Heil kynslóð íraskra barna að þurrkast út (grein)
Heil kynslóð íraskra barna að þurrkast út
Eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur, í Morgunblaðinu 14. og 21. maí 1995 (úrdrættir)
Ahmed Hassan, yfirlæknir við barnasjúkrahúsið Al Aliya í Bagdad fór með mér um nokkrar stofur þó mér væri ljóst að hann hefði öðru mikilvægara að sinna en mér. Hvarvetna horfði ég á fárra mánaða gömul börn berjast fyrir lífi sínu, sum voru að dauða komin. Þau deyja úr hörgulsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, niðurgangssjúkdómum, sýkingum, öndunarsjúkdómum, lungnasjúkdómum. Sum sem þjást af meltingarsjúkdómum eru beinlínis að skrælna upp vegna þess að sjúkrahúsið fær ekki nema fáeina poka af vökva á hverjum degi. Það hrekkur ekki langt til að reyna að vinna á móti vökvatapinu. "Ég tel að af 80 börnum hér núna eigi um helmingur lífvon", sagði Hassan læknir.
Ég nam staðar hjá örlitlu barni sem virtist varla meira en 4 merkur, leit spyrjandi á Hassan. "Nei þessi er orðinn 4ja mánaða og 6 merkur, hann á eftir að pluma sig," sagði læknirinn og móðirinn sem sat hjá barninu ljómaði af fögnuði.
Það er óbærilegt að koma á spítalana, horfa á þessu hrjáðu, veiku börn, sum eins og gamalmenni í framan; þó þau lifi þá spyr maður sig, hvort þau verði nokkurn tíma eðlilega heilbrigð.
Heil kynslóð að þurrkast út
Mér fannst óbærilega tilgerðarlegt að ganga þarna um með myndavél og hrípa niður línur, smella myndum af veikum börnum og mynda þessar svartklæddu konur, mæðurnar sem sátu með steinrunnin andlit á rúminu hjá börnunum.
Mörg barnanna eru 4 merkur við fæðingu – ekki vegna þess að þau séu fyrirburar heldur af því að móðirin hefur verið meira eða minna vannærð á meðgöngutímanum. Seinna sagði Das Gupta, starfsmaður UNICEF í Bagdad mér að vannæring væri nú að verða slík að í bráðri hættu mætti telja 2,5 milljón ófrískar konur og börn.
Á Al Aliya sjúkrahúsinu er líka skortur á hitakössum svo að stundum gat að líta tvö eða þrjú börn, sum á stærð við fingur, saman í einum kassa.
"Röntgentækin eru meira og minna í lamasessi svo að börnin eru dáin áður en við getum greint sjúkleikann – svo fremi hann liggur ekki í augum uppi. Það sama gildir um aðra spítala. Þó erum við betur sett en sumir aðrir, barnaspítalarnir eru látnir ganga fyrir með lyf og vökvapoka. Það er ekki síst vökvapokar sem okkur vantar og stundum verðum við að skipta einum milli 2ja-3ja barna.
"Það sem er að gerast hér má orða mjög stuttlega: Það er að þurrkast út heil kynslóð af íröskum börnum og menn virðast kæra sig kollótta," sagði hann og reyndi að sefa móður sem sat með dáið barn í fanginu og var ófáanleg til að láta hjúkrunarkonuna taka það.
Fólk yfir sextugt fær ekki inni á sjúkrahúsum
Ég fór seinna á 300 manna spítala í fátækrahverfinu Saddam City í Bagdad. Þar býr um milljón manns, kannske þó fleiri. Forstjórinn Nasser sagði mér að ástandið væri þannig að spítalinn tæki ekki lengur við sjúklingum eldri en 60 ára. "Það eru venjulega hjartaáföll, heilablóðfall eða nýrnasjúkdómar sem hrjá þetta fólk. Við höfum fengin lyf og engin tæki í lagi til að hlynna af því. Það verður að deyja drottni sínum heima, stundum eftir miklar raunir. Fjölskyldur tóku þessu illa fyrst, en nú er kominn svo mikill sljóleiki yfir fólk að það lætur sig þetta litlu skipta. Fólk deyr ekkert siður í heimahúsum og þa sama á reyndar við um mörg börn líka. Samt reynum við með hjálp írösku kvennasamtakanna að ýta undir að komið sé með þau. Svo að við getum að minnsta kosti reynt."
Þið blaðamenn og ykkar skrif skiptið engu
Á barnadeildinni voru krakkarnir 2-8 ára og í loftinu þessi þögla, þrúgaða skelfing. Við eitt rúmið sat amman hjá sonarsyninum sem var 4 ára. Hann var útblásinn í andliti og á handleggjum. Hún benti mér að koma nær og vafði dulunum utan af neðri hluta líkamans, maginn belgdur, fæturnir tvöfaldir, kynfærin bólgin. Drengurinn var með hálflokuð augu og brjóstið gekk upp og niður.
"Það var komið með hann fyrir nokkrum dögum, líklega er þetta sýking vegna mengaðs vatns eða af skemmdu mjöli. Við vitum það ekki enn því röntgentækin eru biluð og við eigum ekki von á varahlutum fyrr en eftir mánuð. Þessi drengur verður dáinn þá. Og margir, margir fleiri," sagði Nasser.
Hann horfði reiðilega á mig og myndavélina mína. "Af hverju tekurðu ekki mynd af honum. Hann er náttúrlega ekki frýnilegur. En það skiptir engu máli hvort þið blaðamenn komið eða ekki. Ég hef gengið um með mörgum blaðamönnum og sumir hafa þurft að kasta upp eða brotnað niður. Væntanlega hafið þið skrifað um þetta eða hvað ? En það hefur ekkert að segja."
Ég kastaði hvorki upp né brotnaði niður en ég tók ekki nema fáeinar myndir. Sama tilfinningin kom yfir mig og á barnaspítala dr. Hassans; það var svo mikið plat að svipta sér þarna eins og fín manneskja, með fylgdarmann frá ráðuneyti, úti beið bílstjórinn, hraðganga um stofurnar og svo var ég laus allra mála og gat bara farið. Ekki út í gleði borgarinnar, en altjent farið og eftir voru börn að þjást og deyja og svartklæddar starandi konur með kvöl í andlitinu.
400 börn á aldrinum 0-5 ára deyja á degi hverjum
Eftir því sem ég kemst næst eftir að hafa einnig blaðað í skýrslum frá UNICEF í Bagdad deyja að minnsta kosti 400 börn á aldrinum 0-5 ára á dag. Það eru 146 þúsund börn á þessum aldri á ári. Þetta gildir um þau börn sem er komið með á spítalana og má ætla að þessi tala sé nærri lagi. Tölur þær sem ríkisstjórnin hefur birt eru miklu hærri en þeim skyldi tekið með fyrirvara. Því ekki er skirrst við að nota barnadauðann í Írak sem tæki í áróðursstefnu við umheiminn.
Hið þögla neyð
Das Gupta komst svo að orði að Írak væri "hin hljóða neyð". "Þú sérð ekkk börn hér með útblásna maga eins og í sumum hungursneyðum Afríkulanda. Því reynir fólk að gera sem minnst úr þessum ótrúlegu hörmungum. Ástæðan fyrir því er sú að matarskömmtunarkerfið sem ríkisstjórnin kom á eftir stríðið gerir ráð fyrir að fólk geti fengið að kaupa bráðnauðsynlegustu matvæli á stórlega niðurgreiddu verði. Þetta hefur haldið hungurvofunni í skefjum. Þessi matarskammtur dugir fyrir um 70% af því sem talið er að fólk þurfi og þá er ég auðvitað að tala um lágmark. Og hvað segir þetta okkur svo: á þessum fimm árum er hægt og rólega verið að murka lífið úr þjóðinni, því í 5 ár hefur allan þorra fólks skort á hverjum degi 30% af því sem talið er að það þurfi til að lifa af. Fólk getur þolað slíka skömmtun í 1 ár án þess að bíða verulegt eða varanlegt heilsutjón, jafnvel í 2 eða 3 en nú eru senn liðin 5 ár og mig hryllir við hvað fer að gerast á allra næstu mánuðum ef svo heldur fram sem horfir."
