Heimsvaldastefnan
Það var í Washington árið 1999 sem mörkuð var ný hernaðarstefna NATO sem breytti eðli bandalagsins. Settur var á dagskrá hernaður utan svæðis NATO-ríkjanna sjálfra, jafnvel án þess að neitt þeirra hefði orðið fyrir árás. Leiðtogafundurinn í Prag nú í nóvember tók ákvörðun um stækkun NATO og frekari útfærslu nefndrar hernaðarstefnu svo sem stofnun hraðliðs (Rapid Reaction Force) sem geti hlaupið til hvert sem er í veröldinni ef einhver NATO-ríki telji hagsmunum sínum ógnað. Hin nýja stefna felur í sér skammtímaáætlun gagnvart væntanlegum hernaðaraðgerðum gegn Írak en hún gildir einnig til framtíðar.
Hnattvæðing eða heimsvaldastefna?
Þeir bláeygustu í friðarhreyfingu 9. áratugarins héldu að hernaðarstefna Bandaríkjanna væri öll bundin kalda stríðinu við Sovétríkin. Allir sjá nú að það var misskilningur. Stríðsátök færðust mjög í aukana eftir upplausn Varjárbandalagsins, enda segja nú íslenskir jafnt sem bandarískir leiðtogar að hernaðarlegt vægi landsins hafi ekkert minnkað við endalok kalda stríðsins. En ekki voru allir bláeygir því margir herstöðvaandstæðingar töluðu á 8. og 9. áratugnum um heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, töldu NATO heimsvaldasinnað bandalag, þekktu grundvallaratriði Leníns um heimsvaldastefnuna o.s. frv. Hins vegar hafa margir þeir sömu í seinni tíð látið sannfærast um að heimsvaldastefna sé úrelt hugtak. Nú sé komið “nýja hagkerfið” og “þekkingarsamfélagið” og “hnattvæðing” sem sé annars eðlis en gamla heimsvaldastefna iðnaðarkapítalismans. Iðnaðurinn sé dreifðari um heiminn, framleiðslufyrirtækin í hinum ýmsu iðngreinum séu orðin fleiri og smærri og útkoman sé því hnattræn valddreifing. Hlutverk þjóðríkjanna sé sem óðast að visna og hverfa af því markaðirnir hafi á eigin spýtur sprengt flestar hömlur landamæra og sameinast í einn heimsmarkað. Sömu landamæri hafi einnig verið sprengd af alþjóðlegri fjölmiðlun og nýrri samskiptatækni. Hlutverk þjóðlegs ríkisvalds takmarkist þá við það að hjálpa atvinnulífi eigin lands að aðlagast hnattvæðingunni. Það sé gamaldags að tala um heimsvaldastefnu í sambandi við útflutning fjármagns þar sem honum fylgi ekki pólitískt drottnandi afl, heldur sé þarna á ferðinni útbreiðsla heimsmarkaðar sem sé pólitískt hlutlaus, óháð þjóðum og stórveldapólitík. Á móti komi hins vegar að vald fjölþjóða- og alþjóðastofnana aukist.
En þetta er rangt. Við búum sem áður við heimsvaldastefnu iðnaðarkapítalismans, sem er altækari, gráðugri, árasarhneigðari og hættulegri en nokkru sinni fyrr. Síðustu tvo áratugina hefur hún gengið fram af meiri hörku en nokkru sinni. Aðferðir hennar til að fullkomna drottnun sína eru einkum tvær. Annars vegar beitir hún efnahagsstyrk eftir leiðum markaðsfrelsis, hins vegar pólitísku og hernaðarlegu valdi.
