu íslenskra stjórnvalda frá 8. og fyrri hluta 9. áratugarins um að hér skyldu aldrei vera kjarnorkuvopn? Það var staðfest með samþykkt Alþingis 1985. Var eitthvað á bak við það? Voru það orð sem Íslendingar máttu hafa til heimabrúks en voru innihaldslaus gagnvart NATO eða kjarnorkuveldunum sjálfum, t.d. Bandaríkjunum?
Ég rifja upp, herra forseti, að þegar sá sem hér stendur lagði fram fyrirspurn og spurði þáv. hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson um það hvort hin yfirlýsta stefna Íslands um að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn tæki jafnframt til íslenskra hafna og til íslenskrar landhelgi og lofthelgi, þá svaraði þáv. hæstv. utanrrh., og varð heimsfrægt, að svo væri. Hann kvað þetta taka til hafna, komu erlendra herskipa í íslenskar hafnir og íslensku lofthelginnar upp yfir 12 mílna landhelginni. Þetta vakti mikla athygli og litla hrifningu í Bandaríkjunum að sögn. A.m.k. fór svo að þáv. hæstv. utanrrh. var á harðahlaupum næstu sólarhringa eftir að m.a. bandarískir fjölmiðlar höfðu slegið þessu upp, hugsanlega voru einhver viðbrögð. Þáv. hæstv. utanrrh. var á harðahlaupum við að draga úr gildi þessarar yfirlýsingar sinnar. Var það af þessum ástæðum? Var það af sömu ástæðum og hæstv. utanrrh. nú segir að þetta samrýmist ekki aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu?