Kæra gegn George H.W. Bush vegna alþjóðaglæpa
Við undirrituð leggjum hér með kæru gegn George H.W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem ætlað er að dveljist á Íslandi milli 4. og 7. júlí 2006. Við krefjumst þess, á grundvelli meðfylgjandi skýrslu, að George H.W. Bush verði kyrrsettur á Íslandi meðan meint aðild hans að alþjóðaglæpum er rannsökuð. Verði niðurstaða rannsóknarinnar sú, að George H.W. Bush hafi gerst sekur um aðild að alþjóðlegum glæpum, einkum glæpum gegn friðnum. stríðsglæpum eða glæpum gegn mannkyninu, er mælst til þess að réttað verði yfir honum fyrir íslenskum dómstólum eða Ísland framselji hann í hendur sérstaks alþjóðlegs dómstóls á vegum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem settur verði til að rétta í hans máli.
Bakgrunnur
Á þeim 75 árum sem liðu frá innrás Breta í Írak snemma í fyrri heimsstyrjöldinni þar til bandaríski flugherinn lagði Írak í rúst 1991, létu Bandaríkjamenn og Bretar ekki í ljósi neinar áhyggjur af lýðræði, mannréttindum, félagslegu réttlæti eða pólitískri og menningarlegri reisn á svæðinu, og sýndu engan áhuga á að stöðva hernaðarlegan yfirgang þar. Bandaríkjastjórn studdi Íranskeisara í 25 ár og aðeins á tímabilinu 1972 til 1978 seldi hún honum háþróuð hergögn fyrir 20 milljarði Bandaríkjadala. Allan þennan tíma voru keisarinn og grimm leynilögregla hans, SAVAK, einhverjir verstu mannréttindabrjótar í veröldinni. Á níunda áratugnum studdi svo Bandaríkjastjórn Írak í ranglátu árásarstríði gegn Íran, og lét þá ömurlega frammistöðu Íraka í mannréttindamálum sem vind um eyru þjóta.
Þegar Íraksstjórn þjóðnýtti Íraska olíufélagið árið 1972 setti ríkisstjórn Nixons af stað herferð sem hafði það markmið að riðla írösku stjórninni. Á áttunda áratugnum útveguðu Bandaríkjamenn Kúrdum vopn og létu þá síðan afskiptalausa, en það kostaði tugþúsundir Kúrda lífið. Fyrir tilstilli CIA og annarra stofnana fengu Bandaríkjamenn Kúrda til að ráðast á Írak í þeim tilgangi að hrella Íraka um leið og þeir tryggðu yfirburði Írana á kostnað kúrdískra mannslífa, án þess að ætla sér nokkurntíma að hygla Kúrdum eða koma á sjálfstjórnarhéraði í Kúrdistan.
Bandaríkjamenn hafa náin efnahagsleg tengsl, bæði hvað snertir olíu og annað, við Saudi Arabíu og Kúveit og hafa veitt ríkisstjórnum beggja landanna fullan stuðning þrátt fyrir algjöran skort á lýðræðislegum stofnunum í þessum löndum, stöðug mannréttindabrot og beitingu refsinga sem eru grimmar, ómannúðlegar og niðurlægjandi, einsog t.d. þegar fólk er grýtt í hel fyrir hórdómsbrot eða hendur eru höggnar af fólki fyrir auðgunarbrot.
Bandaríkjamenn hafa sjálfir staðið fyrir hernaðarárásum á undanförnum árum og brotið alþjóðalög með því að ráðast á Grenada 1983, varpa sprengjum á Tripoli og Benghazi í Líbýu 1986, fjármagna kontraskæruliða í Nicaragua og UNITA í suðurhluta Afríku, svo og með stuðningi sínum við herforingjastjórnir í Líberíu, Chile, El Salvador, Guatemala, á Filippseyjum og á mörgum fleiri stöðum.
Með innrásinni í Panama í desember 1989 brutu Bandaríkjamenn sömu alþjóðalög og Írakar brutu með innrásinni í Kúveit, og gengu jafnvel lengra en þeir. Bandaríska innrásin kostaði milli 1000 og 4000 Panamabúa lífið. Bandaríkjastjórn heldur tölur um þetta mannfall enn leyndum. Gífurlegt eignatjón hlaust um allt Panama af völdum innrásarinnar. Að mati bandarískra og alþjóðlegra mannréttindastofnana skiptu þeir sem féllu í innrás Íraka í Kúveit og þá mánuði sem hernámið stóð, hundruðum – voru á bilinu 300 – 600. Skýrslur frá Kúveit sýna að kúveitskar dauðasveitir hafa myrt 628 Palestínumenn síðan Sabah konungsfjölskyldan komst aftur til valda í Kúveit.
Bandaríkjastjórn breytti undir lok níunda áratugarins hernaðaráætlunum sínum, sem miðuðu að því að halda yfirráðum yfir olíunni og vernda aðra hagsmuni á Arabíuskaga, þegar ljóst varð að efnahagsvandinn í Sovétríkjunum dró úr hernaðarmætti þeirra og sovéski herinn var kallaður heim frá Afganistan. Allar götur síðan hefur herstjórnarlist Bandaríkjamanna á svæðinu Austurland nær einkennst af beinni hernaðaríhlutun.