Fríverslunar-vopnið
Á síðustu tveimur til þremur áratugum hefur orðið til hnattrænt fríverslunarkerfi þar sem framleiðslu- og fjármálarisar ryðja sér til rúms í þeim mæli að hið pólitíska vald þjóðríkjanna má sín víða lítils. Með mismiklum þrýstingi hafa ríki vítt um veröld verið þvinguð til að opna samfélög sín fyrir hinu alþjóðlega frjármagni, pólitískar aðgerðir þeirra heima fyrir sem teljast raska “frjálsu flæði” fjármagnsins eru bannaðar og mæta refsingum alþjóðastofnana. Það er vissulega rétt að vaxandi hluti iðnaðarframleiðslunnar hefur flust frá stærstu iðnríkjunum, eins og Bandaríkjunum, Vestur-Evrópu og Japan, til þróunarlanda, minnkandi hluti af vörum hinna stóru kaupsýslurisa, eigenda vörumerkjanna, í t.d. bílaiðnaði, tölvuiðnaði eða sportvörum (Toyota, Microsoft, Nike…) er framleitt í fyrirtækjum þeirra sjálfra heldur er framleiðslan að miklu leyti komin í hendur minni verktaka og samningsaðila vítt um heim. En arðránið minnkar sannarlega ekki við það. Fyrirtækin í framleiðslu og umsetningu ákveðinnnar merkjavöru mynda fyrirtækjapýramída. Toppur hvers pýramída er stórfyrirtæki eða auðhringur með frægt merki, norðan til á hnettinum, neðan við hann eru undirverktakar, gjarnan sunnar og austar í veröldinni, og þar neðan við eru margir minni verktakar sem kannski sjá um staka þætti framleiðslunar sjálfrar, í smærri verksmiðjum, jafnvel í heimahúsum. Arðránið slær öll fyrri met. Af kápu sem Hennes & Mauritz selur á 10.000 kr. fær saumakonan í Rúmeníu 100 krónur. Siemens eða Hewlett-Packard flytja framleiðslueiningar sínar til undirverktaka á Indlandi af því rafeindaverkfræðingar þar eru ódýrir og konurnar sem bera tígulstein í nýjar verksmiðjur fá 50-60 krónur á dag. Framleiðsla vörunnar er nákvæmlega eftir fyrirsögn merkivörueigandans og er aðeins einn hluti eða hlekkur í endanlegri vöru svo framleiðandinn hvorki má né getur selt hana öðrum. Auðhringurinn sér um hönnun, auglýsingu og sölu, hefur einkarétt á framleiðslutækninni og hirðir megnið af gróðanum. Gildisaukinn liggur í vörumerkinu. Stórfyrirtækin geta auðveldlega flutt sig milli landa. Undirvektakar keppa sín á milli og taka á sig sveiflurnar í sölu sem áður lentu á auðhringnum sjálfum svo gróði hans er betur tryggður en áður.
Sem sagt: iðnframleiðslan hefur dreifst en gróðinn og yfirráðin samþjappast hins vegar æ meir á miðsvæði ríku landanna. Það eru 350 yfirþjóðleg fyrirtæki sem stjórna 40% verslunar með allar unnar vörur í veröldinni. Af 100 þeim stærstu eru 87 staðsett í Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og Japan. Það er oft talað um stóru auðhringana sem fjölþjóðlega en það er goðsögn. Þótt starfsemin spanni allan heiminn eiga þeir sér heimaland og rannsóknir sýna að það er sjaldgæft að útlendingar séu í stjórn þeirra. Heimsvaldasinnað auðmagn fjárfestir vítt um heim þar sem skattamál og vinnulaun og kostnaðarumhverfi þykir hagstæðast, þar fer framleiðslan fram en einokunargróðinn rennur til fjármálarisanna aftur. Hnattvæðing kapítalismans er þess vegna ekki nýtt kerfi í eðli sínu, aðeins nýtt og háþróaðra form klassískrar heimsvaldastefnu.
Framan af hinni miklu sókn markaðshyggjunnar sögðu boðberar hennar að viðskiptafrelsið óhindrað og ný tækni myndu lyfta þróunarríkjunum úr eymdinni og jafna kjörin á heimsvísu. Þau rök heyrast sjaldnar nú orðið. Staðreyndirnar blasa við. Árið 1960 voru meðaltekjur í ríkasta fimmta hlutanum af ríkjum heims 30 sinnum hærri en í fátækasta fimmta hlutanum. Árið 1997 var hlutfallið orðið 75 falt. Bilið milli ríkra og fátækra þjóða hafði því meira en tvöfaldast á þessu blómaskeiði markaðshyggjunnar. Indland er mikið miðsvæði í framleiðslu tölvutækninnar en þegnar þess þjóðahafs eiga færri tölvur en dvergþjóðir eins og Norðmenn eða Svíar.
