Greiningardeild stofnuð hjá ríkislögreglustjóra
ruv.is 3. febr. 2006
Greiningardeild, ný deild við embætti ríkislögreglustjórans, verður stofnuð samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra um nýskipan lögreglumála. Deildin á að sjá um rannsókn á landráðum, brotum gegn stjórnskipan ríkisins og fleira.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kynnti frumvarp um breytingar á skipan lögreglumála á ríkisstjórnarfundi í morgun. Samkvæmt minnisblaði um meginatriði frumvarpsins, verður stofnuð sérstök greiningardeild við embætti ríkislögreglustjóra. Þessi deild á að rannsaka landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum, og meta áhættu vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi.
Greiningardeildin á að endurspegla þróun hjá lögregluembættum í nágrannalöndunum. Það auðveldi íslenskum lögregluyfirvöldum samstarf við þær; en þetta séu þær deildir sem greini og meti hættu á skipulagðri eða alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Lagaákvæði um greiningardeild ríkislögreglustjóra tryggi að þeim sem falið sé að gæta öryggis borgaranna hafi sambærilegar heimildir í lögum og starfsbræður erlendis. Með ákvæði um greiningardeild sé lögregluyfirvöldum lagt til tæki sem síðan verði beitt í samræmi við heimildir í lögum um meðferð sakamála.
Þá er í frumvarpinu lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilt að stofna greiningardeild við önnur embætti lögreglustjóra, standi til þess sérstök rök. Mál af þessu tagi hafa verið lengi til umræðu í stjórnkerfinu, en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sagði til dæmis á fundi með sýslumönnum fyrir rúmu ári, að oft hefði verið bent á að hér væri ekki löggjöf um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Sú spurning yrði áleitnari með aukinni alþjóðavæðingu hversu lengi væri hægt að láta undir höfuð leggjast að ræða lagafrumvarp um þetta á Alþingi.