Efnislegar forsendur kærunnar
1. Allt frá árinu 1989 eða fyrr tók Bandaríkjastjórn upp hegðunarmynstur sem ætlað var að hvetja Íraka til ögrunaraðgerða sem mundu réttlæta hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Írak og varanleg yfirráð bandaríska hersins á Persaflóa.
Árið 1989 endurskoðuðu Colin Powell, hershöfðingi og formaður Herforingjaráðs Bandaríkjanna, og Norman Schwarzkopf, (Commander in Chief of the Central Command), allar hernaðaráætlanir Bandaríkjanna er lutu að Persaflóasvæðinu og var það liður í undirbúningi íhlutunar í svæðisbundin átök gegn Írak. CIA aðstoðaði og stjórnaði Kúveitmönnum í aðgerðum þeirra. Á þessum tíma höfðu Kúveitbúar brotið gegn framleiðslusamkomulagi OPEC með því að vinna umframmagn af olíu úr olíulindum sem þeir áttu í félagi við Íraka, og með því að heimta endurgreiðslu lána sem þeir höfðu veitt Írökum meðan á stríðinu stóð milli Írans og Íraks. Bandaríkjamenn höfðu í hyggju að espa Íraka til aðgerða gegn Kúveit og réttlæta þannig bandaríska íhlutun.
Í júlí 1990 stóðu Schwarzkopf hershöfðingi og starfsfólk hans fyrir flóknum og tölvuvæddum heræfingum þar sem u.þ.b. 100.000 bandarískum hermönnum var att gegn bryndrekasveitum Íraka.
Bandaríkjamenn höfðu ekki uppi nein mótmæli gegn vaxandi ógnunum Íraka í garð Kúveitbúa. Bandarísk fyrirtæki sóttust eftir stórum samningum í Írak. Bandaríkjaþing samþykkti fjárframlög upp á hundruð milljóna dollara til að veita Írökum lán til kaupa á landbúnaðarafurðum og styrkja með því bandaríska bændur. En vorið 1990 var hætt að veita lán til kaupa á matvælum – hrísgrjónum, korni, hveiti og öðrum nauðsynjum sem keypt voru nær eingöngu frá Bandaríkjunum – og var það gert til að valda skorti á þessum vörum. Bandarískir vopnaframleiðendur seldu Írökum vopn. Þegar Saddam Hussein bað bandaríska sendiherrann, April Glaspie, að útskýra fyrir sér vitnisburð Utanríkisráðuneytisins á þingi um ógnanir Íraka gegn Kúveit sannfærði hún hann um að Bandaríkjastjórn liti á deilu ríkjanna sem svæðisbundna og mundi ekki skipta sér af henni. Með þessum aðgerðum hugðust Bandaríkjamenn espa Íraka til ögrunaraðgerða sem mundu réttlæta stríð.
2. ágúst 1990 hertóku Írakar Kúveit án teljandi andspyrnu. Fáum klukkutímum síðar hafði George H.W. Bush þegar undirritað skipanir um viðskiptabann við Írak og fengið meðlimi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja harðorða ályktun gegn innrásinni. Ekkert fordæmi er um slík skjót viðbrögð. Það er erfitt að trúa að lögfræðingar Bandaríkjastjórnar hafi verið tilbúnir um miðja nótt til að semja nákvæma tilskipun um viðskiptabann gegn öðru ríki innan fárra klukkustunda frá því hernaðaraðgerð hófst í öðrum heimshluta. Hraðinn bendir til þess að George H.W. Bush hafi vitað fyrirfram um innrásina og undirbúið fyrifram viðbrögð við henni, sem liður í viðleitni hans til að undirbúa árásarstríð og tryggja yfirráð Bandaríkjanna yfir olíu Austurlanda nær.
3. ágúst 1990 hét Georg Bush að verja Saudi Arabíu, án þess að neitt benti til að Saudi Arabía væri í hættu og þrátt fyrir að Fahd konungur væri þeirrar skoðunar að Írakar hefðu alls ekki í hyggju að ráðast inn í land hans. Bush sendi Cheney utanríkisráðherra ásamt hershöfðingjunum Powell og Schwarzkopf nánast umsvifalaust til Saudi Arabíu þar sem Schwarzkopf sagði Fahd konungi 6. ágúst að Bandaríkjastjórn teldi hugsanlegt að Írakar réðust inn í Saudi Arabíu, jafnvel innan tveggja sólarhringa. Þar með var komið í veg fyrir að Arabaríkin fyndu sameiginlega lausn á vandanum. Írakar réðust aldrei inn í Saudi Arabíu, þeir biðu í rúma fimm mánuði meðan Bandaríkjamenn komu sér í rólegheitum upp 500.000 manna liði og hófu kerfisbundnar sprengjuárásir á Írak og íraska herinn, sem máttu sín lítils gegn tækni Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Í október 1990 vitnaði Powell hershöfðingi í nýju hernaðaráætlunina frá 1989. Að stríðinu loknu talaði Schwarzkopf hershöfðingi um átján mánaða undirbúning herferðarinnar.