Auk þess að festa þróunarríkin í kviksyndi eymdarinnar virkar hnattvæðingin sem múrbrjótur í þróuðum kapítalískum ríkjum sem brýtur niður svokallað verferðarríki sem mótaðist af málamiðlun stéttanna á eftirstríðsárunum, með öflugum opinberum geira og pólitískri stýringu sem gerði sitt til að jafna eðlislæga misskiptingu í kapítalísku kerfi. Það gerist m.a. á þann hátt að flutningur iðnaðar til þróunarríkja eykur atvinnuleysi í gömlu iðnríkjunum, hjálpar til við að þrýsta launum þar niður og auka þjóðfélagslega eymd. Atvinnuleysi í ESB-ríkjum jókst um meira en 50% á síðasta áratug. En atvinnuleysið minnkar reyndar ekki á vanþróuðum svæðum fyrir það. Í Austur-Evrópu er það gífurlegt, á Indlandi einu eru t.d. um 330 milljónir atvinnulausar og heiminum í heild miklu fleiri en 1930.
Pólitískt og hernaðarlegt vald
Þó að staða þjóðríkja sé að mörgu leyti að veikjast á það ekki við um heimsveldin og síst af öllu um Bandaríkin. Þar er ríkisvaldið aðgerðarsamara en nokkru sinni fyrr, enda er það algjör forsenda efnahagslegs valds þeirra á heimsvísu. Að nokkru leyti stjórnast ofanskráð þróun af eðlislægum lögmálum kapítalismans, en þau hafa ekki ein og óstudd þessum breytingum. Sókn markaðsaflanna til opins, hnattræns markaðssvæðis fyrir vörur og fjármagn á rætur sínar í pólitískum ákvörðunum. Þær voru teknar í Bandaríkjunum á 8. áratugnum þegar krepputeikn voru mikil á lofti er þensluskeiði kapítalismans eftir stríð var lokið og Víetnamstríðið tapað. Hið “nýja” fólst í raun í afturhvarfi til hrárri og frjálshyggjukapítalisma líkum því þegar Bretaveldi var að koma á frjálsum vinnumarkaði og þvinga fríverslun upp á granna sína á 19. öld til að nýta sér það forskot sem það hafði fengið í krafti iðnbyltingar. Nú var aftur sett á dagskrá hörð frjálshyggja, einkavæðing, fríverslun og afnám stofnanaveldis velferðarkerfa. Fáum árum síðar kom Reagan til valda (og Tatcher í Bretlandi) og boðaði “nýja” stjórnarhætti. Í beinu framhaldi voru sömu kennisetningar viðteknar af svokölluðum alþjóðastofnunum og samningum á sviði heimsviðskipta sem að nafninu til eru hlutlausar stofnanir til eflingar alþjóðaviðskiptum en hafa alla tíð verið yfirskyggðar af bandarísku valdi: Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn, GATT-samningurinn og eftirrennari hans, Aljóða viðskiptastofnunin (WTO). Einkum frá 1980 hafa þessar stofnanir haft það meginverkefni að sprengja upp hurðir og skilrúm sem hindruðu frjálst flæði vöru og fjármagns. GATT snérist framan af einkum um frjálsa vöruverslun en frá 1994 mest um frjálst flæði fjármagns, afnám gjaldeyrishafta o.s.frv. Nú er röðin komin að opinberri þjónustu. Á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar er unnið að nýjum samningi, GATS (General Agreement on Trade in Services, sáttmáli um verslun á þjónustusviði), og nái hann fram að ganga felur það í sér afnám hindrana sem ríkisstjórnir hafa sett gegn einkavæðingu á sviði þjónustu, þ.e. í heilsugæslu hvers konar, öldrunarþjónustu, leikskólum, menntamálum, söfnum, orku- og vatnsbúskap o.s.frv. Þessi samningur er raunverulega yfirvofandi og aðeins spurning um hversu stór skref verða tekin í einu. Alþjóða viðskiptastofnunin hefur gífurlegt vald: löggjafar-, dóms- og refsivald, og þegar hún hefur tekið ákvörðun um þetta verða aðildarríkin 137 að opna sín þjónustusvið fyrir lögmálum fríverslunar. Þá munu auðhringarnir éta upp síðustu bita samfélagsins sem enn eru þeim forboðnir.
Svo er það beiting hervalds. Erik Goldstein, stjórnmálafræðingur frá Boston, sagði á Hótel Sögu um daginn að hlutverk NATO sé nú breytt, það sé orðinn pólitískur klúbbur sem einkum eigi að kenna nýjum meðlimum það sem kalla megi vestræn gildi. Mikilvægasta gildið er þar örugglega fríverslunin.
