Goðsögnin um gyðingaþjóðina
Elías Davíðsson, 1988
Á fyrra helmingi þessarar aldar gengu þær sögur milli manna, að gyðingar væru sérstakur kynþáttur, öðru nafni kynkvísl. Nasístar héldu á lofti þessum kenningum og mæltu fyrst með aðskilnaðarstefnu gyðinga og aría og síðan með útrýmingu hinna óæðri kynstofna, þar á meðal gyðinga. Allir þekkja þessa harmsögu evrópskra gyðinga og verður hún ekki rakin frekar hér.
Í millitíðinni hafa mannfræðingar og þjóðfélagsfræðingar kannað nánar þessa skilgreiningu á gyðingum. Það er nú samdóma fræðimanna, að gyðingar eru hvorki sérstakur kynþáttur né kynkvísl, heldur eingöngu einstaklingar, sem lúta gyðingatrú. Enn finnast þó margir Íslendingar, sem vegna villandi trúarfræðslu í skólum og kirkjum, tala enn um gyðinga sem kynkvísl eða þjóð, og halda í alvöru að gyðingar nútímans séu afkomendur Abrahams, Ísaks og Jakobs og eigi jafnvel tilkall til lands Fornhebrea !
Í lok síðustu aldar spratt í Evrópu hreyfing meðal gyðinga, sem kallaði sig síonista. Þeir sem aðhyllust þessari hreyfingu vildu endurreisa þjóðerniskennd meðal gyðinga, þ.e.a.s. vildu að gyðingar hætti að líta á sig sem Þjóðverja, Frakka, Breta, Rússa, heldur myndi gyðingaþjóð. Þessir menn áttu ekki erindi sem erfiði. Flestir gyðingar neituðu að eiga nokkur samskipti við þessa menn. Ein af ástæðum fyrir andstöðunni var sú, að franska byltingin gaf gyðingum í Evrópu von um að þeir ættu þess loksins kost á að njóta fullra mannréttinda og verða fullgildir þegnar þar sem þeir bjuggu en ekki undirokaður trúarhópur. Þeir vildu ekki stofna þegnskap sitt í hættu með því að lýsa yfir því að þeir væri aðskild þjóð. En síonistar grófu undan þessari viðleitni.
Fram að heimsstyrjöldinni síðari var hreyfing síonista heldur veik. Fjársterkum aðilum innan síonistahreyfingarinnar tókst að fá Breta til að leyfa gyðingum að flytjast til Palestínu – gegn vilja íbúanna sem þar bjuggu. Bretum var lofað að gyðingaríki í Palestínu gæti reynst breska heimsveldinu að liði í Austurlöndum nær. En síonistar gátu ekki horft framhjá því, að áhugi gyðinga í heiminum fyrir endurreisn gyðingaríkisins í Palestínu var heldur dræmur.
Sá sem hjálpaði hvað mest fyrirætlanir síonista að reisa svonefnt gyðingaríki í Palestínu var Adolf Hitler. Með því að svipta þýskum gyðingum borgararéttindum sínum, reka marga þeirra úr landi og skipuleggja útrýmingu milljóna gyðinga um gervalla Evrópu, tókst honum það sem forráðamönnum síonista tókst ekki: Að kalla fram aðskilnaðarstefnu gyðinga. Það er á þessum grundvelli sem síonistum tókst að knýja fram stofnun Ísraelsríkis í Palestínu, á landi annarra manna.
Síonistum tókst þó ekki að fá alla gyðinga í heiminum til að flytja þangað né að sameinast eins og ein þjóð um fyrirætlanir sínar. Flestir gyðingar búa annars staðar en í Ísrael og hafa engan áhuga að styrkja sérríki gyðinga. Flestir gyðingar í dag búa í Bandaríkjunum og njóta þess að búa í samfélagi, þar sem einstaklingum er ekki mismunað á grundvelli uppruna. Réttur þeirra til trúariðkana er hvergi betri, jafnvel ekki í gyðingaríkinu, en í því landi er frjálslyndum gyðingum gert erfitt um vik.
Hins vegar hefur síonistum tekist að leggja grundvöll að nýju samfélagi ísraelskra, hebreskumælandi manna. Þetta samfélag mun óhjákvæmilega fjarlægast með tímanum gyðingum í öðrum löndum og auka menningartengsl sín við nágrannaríki í Austurlöndum nær.