Þetta hegðunarmynstur er glæpur gegn friði.
2. Frá og með 2. ágúst 1990 kom Bush forseti viljandi í veg fyrir allar tilraunir til afskipta af þeirri áætlun hans að leggja Írak í rúst, efnahagslega og hernaðarlega.
Bush forseti skipaði 40.000 manna herliði að flýta hernaðaruppbyggingu Bandaríkjamanna í Saudi Arabíu í byrjun ágúst 1990. Hann heimtaði beiðni um hernaðaraðstoð af yfirvöldum í Saudi Arabíu og 8. ágúst fullvissaði hann alla um að aðgerðir hans væru eingöngu í varnarskyni. Hann beið fram yfir nóvemberkosningarnar 1990 með að gera heyrinkunna skipun sem hann hafði gefið áður um að 200.000 manna herlið til viðbótar yrði sent á staðinn, bersýnilega árásarlið.
Bush forseti leyndi fyrirætlun sinni, en hélt ótrauður áfram að efla hernaðaruppbyggingu Bandaríkjamanna frá því í ágúst 1990 fram í janúar 1991 með það fyrir augum að ráðast á Írak og leggja landið í rúst. Hann þrýsti á herinn um að flýta undirbúningi og hefja árásina áður en ákjósanlegustu hernaðarskilyrðum væri náð. Þegar Michael J. Dugan hershöfðingi, æðsti yfirforingi bandaríska flughersins, afhjúpaði í fjölmiðlum 16. september 1990 áætlanir hersins um að eyðileggja efnahag Íraka, var hann rekinn úr starfi.
Bush forseti knúði fram röð ályktana frá Öryggisráði SÞ sem áttu ekki sinn líka og tókst loks að fá í gegn stuðning við þær með aðferðum sem grófu undan Sameinuðu þjóðunum. Bandaríkin borguðu milljarða dollara í mútur til að tryggja sér atkvæði, buðu mönnum vopn til að heyja svæðisbundin stríð, höfðu í hótunum og beittu efnahagslegum refsiaðgerðum, afskrifuðu lán upp á marga milljarði dala (þar á meðal 7 milljarða lán sem Egyptar höfðu fengið til vopnakaupa), buðu ríkjum upp á stjórnmálasamskipti þrátt fyrir mannréttindabrot og þvinguðu fram atkvæði með öðrum hætti þar til svo leit út sem alþjóðleg samstaða hefði hér um bil náðst um stuðning við stefnu Bandaríkjamanna gegn Írak. Ríki sem settu sig upp á móti stefnu Bandaríkjamanna, einsog t.d. Jemen, misstu af milljónum dala sem þeim hafði áður verið lofað, og hafa aldrei greitt dýrara atkvæði.
Bush forseti vísaði stöðugt á bug og gerði lítið úr viðleitni Íraka til að komast að friðsamlegu samkomulagi, allt frá 12. ágúst 1990, þegar Írakar lögðu fram tillögu sem var að mestu hunsuð, til friðartilboðs þeirra um miðjan febrúar 1991 sem Bush kallaði grimmdarlegt gabb. Á hinn bóginn lýsti Bush því statt og stöðugt yfir að ekki yrði um neinar friðarviðræður að ræða, enga málamiðlun, ekkert yrði gert til að auðvelda Írökum að forðast álitshnekki, þeim yrði ekki launað fyrir yfirganginn. Samtímis sakaði hann Saddam Hussein um að hafna diplómatískum lausnum.
Bush forseti stjórnaði háþróaðri herferð til að gera Saddam Hussein að djöfli í hugum fólks, líkti honum við Hitler og vitnaði hvað eftir annað í skýrslur sem hann vissi að voru falsaðar um morð á hundruðum nýbura í hitakössum.
Allt ofangreint framferði er glæpur gegn friði.
3. Bush forseti skipaði fyrir um eyðileggingu mannvirkja sem höfðu mikla þýðingu fyrir daglegt líf óbreyttra borgara og atvinnulíf víðsvegar í Írak.
Skipun var gefin að hans undirlagi um að hefja kerfisbundnar loftárásir með flugvélum og flugskeytum á Írak klukkan 6.30 að bandarískum staðaltíma (E.S.T.) 16. janúar 1991, átján og hálfri klukkustund eftir að frestur sá rann út sem Bush forseti hafði sett, og var miðað við að fréttin um loftárásirnar kæmi í sjónvarpi á bandarískum kvöldfréttatíma. Sprengjuárásirnar héldu áfram í 42 daga. Íraski flugherinn veitti enga mótspyrnu og ekki var heldur um að ræða gagnárásir á jörðu niðri. Írakar voru að mestu leyti varnarlausir.
