Jón Baldvin Hannibalsson kærður v. refsiverðra verka
fyrrverandi utanríkisráðherra,
fyrir liðsinni við manndráp og annan refsiverðan verknað
Elías Davíðsson, 1995
Formáli
Þann 28. apríl 1992 undirritaði Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, auglýsingu um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) vegna innrásar Íraka í Kúvæt. Í auglýsingunni, sem birtist í Stjórnartíðindum, eru eftirfarandi fyrirmæli:
"1. Óheimilt er að flytja til Íslands vörur sem upprunnar eru í Írak og fluttar eru út þaðan eftir 6. ágúst 1990.
2. Starfsemi íslenskra ríkisborgara, eða starfsemi sem fer fram á Íslandi, sem ætlað er að stuðla að útflutningi eða umfermingu vara frá Írak, er óheimil. Auk þess eru viðskipti íslenskra ríkisborgara eða viðskipti, sem fara fram á Íslandi, með vörur, sem upprunnar eru í Írak og fluttar eru út þaðan eftir 6. ágúst 1990, óheimil, ásamt notkun íslenskra skipa í slíkum viðskiptum.
3. Íslenskum ríkisborgurum er óheimilt að selja eða útvega aðilum í Írak vörur, eða selja eða útvega vörur í þágu fyrirtækis sem rekið er í Írak eða stjórnað er þaðan. Auk þess er óheimilt að selja eða útvega vörur frá Íslandi eða nota til þess íslensk skip. Starfsemi íslenskra ríkisborgara eða starfsemi, er fer fram á Íslandi, sem ætlað er að stuðla að slíkri sölu eða útvegun, er ennfremur óheimil.
4. Íslenskum ríkisborgurum og öðrum aðilum á Íslandi er óheimilt að útvega ríkisstjórn Íraks eða fyrirtækjum í Írak fjármuni eða veita þeim aðra fjárhagslega eða efnahagslega fyrirgreiðslu, eða inna hendi greiðslu til annarra aðila í Írak.
5. Undanþegin ákvæðum 3. tl. hér að framan eru sjúkragögn og matvæli notuð í mannúðarskyni. Ennfremur eru undanþegnar ákvæðum 4. tl. hér að framan greiðslur til sjúkrahjálpar, greiðslur í mannúðarskyni og matvæli notuð í mannúðarskyni.
Hver sá, sem brýtur gegn ofangreindum fyrirmælum, skal sæta viðurlögum samkvæmt 2. gr. laga nr. 5/1969, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Auglýsing þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing nr. 331/1990."
Afleiðingar viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna fyrir Íraka
Íraska þjóðin hefur orðið að sæta nær algert viðskiptabann á fimmta árið í röð. Þótt undanþegin séu matvæli og sjúkragögn, eins og að framan greinir, hefur olíusölubannið takmarkað verulega getu Íraks til að flytja inn nauðsynleg matvæli og lyf, komið í veg fyrir að Írakar geti aukið landbúnaðarframleiðslu sína og endurreist efnahagskerfi sitt.
Allur annar innflutningur til Íraks en matvæli, lyf og sjúkravörur er háður leyfum sérstakrar nefndar á vegum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna Líf og dauði milljóna óbreyttra borgara í Írak er bókstaflega í höndum þessarar nefndar, sem þarf ekki að rökstyðja úrskurði sína. Sem dæmi um vörur sem refsinefndin hefur meinað Írökum að flytja inn má nefna ljósaperur, skó, varahluti fyrir einkabíla og strætisvagna, saumavélar og nálir, sement og byggingajárn, diskettur fyrir tölvur, nagla, gler, fataefni, frystivélar, tímarit og bækur, varahluti í landbúnaðarvélar, áburð og sæði.
Afleiðingar af slíku banni eru skelfilegar. Skólar geta ekki starfað eðlilega vegna viðvarandi skorts á pappír, skriffærum. bókum, borðum, töflum, krít, gluggum, hurðum, ljósaperum, o.fl. Talið er að um fimmtungur barna á skólaaldi sé hættur að stunda nám og gæði kennslunnar er talin hraka dag frá degi. Refsiaðgerðirnar eru því atlaga gegn menntun og augljóst brot á Alþjóða sáttmála um réttindi barna.
