Óvissa í kjölfar hryðjuverka
Óvissa í kjölfar hryðjuverka
Mbl. 21. sept. 2001 (ónafngreint)
GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að sádi-arabíski hryðjuverkamaðurinn Osama bin Laden sé efstur á lista yfir þá sem grunaðir eru um hermdarverkin í Bandaríkjunum í síðustu viku. Hann vill ná bin Laden "dauðum eða lifandi".
GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að sádi-arabíski hryðjuverkamaðurinn Osama bin Laden sé efstur á lista yfir þá sem grunaðir eru um hermdarverkin í Bandaríkjunum í síðustu viku. Hann vill ná bin Laden "dauðum eða lifandi". Nærri 6 þúsund manns létu lífið í árásunum. Milljónir manna víða um heim hafa látið í ljós samúð með Bandaríkjamönnum vegna árásanna.
Stjórnvöld í Pakistan hafa heitið Bandaríkjastjórn stuðningi. Þau sendu á mánudaginn hátt setta embættismenn til Afganistans til fundar við stjórn talibana. Vöruðu þeir við því að árásir yrðu gerðar á landið ef bin Laden yrði ekki framseldur.
Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lagt áherslu á að baráttan gegn hryðjuverkamönnum muni ekki beinast gegn íslam. Hann sagði að sá tími kynni að koma að hervaldi yrði beitt.
Tugir þúsunda manna hafa flúið frá afgönskum borgum vegna ótta við hugsanlegar árásir Bandaríkjamanna. Þúsundir streyma frá landinu til nágrannaríkja, meðal annars Pakistans.
Tengsla við bin Laden leitað
Miklar rannsóknir á tilræðunum standa yfir. Þær beinast meðal annars að því að finna tengsl flugræningjanna við bin Laden eða stuðningsmenn hans. Þá er verið að rannsaka hvort flugræningjar hafi verið um borð í fimmtu flugvélinni á þriðjudaginn. Sú vél fór ekki í loftið vegna bilunar.
Margvíslegar afleiðingar
Mikil röskun hefur orðið á flugumferð vegna árásarinnar. Þetta hefur komið illa við rekstur flugfélaga. Bandaríkjaþing hefur ákveðið að veita 15 milljörðum dollara í aðstoð við bandarísk flugfélög. Stjórnvöld í nokkrum Evrópulöndum íhuga að fara að dæmi þeirra og veita evrópskum flugfélögum aðstoð.
Hlutabréf lækkuðu mikið í verði þegar opnað var fyrir viðskipti í Bandaríkjunum á mánudaginn. Sérstaklega varð mikil lækkun á hlutabréfum í flugfélögum.