Bandarískar skýrslur segja að farnar hafi verið 110.000 árásarferðir gegn Írak og 88.000 tonnum af sprengjum hafi verið varpað, sem jafngildir u.þ.b. sjö Hiroshima-sprengjum. 93% af sprengjunum var fleygt úr flugvélum sem flestar flugu í yfir 30.000 feta hæð. Af þeim 7% sprengjanna sem tilheyrðu rafeindakerfum missti rúmur fjórðungur marks, og næstum allar ollu þær skaða handan þekkjanlegra skotmarka. Flest skotmörkin voru borgaraleg, en ekki hernaðarleg, mannvirki.
Markmiðið með því að sprengja upp borgaraleg mannvirki var að eyðileggja á kerfisbundinn hátt undirstöður íraska samfélagsins og koma landinu aftur á það stig sem var fyrir iðnvæðingu. Almenningur í Írak var háður iðnframleiðslunni. Ástandið í Írak eftir árás Bandaríkjahers var nánast einsog eftir ragnarök, einsog komist er að orði í fyrstu skýrslum sendimanna SÞ sem heimsóttu landið að stríðinu loknu. Meðal þess sem var eyðilagt má nefna:
Raforkuframleiðsla og dreifikerfi
Vatnsveitukerfi, dælustöðvar og vatnsból
Síma- og útvarpsstöðvar, turnar og sendar
Matvælaframleiðsla, geymslu- og dreifingarstöðvar og markaðir, verksmiðjur sem framleiddu barnamjólk og aðra drykkjarvöru, bólusetningarstöðvar fyrir húsdýr og áveitukerfi
Járnbrautarmannvirki, langferðabílastöðvar, brýr, brýr yfir þjóðvegi, þjóðvegir, vegaviðgerðarstöðvar, lestir, langferðabílar og önnur almenningsfarartæki og ökutæki í eigu fyrirtækja og einstaklinga
Olíulindir og dælur, leiðslur, hreinsunarstöðvar, olíugeymar, bensínstöðvar og tankbílar og steinolíugeymar
Holræsakerfi
Verksmiðjur sem framleiddu vörur fyrir óbreytta borgara, einsog t.d. klæða- og bílaverksmiðjur
Sögulegar minjar og fornir sögustaðir.
Bein, viljug og fyrirsjáanleg afleiðing þessarar eyðileggingar var sú, að tugþúsundir manna hafa látist úr uppþornun, blóðkreppusótt og sjúkdómum sem mengað drykkjarvatn veldur, fólk hefur veslast upp vegna skorts á læknishjálp og vegna hungurs, taugalosts, kulda og streitu. Engir aðrir en Bandaríkjamenn hefðu getað framkvæmt þessa eyðileggingu í Írak, og stríðinu var stjórnað svotil eingöngu af Bandaríkjastjórn.
Þetta framferði braut í bága við stofnskrá SÞ, Haag- og Genfarsáttmálana, Nürnberg-sáttmálann og lög sem gilda um vopnuð átök. Árásir á borgaraleg skotmörk eru skilgreindar sem stríðsglæpir.
4. Bandaríkjamenn sprengdu vísvitandi og eyðilögðu líf óbreyttra borgara, verslunar- og viðskiptahverfi, skóla, sjúkrahús, moskur, kirkjur, loftvarnarbyrgi, íbúðarhverfi, sögustaði, ökutæki í einkaeign og stjórnsýslubyggingar.
Eftir eyðileggingu mannvirkja sem ekki þjónuðu neinum hernaðarlegum tilgangi urðu óbreyttir borgarar upp til hópa án húshitunar, eldsneytis, ísskápa, drykkjarvatns, síma, rafmagns, útvarps og sjónvarps, almenningsfarartækja og eldsneytis fyrir einkabíla. Eyðileggingin hafði einnig í för með sér matvælaskort, skólum var lokað, atvinnuleysi varð almennt, alvarlega dró úr atvinnustarfsemi og loka varð sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Auk þess var skotið á íbúðahverfi í öllum stærri borgum og flestum kaupstöðum og þorpum og þau lögð í rúst. Bandarísku flugvélarnar réðust meira að segja á afskekktar Bedúínabúðir. Auk þess að drepa fólk og særa eyðilögðu loftárásirnar 10 – 20.000 heimili, íbúðir og aðra íverustaði. Skotið var á verslunarmiðstöðvar með búðum, skrifstofum, hótelum, veitingahúsum og öðrum þjónustustöðvum og þúsundir slíkra staða voru lagðar í rúst. Tugir skóla, sjúkrahúsa, moska og kirkna voru skemmdir eða eyðilagðir. Skotið var á þúsundir ökutækja á vegum úti eða á bílastæðum og í bílskúrum og þau eyðilögð. Meðal þeirra voru almenningsvagnar, sendiferðabílar og fólksflutningabílar í einkaeign, vörubílar, dráttarvélar, tengivagnar, leigubílar og einkabílar. Markmið þessara sprengjuárása var að ógna öllum landsmönnum, drepa fólk, eyðileggja eignir, koma í veg fyrir fólksflutninga, lama siðferðisþrek þjóðarinnar og neyða stjórnina frá völdum.
