Harmsaga Palestinumanna: Greinasafn um atburðina 1948
Harmsaga Palestínumanna: Greinasafn um atburðina 1948 |
Árið 1948 urðu þáttaskil í sögu Palestínuþjóðarinnar. Með stofnun sértrúarríkis gyðinga í Palestínu, hernaðarlegum sigri síonista á herjum araba, brottrekstri 700.000 Palestínumanna úr landi sínu og tortímingu arabísks samfélags í Palestínu, var lagður grundvöllur að áratuga stríðsástandi og miklum þjáningum, sem engan endi virðist taka.
Þjóðir heims, einkum þó þær sem kenna sig við kristindóm og lýðræði, hafa sýnt þjáningum Palestínuþjóðarinnar tómlæti, svo ekki sé meira sagt. Menn virtust lengi halda að vandi Palestínuaraba myndi leysast af sjálfu sér og þeir myndu smám saman sætta sig við ættjarðarmissi sinn.
Margir kannast nú við baráttu Palestínumanna gegn hernámi Ísraels á Vesturbakka Jordanár og á Gazaströndinni. Minna er vitað um rætur flóttamannavandamálsins og tilurð Ísraelsríkis á rústum Palestínu.
Með því að birta meðfylgjandi safn greina, sagna og heimilda um atburðina 1948, sem ekki hafa birst hér á landi, reynum við að veita lesendum betri innsýn í deiluna um Palestínu.
Höfundar eru flestir ísraelskir ríkisborgarar: Fyrsta greinin – Brottförin1948 – talsvert stytt, er eftir Simha Flapan. Hann var stofnandi og formaður ritstjórnar hins frjálslynda tímarits New Outlook, sem gefið er út í Tel Aviv. Hann lést 1987, en greinin birtist sumarið 1988 í hinu virta riti Journal of Palestine Studies, sem gefið er út í Washington. Greinin fjallar um brottrekstur Palestínuaraba frá þeim svæðum, sem Ísraelsríki lagði undir sig. Menntamenn meðal Palestínuaraba skrifuðu um þessa atburði löngu áður en vesturlandabúar fóru að kanna þetta tímabil. Það var því ekki fyrr en ísraelskir gyðingar staðfestu það sem Palestínumenn höfðu fyrir löngu lýst, að vesturlandabúar fóru að leggja við hlustir. Simha Flapan, Benny Morris, Amnon Kapeliouk og fleiri ísraelskir sagnfræðingar og blaðamenn hafa lagt sitt af mörkum til að skýra frá atburðunum í Palestínu á árunum 1947-1949 og birt bækur og fræðigreinar um þessi efni. Margt er þó enn á huldu um þetta tímabil, því ísraelsk yfirvöld hafa ekki enn leyft birtingu fjölda skjala frá umræddum tíma.
Þvínæst fylgir listi yfir palestínskar byggðir, sem jafnaðar voru við jörðu frá og með 1948. Skrá sú sem hér fer á eftir er unnin af Svisslendingnum Christoph Uehlinger árið 1987. Engin opinber gögn eru til í Ísrael um þau þorp sem jöfnuð voru við jörðu, en margir Ísraelsmenn vita sannleikann þótt þeir reyna að fela hann fyrir sjálfum sér og öðrum. Dr. Israel Shahak , prófessor við Hebreska háskólann í Jerúsalem skráði fyrstur ísraelskra gyðinga nöfn þessara þorpa með hjálp gamalla landakorta og palestínska landafræðingsins Arif al-Arif frá Ramallah. Listinn sem hér er birtur er þó nýrri og nákvæmari.