Hann sagði að þeir sem hefðu skuldbundið sig til að leggja fram fé til UNICEF-hjálpar Íraks yrðu æ tregari til að reiða framlögin af hendi og ástandið hefði versnað mjög mikið síðasta árið.
Sjálf tel ég ekki nokkurn vafa á því að sú tregða stafar ekki hvað síst af andstyggð vestrænna stjórnmálaforingja á Saddam Hussein – þrátt fyrir orð og yfirlýsingar um að saklausir borgara eigi ekki að líða fyrir illsku hans.
Því Írak er ríkt land, sannkallað gnægtaland, og ef efnahagsþvingunum Sameinuðu þjóðanna væri aflétt mundi lífið smátt og smátt verða eðlilegt á ný og fólkið – þrátt fyrir dauða og hörmungar – gæti öðlast von um framtíð og kannski blómstrað aftur.
Glas af vatni
Mánaðarlaun starfsmanns hjá ríkinu eru 6 dollarar á mánuði eða sem svarar um 380 krónum og fæstir hafa annað en skömmtunarseðlana og atvinnuleysi er griðarlegt. Ég sá fólk betla á götum úti. Betl þykir ekki tiltökumál í mörgum íslömskum ríkjum. En að þessu leyti hafa Írakar um margt verið einstakir, stoltir með afbrigðum og ég hef aldrei nokkurn tíma séð þá betla fyrr.
Ef Íraki hefur hug á að fara til Jórdaníu eða Jemen sem eru einu ríkin sem hleypa þeim inn um stundarsakir verður hver að reiða fram 350 dollara. Þessi upphæð hafði verið 175 dollarar en var hækkuð þennan tíma sem ég var í landinu.
Það þarf engan að undra þó Bagdad sé reið borg, skítug og svo ólýsanlega hrygg. "Við erum að verða eins og dýr, við hugsum bara um að ná okkur í mat. Áður fyrr lásum við bækur, ortum ljóð og máluðum myndir. Þetta er liðin tíð. Hvernig ættum við að hafa hugann við annað en það að kíló af hrísgrjónum kostar mánaðarlaun og mjólkurduftapakki kostar tvöföld mánaðarlaun."
Þetta sagði Karim, kunningi úr fyrr Íraksferðum. Hann vinnur í Upplýsingaráðuneytinu. Hann bauð mér heim til sín og kona hans bar fram góðgjörðir: eitt glas af köldu vatni.
Karim drakk vatnið og leit á mig, hálfafsakandi: "Ég er vanari vatninu hérna, það gæti verið hættulegt fyrir þig."
Mér skilst að vatnshreinsistöðvar í landinu afkasti um að bil 50% af því sem var fyrir Flóastríðið.
Þegar ég var gestur þeirra hjóna fyrir fjórum árum eftir að efnahagsþvinganir höfðu verið í gildi í eitt ár, svignuðu borðin á notalegu heimili þeirra undan kræsingunum. Nú var snautlegra um að litast, teppi, myndir og alls konar "óþarfa dótari", eins og Karim orðaði það hefur verið selt fyrir mat. "Það gekk vel að selja fyrst, nú eru bara varla nokkrir nema fáeinir útlendingar sem hafa efni á að kaup neitt."
Að upplagi eru Írakar mestu höfðingjar heim að sækja allra Araba. Þessi "veisla" hjá Karim nú segir æði mikla sögu þeim sem þekkja arabíska gestrisni.