Vald áðurnefndra alþjóðastofnana er í reynd tilraun til að brúa gjá eða leysa móthverfu sem myndast hefur á milli yfirþjóðlegs auðmagns og einstakra ríkishagsmuna. En stundum þarf vald til að framfylgja hinum “vestrænu gildum”. Rökrétt svar heimsvaldastefnunnar við kalli tímans væri alheimsríkisstjórn, en innbyggðar andstæður hins kapítalíska kerfis girða fyrir slíkt. Hjálparráð kerfisins hefur undanfarið verið að láta forsjá sína í hendur því heimsvaldaríki sem eitt hefur yfirburðastöðu og nægan mátt og vilja til að leysa alvarleg pólitísk vandamál með ofbeldi. Heimsvaldahagsmunir Bandaríkjanna eiga sér engin takmörk, né vilji þeirra og geta til að drepa og eyðileggja, eins og ný og gömul dæmi sýna. Í reynd réðust Bandaríkin ein á Írak 1990 og á Afghanistan 2001, í Kosovo hentaði þeim að nota NATO sem árásaraðila í stað SÞ. Væntanlegt Íraksstríð reikna þau með að annast að mestu sjálf en hafa þegar fengið stuðningsyfirlýsingu frá NATO og munu að líkindum taka þaðan valda meðreiðarsveina í hernaðinn. Síðan munu þau að vanda senda NATO-ríkjunum og öðrum bandalagsríkjum reikninginn.
Af hverju þessi auðsveipni?
Á leiðtogafundinum í Prag gerði NATO sig að verkfærakassa fyrir Bandaríkin til notkunar hvar sem er í heiminum. Evrópusambandið á sína eignin heimsvaldahagsmuni sem rekast æ oftar á bandaríska hagsmuni. Af hverju stafar þá þessi auðsveipni? Jú, einfaldlega af því ESB telur hagsmunum sínum vítt um lönd best borgið með vinskap við stóra frænda með hans algjöru hernaðaryfirburði, þótt ljóst sé að í þeim vinskap sitji bandarískir hagsmunir fyrir. Eins er um Japani sem Bandaríkin hafa enn í vasanum, m.a. í baráttu við hinn rísandi keppinaut, Kína. Enn sem komið er sjá þessar heimsvaldablokkir hag sínum best borgið undir bandarískum ægishjálmi, þótt bróðernið sé flátt.
Í hvíldarlausri iðju sinni við að brjóta niður sjálfstæða þróunarviðleitni á jaðarsvæðum og binda fátækar þjóðir á klafa sinn hefur heimsvaldastefnan upp á síðkastið vakið upp á móti sér vaxandi starfsemi hryðjuverkaafla, sem eru þannig afkvæmi hennar sjálfrar. Nú hafa Bandaríkin lýst stríði á hendur hryðjuverkamönnum sem þau segja að haldi til í yfir 60 löndum. Stríð þetta er háð í nafni siðmenningar og lýðræðis en heimsvaldasinnar vita af eðlisávísun hvað málið snýst um í raun og veru
Af hverju undirgangast Davíð og Halldór svo fljótt og fúslega ný framlög til hernaðar á vegum NATO? Ja, að einhverju leyti er um að ræða hlýðni við stóru bræðurna. En hinu má þó ekki gleyma að Ísland á sína heimsvaldahagsmuni líka. Fjármagnsútflutningur héðan til fátækari ríkja, til dæmis Austur-Evrópu eða þróunarríkja lýtur nákvæmlega sömu lögmálum og lýst var hér að ofan. Þangað er ekki farið í mannúðarskyni heldur til að sækja gróða og þá er öruggara að hafa bandamenn sína ánægða og gott að vita af liprum vopnuðum áhlaupasveitum sem geta brugðið sér hvert á hnöttin sem er með litlum fyrirvara.
Ég tel að það sé forsenda fyrir árangri í baráttunni sem beinist gegn svonefndri hnattvæðingu og einnig baráttunni gegn stríðsrekstri þeim sem nú fer fram undir forystu Bandaríkjanna að þessi tvö svið baráttunnar séu tengd saman.
Heimildir:
M. Nyberg, 2001, Kapitalet.se
I. Mésáros, 2001, Socialism or Barbarism
Naomi Klein, 2000, No Logo