Hættum að refsa þjóðum: Leiðari Tímans 30.6.1994
Hættum að refsa þjóðum
Leiðari: Tíminn 30 júní 1994
Annar júlí er alþjóðlegur baráttudagur fyrir þvi að numdar verði úr gildi refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn írösku þjóðinni. Þessar refsiaðgerðir eru eftirhreytur Persaflóastríðsins. Þá voru íraskir hermenn reknir út úr Kúvæt, en áfram haldið að þjarma að alþýðu manna í Írak. Þessar refsiaðgerðir eru réttlættar með því að stjórnvöld í Írak fari ekki að skilmálum Sameinuðu þjóðanna um að leyfa eftirlit með vopnaframleiðslu í landinu. Eins og í Persaflóastríðinu er hið yfirlýsta takmark a.m.k. sumra þeirra þjóða, sem að því stóðu, að stugga Írökum út úr Kúvæt, að koma Saddam Hussein frá völdum.
Það er í andstöðu við réttarvitund siðaðra þjóða að refsa heilum þjóðum, þjóðarbrotum eða ættbálkum fyrir brot forustumanna þeirra. Íbúum Íraks er refsað fyrir það sem leiðtogum þeirra er gefið að sök. Haldið hefur verið uppi stríðsrekstri gagnvart írösku þjóðinni í fjögur ár. Í landinu ríkja ekki lýðréttindi og með aðgerðum sínum eru Sameinuðu þjóðirnar að skerða réttindi og lífskjör alþýðu landsins enn frekar. Í Genfarsáttmálanum er lagt bann við stríðsaðgerðum sem bitna helst á óbreyttum borgurum.
Ramsey Clark, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, skilaði skýrslu til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í febrúar sl. Þar bendir hann á að refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna hafi komið hart niður á nær öllum íbúum í Írak. Kúrdar í norðurhéruðunum, Shía-múslímar í suðurhluta landsins, flóttafólk og fjölmargir aðrir hópar hafa orðið illa úti vegna þessara aðgerða. Clark telur að frá því í febrúar 1991 og fram í febrúar 1994 hafi um 375.000 manns látist í Írak beinlínis vegna þessara refsiaðgerða, þar á meðal fjöldi barna.
Matvælaframleiðsla í landinu hefur dregist saman vegna skemmda á áveitum, rafmagnsframleiðsla hefur minnkað verulega vegna skemmda á rafveitum. Það leiðir aftur til þess að erfitt er að geyma matvæli. Lyfjaskortur er gífurlegur. Ekki hefur mátt flytja inn skordýraeitur til að úða akra. Um það bil 90 af hundraði kjúklinga drápust er raforkuver voru eyðilögð í stríðinu. Kvikfé hefur fækkað stórlega vegna skorts á fóðri. Matvælaneysla í landinu ehfur dregist saman um helming.
Ramsey Clark bendir á þá alkunnu staðreynd að þeir, sem mest verða að þola í styrjöldum, eru þeir sem minnst mega sín: börn, gamalmenni, sjúkir og hamlaðir. Refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna eru framhald af stríðsrekstrinum og þær hitta fyrir þá sem síst skyldi: börn, aldraða, sjúka, hamlaða, fátæka – og ýmsa þá sem áður voru ofsóttir og verða nú að þola enn meiri þrautir.
Íslendingar telja sig menningarþjóð og í orði a.m.k. er fagurlega talað um aðstoð við þá, sem illa hafa orðið úti í hörmungum styrjalda, hungurs, hroðalegs stjórnarfars og náttúruhamfara. En samtímis stendur íslensk ríkisstjórn að því að vera meðsek um að refsa fólki í fjarlægu fyrir að þar er ill stjórn. Hvenær fékk íslensk ríkisstjórn leyfi til þess að refsa heilum þjóðum? Er það ekki fremur í þágu friðar að aflétta refsiaðgerðum gagnvart fólki sem við eigum ekkert sökótt við?