Fyrirspurn um afstöðu Íslands til kjarnorkuvopna
Bréf til utanríkisráðuneytisins vegna afstöðu Íslands til kjarnorkuvopna
Frá Elíasi Davíðssyni 22.11.1994 (Bréfinu hefur ekki verið svarað) |
Í bréfi mínu til ráðuneytisins þann 29. jan. 1993 spurði ég um þær forsendur sem lágu að baki ákvörðun íslenskra stjórnvalda að greiða atkvæði gegn tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um gerð alþjóðasáttmála um bann við notkun kjarnorkuvopna. Í svarbréfi ráðuneytisins dags. 12 febr. 1993 er eftirfarandi forsenda gefin upp:
"Ekkert vestrænt ríki greiddi ályktuninni atkvæði í ár, fremur en undanfarin ár, þar sem ályktunin er ekki talin raunhæf."
Ég tel svarið ófullnægjandi þar sem engin skýring er gefin hvers vegna "vestræn ríki" neita að styðja slíkt framfaramál svipað og hefur verið gert í sambandi við efna- og sýklavopn. Ennfremur er erfitt að skilja hvers vegna 126 ríki, þ.m.t. Kína, Argentína, Mexico, Pakistan og Úkraina, svo dæmi séu tekin, skuli greiða atkvæði með ályktuninni. Er raunhæfni sérstakur eiginleiki "vestrænna ríkja" ?
Á s.l. viku lagðist Ísland gegn viðleitni meirihluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til að fá formlega álitsgerð frá Alþjóðadómstólnum í Haag um lögmæti þess að beita kjarnorkuvopnum eða ógna með þeim. Atkvæði "vestrænna ríkja" hafa í þetta skipti ekki dugað til að stöðva þetta framfaramál.
Í framhaldi af þessari atkvæðagreiðslu óska ég eftir svari á eftirfarandi spurningum:
- 1. Var afstaða Íslands til þessa máls (að fá úrskurð Alþjóðadómstólsins um lögmæti kjarnorkuvopna) rædd á fundum utanríkismálanefndar Alþingis ?
- 2. Óttast íslensk stjórnvöld að Alþjóðadómstóllinn kynni að telja kjarnorkuvopn ólögleg ? Ef svo, hvers vegna ?
- 3. Telja íslensk stjórnvöld að beiting kjarnorkuvopna geti verið lögmæt en ekki beiting efna- og sýklavopna ?
Virðingarfyllst,