Enn skelfilegri eru afleiðingar á heilbrigðissviðinu. Barnadauði hefur fjórfaldast frá því fyrir Persaflóastríðið. Nýburar fæðast undir meðalþyngd vegna næringarskorts sængurkvenna, sjúkdómar sem stjórnvöld í Baghdad hafa upprætt fyrir löngu birtast á ný og aðstaða til rannsókna, lækninga og umönnunar er hrikaleg. Viðskiptabannið nær jafnvel til læknisfræðilegra bóka og tímarita. Þótt Írakar megi í orði kveðnu flytja inn lyf og lækningavörur, eru margvíslegar hindranir settar í veginum, flestar af völdum refsiaðgerðanna: Verulegur skortur á gjaldeyri (sem er afleiðing olíusölubanns Sameinuðu þjóðanna), innlend skriffinska, skriffinska vegna starfa refsinefndar Sameinuðu þjóðanna og alls kyns aukaskilyrði sem refsinefndin hefur sett um innflutning lyfja og sjúkravara. Dæmi um hið siðarnefnda er bann við innflutning lyfja sem innihalda nítrat, en nítrat er talið nothæft við framleiðslu efnavopna. Það vill svo til að nítrat er eitt efnanna sem notuð eru í svæfingalyfjum. Afleiðingin: Sjúkrahús neyðast til að framkvæma minniháttar aðgerðir án svæfinga.
Frá því sumarið 1990 hefur Írak verið að mestu leyti einangrað frá umheiminum. Flugvélum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna er bannað að lenda í Írak. Einu leyfilegu tengsl við umheiminn eru hinn 1000 km langi þjóðvegur milli Ammans og Baghdad. Ferð frá Amman til Baghdad tekur 12-15 klst.. Þeir fáu Írakar sem hafa efni til að ferðast til útlanda, geta ekki lengur farið hvert sem þeir vilja: Flest Vesturlöndin veita íröskum borgurum ekki lengur vegabréfsáritun, jafnvel ekki þeim sem vilja stunda nám eða sækja lækningu. Þeim er refsað eingöngu búsetu sinnar.
Allar ofangreindar aðgerðir skerða grundvallarmannréttindi alls almennings í Írak: Ferðafrelsi þess, rétt manna til menntunar, tækfæri til að afla tekna, nærast eðlilega og huga sem skyldi að hinum sjúku. Refsiaðgerðirnar skerða ennfremur möguleika Íraka til að endurreisa efnahagskerfið úr þeim rústum sem loftárásir bandamanna skildu eftir árið 1991. Eitt af markmiðum Sameinuðu þjóðanna, sbr. 1. gr. sáttmálans, er að standa vörð um mannréttindi en refsiaðgerðirnar eru í hróplegri mótsögn við þennan megintilgang. Engri þjóð hefur verið refsað með svo víðtækum og ranglátum hætti í sögu Sameinuðu þjóðanna.
Eins og að ofan greinir, hefur viðskiptabannið – sem margir telja friðsamlegri aðgerð en hernaðarárás – reynst bannvænni en linnulausar loftárásirnar á Írak í byrjun ársins 1991. Í skýrslum UNICEF og í greinum sem birst hafa í bandarískum og breskum læknisfræðitímaritum er staðfest að barnadauði í Írak hafi fjórfaldast, m.a. af völdum viðskiptabannsins. Í skýrslu UNICEF frá október 1994 er greint frá því að alvarlegur næringarskortur geti haft alvarlegar heilsufarsafleiðingar fyrir 3,6 milljónir manna (í landi sem telur 18 milljónir íbúa). Skýrslan telur að reikna megi með varanlegum skaða á vitrænum (intellectual) hæfileikum íraskra barna af völdum fjölþætts skorts. Í skýrslum frá matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, er einnig greint frá víðtækum næringaskorti af völdum refsiaðgerðanna og varað við miklum hörmungum ef Írakar fá ekki fljótlega að afla sér gjaldeyristekna i þeim mæli sem þarf til að flytja inn nauðsynjavörur og aðrar vörur sem þarf til að auka matvælaframleiðsluna. Breskir, þýskir, franskir og bandarískir blaðamenn, sem heimsótt hafa Írak á undanförnum árum, hafa lýst í greinum sínum almenna örbirgð, félagslega upplausn, aukna glæpastarfsemi, spillingu og hrikalegt heilbrigðisástand. Nýlega, þ.e. í des. 1994, greindi fulltrúi UNICEF í Baghdad fjölmiðlum að þegar hafi 500.000 einstaklingar látist í Írak af völdum viðskiptabannsins og hætta sé á enn meira mannfalli þar.
Fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Ramsey Clark, sem heimsótt hefur Írak nokkrum sinnum á liðnum árum, hefur greint ítarlega frá ástandinu í Írak í bréfum til mannréttindanefndar og aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Í formála bréfs til mannréttindanefndarinnar sagði hann m.a.: "Engin mannréttindabrot sem Íraksstjórn er sökuð um að hafa framið þar í landi á síðustu þrem árum jafnast á við þau mannréttindabrot sem refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn Írak hafa leitt af sér." Að mati Ramsey Clarks hafa 375.000 manns látist í Írak frá byrjun ársins 1991 til byrjun ársins 1994 af völdum refsiaðgerða Sameinuðu þjóðanna.
Slík atlaga gegn lífi og mannlegu umhverfi er andstæð grundvallar viðhorfum siðmenntaðra þjóða. Slíkar aðgerðir eru jafnframt í andstöðu við bókstaf og anda alþjóða mannúðarlaga. Jafnvel í stríði ber stríðsaðilum að hlífa óbreyttum borgurum. Undir engum kringumstæðum er stríðsaðilum leyft að þjarma að óbreyttum borgurum til að ná hernaðarlegu, hvað þá pólítisku markmiði, né að beita aðferðum sem fyrirsjáanlega myndu bitna fyrst og fremst á óbreytta borgara.
Vitneskja um ástandið í Írak þekkt og viðskiptabanni mótmælt
Vitneskja um ástandið í Írak hefur lengi legið fyrir. Morgunblaðið, Tíminn, Vikublaðið og Ríkisútvarpið hafa greint frá afleiðingum refsiaðgerðanna fyrir almenning í Írak. Til dæmis máttu lesendur Mbl. finna þegar árið 1992 (24. september) frétt með yfirskriftinni: "Barnadauði í Írak margfaldast" og er þar vitnað í skýrslu bandarísks læknatímaritsins New England Journal of Medicine. 5. júní 1994 birti svo Mbl. langa grein eftir írsku blaðakonunni Felicity Arbuthnot um áhrif refsiaðgerða Sameinuðu þjóðanna gagnvart Írak með yfirskriftinni "Þjóð í greipum heljar". Kona þessi hefur kynnt sér ástandið í Írak af eigin rammleik og hefur birt greinar um þessi mál í útbreiddum fjölmiðlum í Bretlandi. Í niðurstöðu sinni segir hún m.a.:
Í UNICEF-byggingunni í Baghdad er yfirlýstum markmiðum stofnunarinnar komið fyrir á áberandi stað. "Fyrst og fremst: Líf, von, þróun, virðing, jafnrétti og réttlæti konum og börnum til handa." Ef samfélag þjóðanna sér ekki til þess að þessi háleitu markmið nái einnig til Írak munu börnin sem þjást þar í dag verða einvaldar framtíðarinnar og harmleikurinn mun fylgja komandi kynslóðum í austri og vestri.
Ætla má að fulltrúum Íslands í Sameinuðu þjóðunum svo og yfirmanni þeirra hér á landi, utanríkisráðherra, hafi lengi verið kunnugt um afleiðingar refsiaðgerðanna.
Frá því opinská og bein hernaðarárás gegn Írak lauk í febrúar 1991 til dagsins í dag, hefur fjöldi einstaklinga, þ.m.t. undirritaður, skorað á íslensk stjórnvöld að binda enda á þátttöku Íslands í refsiaðgerðunum gegn írösku þjóðinni. Við reyndum að höfða til siðferðisvitundar íslenskra ráðamanna. Áskoranir okkar féllu þó í dauf eyru. Ekki þó svo að nokkur maður véfengdi framkomnum vitnisburði um afleiðingar refsiaðgerðanna, heldur töldu ráðamenn þjóðarinnar hentugast að gera eins og þeim kæmi málinu ekkert við. Viðbrögð stjórnvalda við áskorunum okkar voru engin. Í umfangsmiklum og árvissum skýrslum utanríkisráðherra til Alþingis er ekki minnst einu orði þeirra hörmunga sem íraska þjóðin hefur sætt af völdum linnulausra sprengjuárása og sætir enn af völdum refsiaðgerðanna, sem Ísland er aðili að.
Hverjar eru skyldur þjóðríkja gagnvart almenningi í Írak?
Hver ber ábyrgð á harmleiknum í Írak? Fulltrúar Öryggisráðs vísa allri ábyrgð á hendur Saddam Hussein og stjórn hans. Láti hann af þrjósku sinni, er okkur sagt, þá verður refsiaðgerðunum aflétt og þjáningar almennings í Írak linna. Með þessari afstöðu eftirlætur Öryggisráðið í raun einum manni, stríðsglæpamanninum Saddam Hussein, og nánustu samherjum, að ákveða hvort og hvenær þjáningar almennings í Írak skuli enda.