Ekki flúðu allir Palestínuarabar land árið 1948. Sumir gátu ekki flúið. Sumir fengu að vera og vonuðust að geta lifað mannsæmandi lífi undir stjórn gyðinga. En réttur þeirra var virtur að vettugi. Þeir urðu að sæta mismunun samkvæmt lögum. Jarðir þeirra voru teknar af þeim. Grein Azriels Karlibach – Grát ástkæra fósturmold" – fjallar um landsstefnu síonista. Hann var stofnandi og fyrsti ritstjóri síðdegisblaðsins Ma’ariv í Israel. Greinin birtist í Ma’ariv árið 1953 og endurprentuð 13. febr. 1983 í sama blaði, þegar 27 ár voru liðin frá dánardegi höfundar. Hún er skrifuð í formi samtals föður og dóttur; dóttirin táknar hina ungu þjóð Ísraelsmanna. Hér talar maður sem finnur til með þeim þjáðu. Slíkar greinar hafa sjaldan birst í Ísrael. Höfundur skynjar alvöru þess ranglætis, sem landsmenn hans fremja og sér letrið á veggnum:
"Ég er mjög hræddur þín vegna, dóttir mín, því ég óttast að þegar þú verður stór, þá falli það í þinn hlut að gjalda fyrir allt þetta. Ég veit ekki hvenær, eða hvernig, eða með hverju, kannski, vona ég, aðeins með peningum, en kannski líka með blóði þegar þú eða sonur þinn farið í stríð……Dag nokkurn…mun þetta hefna sín á okkur…Sumar þjóðir, með vonda samvísku og flekkaðar hendur, verða einhvern tíma að játa og gjalda…Sumir ráðherrar verða neyddir…til að undirrita hátíðlega samninga: ‘Við höfum syndgað, við erum sek og þetta er syndaaflausn okkar…"
Havah Halevi fæddist og ólst upp í samyrkjubúinu Gan-Shmúel og býr í Jerúsalem. Smásaga hennar, Mórberjakeimurinn, sem hér birtist í þýðingu Kristínar Thorlacíus, er átakanleg frásögn um það hvernig ísraelsk kona uppgötvar smám saman það mikla ranglæti sem "fólkið hennar" hefur valdið arabískum íbúum landsins. Og það rennur upp fyrir henni að ættland hennar sé "einfaldlega keimurinn af mórberjum í munni, lykt af ryki, rök mold á vetrardegi, himinbláminn" og að það tilheyri ekki síður Rashid, barni arabísks nágrannaþorps, sem Ísraelar höfðu jafnað við jörðu.
Þann 9. apríl 1948 réðust herdeildir síonistasamtakanna Irgún og Lehi (Stern) á þorpið Deir Jassin skammt frá Jerúsalem og drápu í köldu blóði flesta íbúana. Menachem Begin, sem var á þeim tíma einn af foringjum samtakanna Irgún, skrifaði í bók sinni The Revolt, sem út var gefin 1951, að án blóðbaðsins í Deir Jassin hefði Ísraelsríki ekki geta orðið til; atburðurinn hafi nefnilega leitt til þess að fjölmargir Palestínuarabar flúðu skelfingu lostnir frá heimilum sínum af ótta við að verða fórnarlömb annarra slíkra óhæfuverka. Formaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins, Svisslendingurinn Jacques de Reynier, skráði það sem hann sá í Deir Jassin eftir blóðbaðið. Skýrsla hans, Blóðbaðið í Deir Jassin, sem birtist hér óstytt, er ekki eina heimildin um atburðinn en e.t.v sú ítarlegasta og er oft vitnað til hennar.
Palestínumenn hafa verið hraktir frá landi sínu. Byggðir þeirra voru lagðar í rúst. Reynt hefur verið að má öll ummerki palestínskra byggða og palestínskrar menningar. Þannig vildu síonistar sanna hvernig þeir "breyttu eyðimörk í aldingarð". Minning Palestínu lífir þó, ekki aðeins í hugum eldri Palestínumanna, heldur einnig í minjum sem tekist hefur að varðveita, ljósmyndum, skáldskap, handiðn og ekki síst í þeim ásetningi Palestínuþjóðarinnar að endurreisa land sitt á lýðræðislegum grunni, í friðsamlegri sambúð allra Palestínumanna, án tillits til trúarbragða. Megi sannleikur, réttlæti og umburðarlyndi sannarlega leiða til friðar í Palestínu.
Elías Davíðsson
September 1989
Ályktun Alþingis um Palestínumálið
Kort yfir Palestínu / Ísrael