Að minnsta kosti 125.000 konur, karlar og börn voru drepin í þessum sprengjuárásum á mannvirki sem ekki höfðu neina hernaðarlega þýðingu, íbúðahverfi og aðrar byggingar og svæði. Í vikunni áður en stríðinu lauk áætlaði Rauði hálfmáninn í Jórdaníu að 113.000 óbreyttir borgarar væru fallnir, þar af 60% börn.
Þetta framferði braut í bága við stofnskrá SÞ, Haag- og Genfarsáttmálana, Nürnberg-sáttmálann og lög um vopnuð átök. Árásir á borgaraleg skotmörk, einstaklinga og mannvirki, eru skilgreindar sem stríðsglæpir eða/og glæpir gegn mannkyninu.
5. Bandaríkin vörpuðu vísvitandi sprengjum af handahófi um gjörvallt Írak.
Í loftárásum á borgir, bæi, sveitir og þjóðvegi vörpuðu Bandaríkjamenn sprengjum og skutu af stuttu færi án tillits til þess hvað varð fyrir skoti. Í hverri borg og hverjum bæ féllu sprengjur tilviljunarkennt og langt í burtu frá hugsanlegu skotmarki, hvort sem um var að ræða mannvirki án hernaðarlegrar þýðingar eða hernaðarlegt skotmark. Í dreifbýlinu voru gerðar tilviljanakenndar árásir á ferðamenn, þorpsbúa, jafnvel Bedúína. Markmið árásanna var að deyða fólk, eyðileggja verðmæti og hræða óbreytta borgara. Á þjóðvegunum var ráðist á ökutæki, þ.á m. almenningsvagna, leigubíla og langferðabíla, sprengjum varpað á þá og skotið á þá af handahófi í því skyni að hræða fólk frá því að flýja, leita sér fæðu eða læknishjálpar, finna ættingja sína eða nota þjóðvegina yfirleitt. Afleiðingin var skyndiaftökur og meiðingar á fólki án tillits til þess hvort um var að ræða konur, börn eða karla, unga eða gamla, ríka eða fátæka, án tillits til þjóðernis eða hvort fólk tilheyrði einhverjum hinna stóru hópa innflytjenda, væri jafnvel bandarískt, fólk af öllum þjóðflokkum var drepið, m.a. margir Kúrdar og Assýríumenn, úr öllum trúflokkum, m.a. Sjítar og Súnnítar, kristnir menn og Gyðingar. Gott dæmi um meðvitað skeytingarleysi Bandaríkjamanna um mannfall í Írak, hvort heldur um var að ræða hermenn eða óbreytta borgara, er svar Colin Powells hershöfðingja við spurningu blaðamanns um fjölda fallinna í árásum úr lofti og á landi: Það er tala sem ég hef satt að segja ekki mikinn áhuga á.
Þetta framferði brýtur í bága við Viðbótarskjal nr. 1, grein 51.4 í Genfarsáttmálanum frá 1977.
6. Bandaríkjamenn vörpuðu sprengjum á og drápu íraska hermenn, beittu valdi að óþörfu, drápu hermenn sem reyndu að gefast upp eða voru einir á óskipulögðum flótta, oft óvopnaðir og fjarri öllum bardagasvæðum. Þeir drápu íraska hermenn af handahófi og eyðilögðu hergögn eftir að vopnahlé var gengið í gildi.
Bandaríkjamenn eyðilögðu flutningakerfi íraska hersins að mestu leyti á fyrstu klukkustundum loftárásanna og byrjuðu á kerfisbundinn hátt að drepa hermenn sem voru ófærir um að verja sig eða flýja, og einnig byrjuðu þeir að eyðileggja hergögn. Í 42 daga dóu tugþúsundir varnarlausra hermanna í loftárásum, auk þess sem komið var í veg fyrir að herinn fengi matvæli, vatn og aðrar nauðsynjar, en afleiðing þess var vonlaus óreiða og bjargarleysi. Án þess að stofna sínum eigin mönnum í umtalsverða hættu drápu Bandaríkjamenn a.m.k. 100.000 íraska hermenn, en misstu sjálfir 148 menn í bardaga, samkvæmt upplýsingum bandarískra stjórnvalda. Þegar ákveðið hafði verið að efnahagur og her hefðu orðið fyrir nægum skaða fóru bandarískar landgönguliðssveitir inn í Kúveit og Írak og leituðu hvarvetna uppi íraska herflokka sem ráfuðu um á óskipulögðum flótta, drápu þúsundir manna í viðbót og eyðilögðu öll hergögn sem fundust. Slátrunin hélt áfram eftir að vopnahlé var gengið í gildi. Sem dæmi um það má nefna, að 2. mars 1991 réðust menn úr 24. deild bandaríska hersins á Íraka rétt fyrir vestan Basra og héldu uppi skothríð á þá í fjóra klukkutíma. Meira en 750 ökutæki voru eyðilögð og þúsundir manna voru drepnar, en Bandaríkjamenn misstu engan mann. Við gengum svo sannarlega frá þeim, sagði bandarískur herforingi. Þessi árás var kölluð Tyrkjaskot. Einn úr áhöfn Apache-þyrlu æpti: Bið að heilsa Allah! um leið og hann skaut Hellfire flugskeyti.