Sumir ganga svo langt og telja réttmætt að refsa írösku þjóðinni fyrir það eitt að geta ekki steypt stjórn Saddams Hussein af stóli. En aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gera lítið til þess að stuðla að falli einræðisherrans. Frakkland, Kína og Rússland, sem eiga fastafulltrúa í Öryggisráðinu, keppast um að gera ábatasama viðskiptasamninga við stjórn Saddams Husseins sem myndu taka gildi um leið og viðskiptabannið er aflétt. Írökum er þegar lengi orðið ljóst að þeir geta ekki treyst erlendum ríkjum til að hjálpa þeim að losna við kúgunarstjórn Saddams Hussein. Bandaríkin, sem hvöttu Íraka til að kollvarpa stjórn Saddams í kjölfari Persaflóastríðsins, héldu af sér höndum þegar öryggissveitir hans gengu milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum í suðurhluta Íraks og víðar árið 1991. Lýðræðisöfl í Írak gleyma ekki heldur að bæði Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland (áður Sovétríkin) studdu stjórn Saddams Hussein árum saman þrátt fyrir fyrirliggjandi vitneskju um ógnarstjórn og stríðsglæpi gegn Kúrdum í norðurhluta Írak
Bera ráðamenn Vesturlanda, sem með gerðum sínum hafa valdið írösku þjóðinni enn meiri tjón en sjálfur ógnvaldurinn, einhverja refsiábyrgð ? Bera þjóðirnar sem valdið hafa Írökum ómælt tjón með árásum og óbærilegu viðskiptabanni skaðabótaskyldu gagnvart óbreyttum borgurum í Írak, börnum þeirra og barnabörnum? Enn er ekki búið að segja síðasta orð í þeim efnum þótt ráðamenn Vesturlanda vilja sem minnst um þau mál vita. Munaðarlausu börnin í Írak og þær milljónir Íraka sem hafa orðið fyrir varanlegri fötlun af völdum þessarar alþjóðlegu atlögu, munu allt sitt líf bera minningu þessara atburða í líkama og sál. Sum þeirra munu setja fram spurningar og leita réttar síns gagnvart þeim mönnum í fjarlægum löndum, sem með einu pennastriki hafa eyðilagt líf þeirra.
Er aðild að refsiaðgerðum gegn saklausum borgurum í Írak saknæmt athæfi?
Samkvæmt íslenskum lögum er ekki aðeins bannað að valda dauða saklausra manna heldur einnig að liðsinna í orði og á verki slíkum brotum.
Því hefur enginn véfengt að ein af afleiðingum viðskiptabannsins á Írak sé aukinn barnadauði og margvíslegt heilsu- og fjárhagstjón saklausra borgara. Þeir sem telja rétt að halda áfram að þjarma að almenningi í Írak þrátt fyrir slíka vitneskju, hljóta því að vera sekir um refsivert athæfi.
Líta má á þá athöfn að undirrita auglýsingu dags. 28. apríl 1992 í Stjórnartíðindum um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) vegna innrásar Íraka í Kúvæt, sem liðsinni við brot á almennum hegningarlögum svo og á ákvæðum alþjóða laga um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum, einkum Genfarsáttmálanna frá 1949 og fyrsta viðauka þeirra frá 1977.
Utanríkisherra hlaut að gera sér grein fyrir afleiðingum af slíkum refsiaðgerðum. Frá upphafi viðskiptabannsins, í ágúst 1990 til þess að hann undirritaði áðurgreinda auglýsingu, hlaut hann að hafa fengið nægilega vitneskju um afleiðingar þessa embættisverks til að sjá að sér. En þrátt fyrir fyrirliggjandi vitneskju og þrátt fyrir áskoranir almennings um að binda endi á þátttöku Íslands í þessu banni, lét utanríkisráðherra slíka vitneskju og slíkar áskoranir eins um vind um eyru þjóta.
Var utanríkisráðherra neyddur til að liðsinna atlögu gegn saklausu fólki í Írak?
Var utanríkisráðherra neyddur til að undirrita ofangreinda auglýsingu ? Því er haldið fram að Íslandi sé skylt að framfylgja ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hvað sem tautar og raular. En það eru jafnframt skuldbindingar íslenskra stjórnvalda að virða í hvívetna ákvæði Genfarsáttmálana. Þar virðast tvennar alþjóðaskuldbindingar Íslands stangast á.
