IX. Tilraun til að upplýsa og leiðrétta mál í héraði
IX. Tilraun til að upplýsa og leiðrétta mál í héraði
Ráðgerð lokatilraun í héraði
Snemma í apríl 1994 lá fyrir formleg niðurstaða Hæstaréttar Íslands að því er snerti fyrsta og ódagsetta leyndarskjalið, sem að hluta til var tekið upp í dóm Réttarins 29. mars 1994. Enginn héraðsdómstólanna, utan Héraðsdómur Vestfjarða hafði sinnt óskum mínum um að láta mér í té endurrit af leyndarskjölum Hæstaréttar. En í þeim viðbrögðum fólst að mínu mati sú afstaða 1 forsvarsmanna dómstólanna, að þeim væri heimilt að halda leyndarskjöl um lögmenn.
Þá átti ég eftir að láta reyna formlega á það fyrir héraðsdómstóli, hvort héraðsdómstóli væri heimilt að taka við meiðandi leyndar skjölum um lögmenn, geyma slík skjöl og dreifa þeim til löglærðra starfsmanna sinna. Ég taldi slíka starfsháttu ekki samrýmast viðurkenndum viðhorfum og beinum lagaákvæðum um sjálfstæði opinbers dómstóls og óhlutdrægni dómsins. Að því hlyti að koma áður en langt liði, að ég hlutaðist sjálfur til um málsókn þar sem á þetta reyndi fyrir einhverjum öðrum héraðsdómstóli en Héraðsdómi Vestfjarða, en til frumkvæðis míns kom ekki.
Skúmsmál
Hinn 14. apríl 1994 fékk skýrsluhöfundur tilkynningar Héraðsdóms Reykjavíkur um fyrirtöku þriggja héraðsdómsmála, sem hann hafði skömmu áður skilað vörn í.
Þær komu reyndar í framhaldi af samtali sem ég átti við Valtý Sigurðsson, héraðsdómara og formann Dómarafélags Íslands þann I dag um ódagsetta leyndarbréfið. Tilkynningarnar sem komu á faxi nokkru síðar voru um dómsmál, sem átti að taka átti fyrir 20. apríl 1994. Héraðsdómarinn, sem tilkynnti, Valtýr Sigurðsson, varð raunar fyrri til en dómstjórinn. Nokkrum dögum seinna fékk ég nefnilega tilkynningu frá dómstjóranum, Friðgeiri Björnssyni, um að Valtýr Sigurðsson héraðsdómari, mundi fara með þessi þrjú mál. Það, sem helst vakti þó athygli við tilkynningu Valtýs, var að hún var dagsett 30. mars 1994 en hún var ekki send á faxi fyrr en 14. apríl 1994. Þetta þurfti ekki að þýða neitt sérstakt. Daginn eftir, 15. apríl 1994, sendi ég héraðsdómaranum bréf, upplýsti hann að ég hefði þær efasemdir að skipan og starfshættir Hæstaréttar væru í samræmi við grundvallarreglur laga og góða skipan og að ég ráðgerði ekki að flytja fleiri mál fyrir Hæstarétti. Ég bætti við að þessar sömu efasemdir tengdust einnig skipan og starfsháttum Héraðsdóms Reykjavíkur. Vildi ég láta reyna á þessi atriði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í einu þessara mála, sem tengdist umbjóðanda mínum, Skúmi hf. Óskaði ég eftir að fyrirtökum tveggja af þessum þremur málum yrði frestað þar til niðurstaða úr Skúmsmálinu lægi fyrir. Þessari málaleitan minni tók héraðsdómarinn vinsamlega og vænti ég ekki annars en formlegrar afgreiðslu á kröfu minni um að héraðsdómarinn viki sæti í málinu vegna leyndarbréfanna.
Þinghaldið
Þinghaldið í Skúmsmálinu síðasta vetrardag, 20. apríl 1994, var stutt. Endurritið er á bls. 138.
Gagnaöflun um meint og mögulegt vanhæfi, vegna viðtöku og varðveislu Héraðsdómsins og dómarans á ódagsetta leynibréfinu hafði ég vandað. Ég taldi hafið yfir allan vafa, að hæfi dómara og dómstóls til að fjalla um mál væri atriði sem taka þyrfti til athugunar í hverju dómsmáli, að minnsta kosti ef krafa þar um kæmi fram eða þegar nýjar upplýsingar gæfu tilefni til þess.