Þau áttu von á frænku Karims frá Amman í vikunni á eftir og vonuðu að hún kæmi með brauð og mjólkurduft. Hann sagðist þó hreint ekki vera svo illa settur. Hann vinnur í þessu ráðuneyti sem sér um erlenda blaðamenn og á því möguleika á að útvega sér dollara sem hann getur komið í verð.
Saddam við hvert fótmál
Þrátt fyrir allar efnahagsþrengingar hafa Írakar gert við eða endurreist allar brýrnar yfir Tigris sem rennur gegnum Bagdad. Og meira að segja byggt eina splunkunýja á tveimur hæðum. Þar af leiðir að nú er á ný harðbannað að mynda þessar brýr, þær flokkast undir hernaðarmannvirki. Við hvorn brúarsporðinn er stytta af Saddam Hussein, forseta þar sem hann réttir út höndina, föðurlegur og ábyrgur.
Þeir hafa reist Saddam-turn griðarlega voldugan sem er miðstöð fjarskipta. Það er líka harðbannað að mynda og dugir ekki að veifa dollurum framan í fylgdarmanninn. Ný málverk eða dýrðlegar mósaíkmyndir af Saddam sem voru ærin fyrir hafa sprottið upp og eru við hvert fótmál, hann í alls konar hlutverkum en umfram allt landföðurlegur og mildur. Það er svona allt að því ógerningur að snúa sér í hring án þess að sjá forsetann að minnsta kosti tvisvar á leiðinni.
(…)
Fyrir fáeinum árum var staða konunnar í Írak betri en gekk og gerðist í arabalöndum. Fyrir Flóastríðið voru til dæmis stúlkur í framhaldsskólum og háskólanámi fleiri en piltar. Konur unnu hvers kyns störf í samfélaginu og áhersla var lögð á að jafna laun karla og kvenna.
Nú er allt með öðrum brag. Efnahagsþvinganir Sameinuðu þjóðanna – sem settar voru upphaflega eftir að Írakar gerðu innrásina í Kúveit og hernámu landið í ágúst 1990 – hafa víðtæk og skelfileg áhrif á allt þjóðfélagið. Lyf og matvæli skortir og börn hrynja niður. "En það er fleira að gerast, við erum að rotna innan frá. Konan – og raunar karlinn ekki heldur – hvefur hvorki orku né tök á því að leggja rækt við sjálfa sig, hún má hafa sig alla við ef hún á að geta sinnt fjölskyldu sinni. Hún fær enga örvun til eins og neins því hugurinn er bundinn við að búa til einhvers konar naglasúpu úr engu, reyna að láta skömmtunarkortin hrökkva, bæta og staga í föt sín og sinna. Tilfellið er að íraskir karlar sættu sig bærilega við að konur ynnu utan heimilis og stæðu þeim jafnfætis í launum. Öllu þessu ástandi nú fylgir mikið álag á heimilin sem aftur smitar út í þjóðfélagið. Það er hættulegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið."
Konur vildu halda sínum hlut eftir Íran-Írakstríðið
Þetta sagði Fadhela Humaidi, sem er í framkvæmdastjórn Írösku kvennasamtakanna, þegar við hittumst á skrifstofu hennar í Bagdad. Hún sagði að verksvið samtakanna hefði breyst þessi fimm aár. "Við vorum komnar vel á veg, leiðbeininga- og fræðslustarf var mikilvægur þáttur í starfinu. En ekki síður að veita konum hvers kyns hvatningu og andlega örvun. Sjá til þess að þær nytu sín. Sjadórinn – svarti kuflinn – var allt að því óþekkt fyrirbæri hér í Bagdad bena hjá þeim efnaminnstu. Menntun var komin á mjög hátt stig. Konur gegndu mikilvægu hlutverki meðan Íran-Írak stríðið stóð yfir, ég staðhæfði að þær hafi beinlínis haldið þjóðfélaginu gangandi. Þær voru staðráðnar í að halda sinni stöðu og karlar voru yfirleitt sáttir við það og virtu sjónarmið þeirra. Ástæðan fyrir því að varla sést nú kona nema í sjador er ekki að við eigum að klæðast honum af trúarlegum ástæðum; með honum reyna konur að fela hvað þær eru fátæklega til fara. En auðvitað skiptir klæðnaðurinn ekki öllu máli. Það sem er ekki síður alvarleg er að börn, einkum telpur, detta út úr skólunum og hætta að læra. Þær eru látnar hjálpa til heima, heimilisstörf og vinna við þau hefur færst aftur um marga áratugi og einnig er móðirin svo þreklítil af langvarandi næringarskorti að hún á fullt í fangi með heimilisstörfin. Það er reynt að búa til eitthvert glingur og krakkarnir eru send með það út á götur til að selja frekar en fara í skólann. Það er varla hægt að lá þeim það þegar ekkert er til matarkyns á heimilinu. Oft eru þær sendar út að betla."