Markmiðið var ekki að reka Íraka burt úr Kúveit. Markmiðið var að leggja Írak í rúst. Meðan á því stóð eyðilögðust gífurleg verðmæti í Kúveit. Í þessum ójafna leik varð varnarlaus óvinurinn fyrir drápum og eyðileggingu í hlutfallinu 1000 á móti einum.
Thomas Kelly hershöfðingi lét þess getið 23. febrúar 1991 að þegar stríðið hæfist á jörðu niðri yrðu ekki margir þeirra eftir. Norman Schwarzkopf hershöfðingi taldi mannfall Íraka vera yfir 100.000 manns. Markmiðið var að eyðileggja öll hernaðarmannvirki og hergögn hvar sem þau væru staðsett og fækka vopnfærum karlmönnum í Írak svo mjög að ekki yrði komið upp umtalsverðum herstyrk þar næstu árin.
Þetta framferði braut í bága við stofnskrá SÞ, Haag- og Genfarsáttmálana, Nürnberg-sáttmálann og lög um vopnuð átök. Árásir á óbreytta borgara og borgaraleg skotmörk eru skilgreindar sem stríðsglæpir.
7. Bandaríkjamenn notuðu bönnuð gjöreyðingarvopn og ollu með því dauða og ónauðsynlegum þjáningum án tillits til þess hver yrði fyrir þeim, hvort sem um var að ræða hernaðarleg eða óhernaðarleg skotmörk.
Meðal þeirra ólöglegu vopna sem vitað er að Bandaríkjamenn notuðu eru eftirfarandi:
Bensínsprengjur sem varpað er úr lofti og valdið geta íkveikjum og dauða á stórum svæðum.
Napalm.
Flísasprengjur, bæði þær sem varpað er í klösum og þær sem varpað er á einstaklinga.
Súperbombur, sem vega tvö og hálft tonn og eru ætlaðar til að koma þjóðrleiðtogum fyrir kattarnef.
Bensínsprengjurnar voru notaðar gegn bækistöðvum herflokka, íbúðahverfum, olíulindum og ennfremur gegn óbreyttum borgurum og hermönnum á flótta á tveimur stöðum á þjóðveginum milli Kúveits og Íraks. Eitt þeirra vopna af þessari gerð sem notuð voru var svokallað BLU-82, sem vegur 15.000 pund og brennir allt sem fyrir verður á svæðum sem ná yfir hundruð fermetra.
Á sjö mílna vegarspotta sem kallaður var Þjóðvegur dauðans lágu hundruð ökutækja og þúsundir líka einsog hráviði um allt. Fólk flúði unnvörpum til Íraks til að bjarga lífi sínu. Þúsundir óbreyttra borgara á ýmsum aldri, þar á meðal Kúveitar, Írakar, Palestínumenn, Jórdanar og fólk af öðrum þjóðernum. Annar 60 mílna vegarspotti nokkru austar var þakinn ónýtum skriðdrekum, brynvörðum bílum, vörubílum og sjúkrabílum og þúsundum líka, eftir árás á bílalest aðfaranótt 25. febrúar 1991. Fjölmiðlar skýrðu frá því að svo virtist sem enginn hefði lifað þá árás af. Á opnum vörubíl í þeirri lest fundust níu lík sem allt hár og föt höfðu brunnið af og húðin var brennd af hitanum sem var svo gífurlegur að framrúða bílsins hafði bráðnað og lekið niður á mælaborðið.
Napalmi var beitt gegn óbreyttum borgurum og hermönnum og til að kveikja í. Bandarískar flugvélar komu vísvitandi af stað bruna í olíulindum bæði í Kúveit og Írak með því að varpa á þær napalmi og öðrum íkveikjusprengjum.
Flísasprengjur voru notaðar í Basra og fleiri borgum og kaupstöðum, gegn áðurnefndum bílalestum og gegn herflokkum. CBU-75 ber 1800 smásprengjur sem kallaðar eru Sadeyes. Ein gerð af Sadeyes getur sprungið áður en hún lendir á jörðinni og einnig við högg eða á ýmsum tímum eftir að hafa lent á jörðinni, og er hún þá stillt á ákveðinn tíma. Í hverri smásprengju eru 600 flugbeittar stálflísar sem geta drepið á allt að 40 feta færi. 1800 smásprengjur úr einni CBU-75 geta þakið svæði á stærð við 157 knattspyrnuvelli með bráðdrepandi sprengjuflísaregni.
Súperbombum, a.m.k. tveimur, var varpað á traustbyggð skýli síðustu árásardagana í þeim tilgangi að drepa Saddam Hussein forseta. Önnur þeirra missti marks. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Pentagon gerði þjóðarleiðtoga að skotmarki. Í apríl 1986 reyndu Bandaríkjamenn að drepa Muammer Qaddafi með leysigeislasprengjum í árás þeirra á Trípolí í Líbýu.