Fyrir liggur að ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gegn Írak hafi veika stoð í þjóðarétti: Öryggisráðið hefur hvorki leitað stuðnings allsherjarþings við aðgerðir sínar gegn Írak né lagalegs úrskurðar óvilhallra aðila um lögmæti þeirra. Og þótt Öryggisráðið hafi heimild til þess í sáttmála Sameinuðu þjóðanna að grípa til viðeigandi ráðstafana þegar hætta vofir fyrir heimsfriðinn, er ráðið jafnframt skuldbundið að gæta fyllstu varúðar með að beita valdi sínu. Þau ríki sem í raun stjórna Öryggisráðinu, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, eru ekki hlutlaus dómstóll sem ákveður hvað sé löglegt og hvað ekki, hvað ógni heimsfriðnum og hvað ekki. Ráðið er rammpólítisk samkunda hagsmunaaðila. Í ráðinu sitja ríki sem hafa margsinnis brotið gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.m.t. fastir fulltrúar: Rússland, Kína, Bandaríkin og Bretland. Öryggisráðið og aðilar þess geta að vísu neyða önnur ríki til hlýðni með valdbeitingu, en geta ekki ætlast þess að friðelskandi ríki framfylgi ranglátum eða glæpsamlegum ályktunum af fúsum vilja.
Öryggisráðið hefur ekki heldur fengið umboð frá réttmætum fulltrúum írösku þjóðarinnar til að vega að stjórn Saddams Hussein með viðskiptabanni (íraska þjóðin ein hefur sjálfsákvörðunarrétt í málum sínum). Sem dæmi má nefna að viðskiptabannið á Suður-Afríku var sett á vegna ítrekaðra áskorana Afríska þjóðaráðsins, sem var í raun fulltrúi meirihluta íbúanna þar í landi.
Sumir sérfræðingar í þjóðarétti hafa bent á að ályktanir Öryggisráðsins gegn Írak hafa verið teknar í skjön við sjálfan sáttmála Sameinuðu þjóðanna og í trássi við 1. grein sáttmálans sem kveður á um, að eitt helsta markmið samtakanna sé að hlúa að mannréttindum. Í öðru lagi virðist að í ályktunum öryggisráðsins felist alvarleg brot á ákvæðum Genfarsáttmála um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Samkvæmt þeim sáttmála má undir engum kringumstæðum beita aðgerðum sem bitna fyrst og fremst á óbreytta borgara, jafnvel þegar um sannanlega hernaðarhagsmuni sé að ræða. Aðgerðir sem unnar voru og eru að undirlagi öryggisráðsins, með liðsinni stjórnvalda fjölmargra ríkja, bitna fyrst og fremst á óbreytta borgara í Írak og ekki er unnt að réttlæta með tilliti til hernaðarlegrar nauðsynjar.
Í réttarhöldunum yfir leiðtogum nasísta í Nürnberg var sú meginregla kveðin (7. gr. sáttmálans), að menn geti ekki falið sig bak við embætti sitt til að draga úr ábyrgð sinni varðandi alþjóðaglæpi. Sama gegnir um einstaklinga sem segjast hafa framið slíka glæpi vegna fyrirskipana ríkisvalds eða yfirmanna sinna. Þó mega dómstólar taka tillit til aðstæðna undirmanna í úrskurðum sínum, t.d. ef neitun undirmanns að framkvæma skipun, hefði kostað honum lífið. Nürnbergsáttmálinn er nú hluti af hinum viðurkennda þjóðarétti.
Af þessu leiðir að það hefði verið skylda utanríkisráðherra að neita að framfylgja ályktanir öryggisráðsins gegn írösku þjóðinni. Það gerði hann ei. Stuðningur hans við aðgerðir Öryggisráðsins gegn írösku þjóðinni var eindreginn og birtist m.a. í ummælum hans á Alþingi (t.d. 14 jan. 1991) og í fjölmiðlum. Hann taldi greinilega aðgerðir sem auðsýnilega beinast gegn heilli þjóð réttmætar og löglegar. Hann liðsinnti óhæfuverkum ótilneyddur.
Með framferði sínu, virðist Jón Baldvin Hannibalsson hafa með virkum hætti og með fullri vitund um afleiðingar gerða sinna liðsinnt því alþjóða átaki að svipta þúsundi óbreytta borgara í Írak, ekki síst börnum, líf og heilsu.
Af þeim sökum tel ég rétt og skylt að saka Jón Baldvin Hannibalsson um liðsinni við manndráp og stríðsglæpi og ætlast til þess að hann verði lögsóttur á grundvelli gildandi laga.