Það liður stundum yfir telpurnar af hungri
Einn morgun fór ég með frú Asmaai frá kvennasamtökunum í telpnaskóla fyrir 6-12 ára í Bagdad. Fólk í þessu hverfi var áður mjög þokkalega sett efnalega. Fardos Rahman skólastjóri tók á móti mér. Hún sagði að ekki hefði borið mjög mikið á því að stelpurnar hættu að mæta. "Það kemur æ oftar fyrir að telpur koma í skólann án þess að hafa fengið morgunverð og hafa ekkert nesti heldur. Það sem verra er, þær vita ekki hvort þær fái að borða um kvöldið nema kannski einhverja brauðmola og súpugutl. Einnig er farið að bera á því síðustu vikur og mánuði að stúlkur hafa liðið út af, þær eru orðnar svo þróttlitlar. Við höfum þungar áhyggjur, en getum lítið gert," sagði hún, enda er ekkert mötuneyti í skólanum. Með hjálp samtakanna væri reynt að hafa matargjafir til þeirra barna sem kennarar vissu að byggju hvað bágast. Hún sagði að margar telpurnar væru vannærðar og gengi illa að einbeita séer við námið. "Við höfum lítið sem ekkert getað endurnýjað skólabækur og við verðum að notast við gamlar og stundum úreltar bækur. Við erum við með naumt af öllum kennslugögnum og skömmtum alla blýjanta og stílabækur."
Lengi lifi okkar mikli leiðtogi
Hún bauð mér að ganga með sér inn í bekkjardeildirnar. Þegar við stígum inn í þá fyrstu hrökk ég í kút þegar sex ára stelpur stukku á fætur, réttu fram hægri höndina og hrópuðu hástöfum: "Lengi lifi hinn mikli leiðtogi okkar og elskaði forseti, Saddam Hussein." Þessu mátti venjast en svo brá við þegar við komum í tvo elstu bekkina og það hafði spurst út að útlend blaðakona væri stödd í skólanum að stúlkurnar réttu ekki upp höndina heldur sögðu hátt og snjallt á ensku: "Vertu velkomin, frú."
Fardos hefur stýrt þessum skóla í 30 ár og þegar við settumst inn á skrifstofuna hennar sagði hún í afsökunartón, að ég mætti ekki skilja þetta svo að þessar stúlkur virtu ekki leiðtogann: kennararnir hefðu greinilega viljað láta mig heyra að telpurnar væru vel að sér í ensku. Hún horfði á mig brosandi en ég uppgötvaði að hún var hrædd – hrædd um að Asmaai fulltrúi kvennasamtakanna mundi klaga hana. Hræðsla hennar var þykk í loftinu um stund, en ég fullvissaði hana um að mér væri ljós hollusta stúlknanna og hefði hlýnað um hjartaræturnar að heyra þessa kveðju til mín; "Það er bara svo ekkert verði misskilið", sagði hún og horfði á frú Asmaai þegar við kvöddumst. Ég lá ekki á því við Asmaai þegar við vorum komnar inn í bílinn að þessi kveðja hefði glatt mig og hvað Fardos væri fínn skólastjóri. Hún féllst á það með kurteislegum semingi.
(…)