Í upphafi þinghaldsins afhenti ég dómaranum bókun mína, átta blaðsíðna skjal, með kröfu um að hann viki sæti sem dómari, ásamt með 32 fylgiskjölum sem öll voru nýlega til orðin, og hann tók við skjölunum án sérstakra athugasemda, en spurði mig um aðalefni bókunarinnar, sem ég greindi frá í örfáum orðum. Því næst spurði dómarinn um afstöðu lögmanns gagnaðila til þessarar kröfu minnar og kvaðst hann ekki sjá tilefni til þess að dómarinn viki sæti í málinu en hafði orð um, að hann hefði ekki lesið skjölin.
Síðan las dómarinn ritaranum fyrir:
- "Af hálfu stefnda mætir Tómas Gunnarsson hrl. og óskar að legg,ja fram bókun ásamt 32 dómskjölum. Lögmaðurinn gerir þá kröfu að dómarinn víki sæti í málinu á grundvelli ákvæða g-liðs 5. gr. laga nr. 91/1991, þar sem að hann geti ekki litið af óhlutdrægni á málið, en hann geymi leyniskjöl frá Hæstarétti um lögmanninn. Þá hafi dómurinn, Héraðsdómur Reykjavíkur, gefið út ranga embættisyfirlýsingu um þau skjöl.
- Af hálfu stefnanda er því mótmælt að skjöl þessi fái að komast að í málinu, þar sem þau varði ekki sakarefnið. Þá kveðst lögmaðurinn ekki sjá tilefni til þess að dómarinn víki sæti í málinu. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 ákveður dómari að hafna því að skjöl þessi verði lögð fram í málinu, þar sem þau séu tilgangslaus til sönnunar og málinu óviðkomandi.”
Því skal ekki haldið fram, að þessi niðurstaða hafi komið með öllu á óvart, nema fyrir það hve fljótt hún kom, því dómarinn bar ekki við að lesa skjölin, sem ég hafði afhent.
Þar sem ég hafði fyrir þinghaldið heyrt að forseti Hæstaréttar Íslands hefði sent útvarpsráði bréf og reyndar fengið upplýsingar um að það væri í höndum dómarans óskaði ég bókunar á fyrirspurn um það. Og svarið lét ekki á sér standa því dómarinn las ritaranum fyrir:
- "Lögmaður stefnda óskar bókunar á fyrirspurn til dómarans um það hvort hann hafi undir höndum bréf frá forseta Hæstaréttar Íslands til útvarpsráðs, sem varðar hann. Dómari kveðst ekki skylt að svara þessari spurningu, enda sé hún málinu óviðkomandi."
Í framhaldi af þessu sagðist ég ekki mundu flytja fleiri mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og óskaði eftir að málinu yrði frestað og umbjóðanda mínum gæfist kostur á að fá sér nýjan lögmann og var það bókað. Nokkrar umræður spunnust um málið og ráðagerðir mínar, en svo mikill hafði asinn verið á dómaranum þegar hann las ritaranum fyrir, að hann sá ástæðu til seint í þinghaldinu að spyrja mig sérstaklega við hvaða röngu embættisyfirlýsingu ég hefði átt, og hann hefði bókað eftir mér, að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði gefið út.
Tæpum hálftíma eftir að þinghaldið hófst var því slitið og við lögmennirnir gengum út í veðurblíðuna.
Þinghaldið hafði farið talsvert öðru vísi fram en ég átti von á. Fyrir þinghaldið var ég ekki viss um að ég fengi að leggja bókunina og skjölin fram og það gæti þurft nokkurn tíma til að athuga þau og tengsl þeirra við málið. En mér datt ekki í hug að dómarinn mundi hafna framlagningu skjalanna án þess að lesa þau.
Þá kom á óvart að dómarinn skyldi lesa ritaranum fyrir í þinghaldi fyrir dómi um meinta ranga embættisyfirlýsingu Héraðsdóms Reykjavíkur án þess að kanna við hvað væri átt.
Sjálf ákvörðun dómarans um að skjölin væru málinu óviðkomandi var að mínu mati óréttmæt, þar sem hæfi dómara til að fara með mál, er kjarnaatriði í öllum dómsmálum, sem dómarar huga jafnan vel að, sérstaklega ef ný gögn koma fram um það.
Svar dómarans við fyrirspurninni um það hvort hann hefði undir höndum bréf frá forseta Hæstaréttar Íslands til útvarpsráðs sem varðaði mig, fól að mínu mati í sér staðfestingu á að hann hefði bréfið undir höndum, en treysti sér ekki til að bóka í þinghaldi í dómi að hann hefði það ekki. Hann hefði því gripið til þess ráðs að lýsa þeirri afstöðu sinni að það væri lögmönnum og málsaðilum óviðkomandi, hvort hann sem dómari tæki við leyndarskjali frá óviðkomandi aðila sem snerti lögmann stefnda.