Ólögleg vopn drápu þúsundir óbreyttra borgara og hermanna.
Þetta framferði braut í bága við Haag- og Genfar-sáttmálana, Nürnberg-sáttmálann og lög um vopnuð átök. Slíkar árásir eru skilgreindar sem stríðsglæpir.
8. Bush forseti sendi bandarískt herlið inn í Panama með þeim afleiðingum að 1000-4000 Panamabúar voru drepnir og þúsundir íbúðarhúsa, opinberra bygginga og verslunarhúsa voru lagðar í rúst.
Þann 20. desember 1989 gaf Bush forseti skipun um hernaðarinnrás í Panama þar sem beitt var flugvélum, stórskotaliði og herþyrlum og tilraunir gerðar með ný vopn, þ.á m. sprengjuvélinni Stealth bomber. Hér var um skyndiárás að ræða og skotmörkin voru stjórnarbyggingar sem ekki höfðu hernaðarlegt gildi. Í hverfinu El Chorillo í Panamaborg voru hundruð óbreyttra borgara drepin og milli 15.000 og 30.000 manns misstu heimili sín. Bandarískir hermenn grófu lík Panamabúa í fjöldagröfum, oft án þess að gengið væri úr skugga um af hverjum líkið var. Þjóðarleiðtoginn Manuel Noriega, sem Bandaríkjastjórn og bandarískir fjölmiðlar höfðu kerfisbundið gert að djöfli í augum almennings, gafst að lokum upp fyrir bandaríska herliðinu og var fluttur til Miami á Flórida, borinn sökum utan lögsagnarumdæmis Bandaríkjanna.
Með innrás sinni í Panama brutu Bandaríkjamenn öll þau alþjóðalög sem Írakar brutu með innrásinni í Kúveit, og meira til. Bandaríkjaher drap mun fleiri Panamabúa en Írakar Kúveitbúa.
Bush forseti braut í bága við stofnskrá SÞ, Haag- og Genfarsáttmálana og framdi glæpi gegn friði og stríðsglæpi og braut ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar og mörg bandarísk lagaákvæði með því að skipa fyrir um og stjórna innrásinni í Panama.
9. Bandaríkjamenn háðu stríð gegn umhverfinu.
Sú mengun sem hlaust þegar sprengd voru 88.000 tonn af sprengjum og skotið á loft ótal flugskeytum, eldflaugum og öðrum skotvopnum, ásamt bruna og íkveikjum af völdum þeirra og 110.000 árásarferða, eða h.u.b. tveggja ferða á mínútu í sex vikur, olli gríðarlegum umhverfisspjöllum. Flestir, ef ekki allir verstu olíulekarnir í Persaflóa voru bandarískum loftárásum að kenna. Napalmsprengjum og bensínsprengjum var varpað úr flugvélum og þyrlum á olíulindir, olíugeyma og hreinsunarstöðvar og ollu þær olíubruna um gjörvallt Írak og mörgum, ef ekki flestum, eldsvoðum í olíulindum Íraks og Kúveits. Vísvitandi eyðilegging vatnsveitna, úrgangseyðslustöðva og holræsakerfa er bein og langvarandi árás á líf og heilsu fólks hvarvetna í Írak.
Þetta framferði braut í bága við stofnskrá SÞ, Haag- og Genfarsáttmálana og lög um vopnuð átök. Hér er um að ræða stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.
10. Bush forseti svipti írösku þjóðina nauðsynlegum lyfjum, drykkjarvatni, matvælum og öðrum lífsnauðsynjum, að yfirlögðu ráði.
Einn af helstu þáttum árásarinnar á Írak var kerfisbundin eyðilegging á lífsnauðsynjum og þjónustu. Til að brjóta niður vilja fólksins, eyðileggja efnahagsgetu þess, fækka því og spilla heilsu þess gerðu Bandaríkjamenn eftirfarandi:
Settu á viðskiptabann og komu í veg fyrir innflutning á nauðsynlegum lyfjum, vatnshreinsiefnum, barnamjólk, matvælum og fleiri vörum.
Með einstaklingsákvörðun var sett hafnbann á Írak, sem er stríðsaðgerð, til að svipta írösku þjóðina lífsnauðsynjum.
Frystu íraskar bankainnistæður og neyddu önnur ríki til að gera slíkt hið sama, og gerðu Írökum þar með ókleift að kaupa lyf sem þeir þörfnuðust, matvæli eða aðrar vörur.
Leyndu upplýsingum um þá brýnu þörf sem var á þessum nauðsynjum ef takast átti að hefta yfirvofandi farsóttir og koma í veg fyrir sjúkdóma og dauða sem stefndu öllu þjóðfélaginu í hættu.
Hindruðu alþjóðleg samtök, ríkisstjórnir og hjálparstofnanir í að sjá Írökum fyrir nauðsynjum og verða sér úti um upplýsingar um þarfir þeirra.
Létu hjá líða að aðstoða gífurlegum fjölda flóttamanna frá t.d. Egyptalandi, Indlandi, Pakistan, Jemen, Súdan, Jórdaníu, Palestínu, Sri Lanka og Filippseyjum, og hindruðu aðra í að koma þeim til hjálpar.
