Hóprefsingar og réttarríkið (grein)
Hóprefsingar og réttarríkið
Elías Davíðsson
Íslendingar státa sig af því að vera friðsamleg þjóð sem byggir land með lögum. Við búum í réttarríki. En hver eru einkenni réttarríkis? Til dæmis að enginn verði dæmdur fyrir verk annarra, að enginn sé talinn sekur nema sekt hans verði sönnuð fyrir dómstólum, að dómarar sem úrskurða refsingu séu óvilhallir, að þungi refsingar sé í einhverju samræmi við eðli brotsins, að einstaklingar sem eru dæmdir til refsinga fái vitneskju um brot sitt og tækifæri til að verja sig og áfrýja dómi.
Eins og margir vita tekur Ísland virkan þátt í refsiaðgerðum gegn írösku þjóðinni, þ.e. í víðtæku viðskiptabanni gegn Írak að frumkvæði Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Formlega ábyrgð á þátttöku Íslands ber fyrrv. utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson. Afleiðingar þessa viðskiptabanns fyrir almenning í Írak eru m.a. þær að um hálf milljón barna hefur þegar látist vegna skorts á matvælum, lyfjum og vegna annarra afleiðinga viðskiptabannsins. Samkvæmt skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) frá því í október 1994 er hætt við að milljónir barna í Írak hljóti varanlegan skaða á þroska sínum vegna næringarskorts sem orsakast af viðskiptabanninu.
Okkur er sagt að refsiaðgerðunum sé beint gegn stjórnvöldum í Baghdad sem neita að virða ályktanir Öryggisráðsins. En í raun er þeim beint fyrst og fremst gegn írösku þjóðinni, milljónum saklausra borgara, þ.m.t. barna.
Slík hóprefsing brýtur í bága við grundvallarreglur réttarríkis, eins og þeim var lýst hér að ofan: Með því að banna heilli þjóð að stunda frjáls utanríkisviðskipti er saklausu fólki refsað án dóms og laga. Enginn hefur formlega sakað almenning í Írak fyrir að bera ábyrgð á stefnu einræðisstjórnarinnar í Baghdad. Íbúar í Írak eru í senn gíslar eigin stjórnvalda og fórnarlömb annarra ríkisstjórna.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er enginn dómstóll og allra síst óvilhallur málsaðili. Öryggisráðið samanstendur af kaldrifjuðum hagsmunaaðilum með flekkaðar hendur. Forræðisaðilar Öryggisráðsins (Bandaríkin, Rússland, Kína, Bretland og Frakkland) hafa margsinnis brotið alþjóðalög og sáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að ráðast á önnur ríki, fremja stríðsglæpi, halda þjóðir í fjötrum og ógna heiminum með tortímingarvopnum sínum. Er það skylda þjóða heims að hlýða úrskurðum slíkra aðila? Eigum við að láta slíka aðila gæta fjöregg mannkynsins, þ.e. heimsfriðinn ?
Sumir segja að fólkið í Írak beri ábyrgð á eigin harmleik. Vilji það losna við refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna ætti það einfaldlega að losna við Saddam Hussein. En er stenst slík kenning?
Hvers vegna hefur t.d. engin ríkisstjórn treyst sér til að gera þessa kenningu að sinni. Svarið er einfalt: Sú ríkisstjórn sem myndi réttláta þvingunaraðgerðir gegn almenningi í Írak með þessum hætti, yrði umsvifalaust sökuð um hryðjuverk. Að beita valdi gegn óbreyttum borgurum til að ná pólítisku markmiði er yfirleitt skilgreint sem hryðjuverk.
Og hafa menn sem þannig tala kynnt sér aðstæður í Írak? Það er auðvelt fyrir okkur að gera kröfur til almennings í Írak. Það kostar okkur ekki neitt. En það er lífshættulegt fyrir fólk í Írak að mótmæla stefnu stjórnvalda. Aðeins þeir sem eru tilbúnir til að fórna lífi sínu í baráttunni gegn einræðisstjórninni í Baghdad hafa siðferðilegan rétt til að krefjast af öðrum að gera hið sama.
Í þriðja lagi eru hóprefsingar tvíeggja vopn: Þeim má alveg eins beita gegn okkur. Ættingjar þeirra sem missa lífið í Írak af völdum refsiaðgerðanna gætu með réttu sakað okkur um aðild að manndrápum af því að við samþykkjum þátttöku stjórnvalda okkar í þessum aðgerðum eða komum ekki í veg fyrir þessa þátttöku, þótt við gætum það án teljandi áhættu. Af þessu kynnu þeir að draga þá ályktun að hefndarverk gegn okkur og börnum okkar séu makleg, réttlætanleg málagjöld.
Ég hef ennþá ekki hitt þann einstakling sem hefur þann manndóm í sér að fara til Írak, heimsækja foreldra sem misst hafa börn vegna refsiaðgerðanna, horfa í augu þeirra og segja þeim að þessar refsiaðgerðir séu réttmætar. Það er auvirðilegt að styðja refsingar en neita að horfast í augu við afleiðingar þeirra.
Elías Davíðsson
9. maí 1995