Beindu athygli manna stöðugt frá heilbrigðismálum og farsóttahættu í Írak sem Bandaríkjamenn áttu sök á, jafnvel eftir að þeir höfðu tilkynnt um hörmungar Kúrda við tyrknesku landamærin.
Vörpuðu vísvitandi sprengjum á rafveitunetin sem leiddi til lokunar sjúkrahúsa og rannsóknarstofa og þess að lyf og blóðvökvi fór til spillis.
Vörpuðu vísvitandi sprengjum á matvælageymslur, áburðargeymslur og útsæðisgeymslur.
Af völdum þessa athæfis létust þúsundir manna og enn fleiri hafa þjáðst af sjúkdómum og varanlegum meiðslum. Sem dæmi má nefna að fyrstu sjö mánuði ársins 1990 var neysla á tilbúinni barnamjólk 2500 tonn á mánuði. Frá 1. nóvember 1990 til 7. febrúar 1991 gátu Írakar ekki flutt inn nema 17 tonn af þessari vöru. Þeirra eigin framleiðslugeta var eyðilögð. Margir Írakar trúðu því að Bush forseti vildi börn þeirra feig vegna þess að hann gerði matarbirgðir þeirra að skotmarki. Rauði hálfmáninn í Írak taldi að 3000 börn hefðu dáið frá 7. febrúar 1991 að telja vegna skorts á barnamjólk og lyfjum.
Þetta framferði brýtur í bága við Haag- og Genfarsáttmálana, alþjóðlegu mannréttindayfirlýsinguna og aðra sáttmála, og er glæpur gegn mannkyninu.
Lagalegar forsendur kærunnar
Árásarstríð, stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu eru alþjóðlegir glæpir. Viðbrögð við alþjóðlegum glæpum (crimes against international law) varða öll ríki og allar þjóðir. Samkvæmt alþjóðlegum venjurétti getur þjóðríki ekki lengur (síðan Nürnbergréttarhöldin árið 1945) beitt þeim rökum að það skorti lagaheimild til að lögsækja menn sem grunaðir eru um aðild að alþjóðlegum glæpum. Það er nú skjalfest lagaleg skylda hvers ríkis til að handtaka og rétta yfir (eða framselja öðru ríki) hvern þann sem fyrirfinnst innan lögsögu viðkomandi ríkis og grunaður er um hafa skipað fyrir eða framið pyntingar, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu eða þjóðarmorð. Eftir Pinochetmálið er orðið ljóst að einstaklingar njóta ekki friðhelgi þótt þeir hafi framið alþjóðlega glæpi meðan þeir gegndu opinberu embætti. Sú regla var reyndar fest í sessi þegar við réttarhöldin í Nürnberg árið 1945 en henni hefur ekki verið framfylgt af pólítiskum (en ekki réttarfarslegum) ástæðum.
Samkvæmt þeim efnislegum forsendum kærunnar sem að ofan greinir, hefur George HW Bush, sem nú er væntanlegur til Íslands eða er þegar kominn til lands, átt hlutdeild í öllum þrem flokkum glæpa sem taldir voru upp í Nürnbergsáttmála frá 1945: glæpum gegn friði (eða árásarstríð), stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu.
Ísland er aðili m.a. að eftirfarandi alþjóða samningum sem innihalda ákvæði um skyldur og heimildir aðildarríkja á sviði refsiréttar:
1. Genfarsamningarnir frá 12. ágúst 1949 og viðaukar þeirra frá 1977
2. Alþjóða samningur um stofnun alþjóðlegs sakadómstólsins (Rómarsáttmálinn)
Samkvæmt þessum samningum er íslenskum stjórnvöldum bæði skylt og heimilt að handtaka eða framselja til annars ríkis einstaklinga innan íslenskrar lögsögu, án tillits til þjóðernis og stöðu, sem grunaðir eru um að hafa átt hlutdeild í stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu:
1. Samkvæmt ákvæðum Genfarsáttmálans frá 12. ágúst 1949 ber aðildarríkjum samninganna að lögsækja eða framselja hvern þann, innan þeirra lögsögu, sem hefur skipað fyrir eða framið stríðsglæpi. Sú skylda er fest í 49. gr. fyrsta sáttmálans, 50. gr. annars sáttmálans, 129. gr. þriðja sáttmálans og 146. gr. fjórða sáttmálans. Nánari lýsing á því hvað teljist stríðsglæpur er að finna í 50. gr. fyrsta sáttmálans, 51.gr. annars sáttmálans, 130. gr. þriðja sáttmálans, 147. gr. fjórða sáttmálans og í 85. gr. fyrsta viðaukans frá 1977. Hér er um lagalega skyldu að ræða.
2. Samkvæmt ákvæðum Rómarsáttmálans um alþjóðalegan sakadómstól, er ljóst að dómstóllinn gerir ráð fyrir að þjóðríki leitist við að rétta í málum þeirra sem staðið hafa að alþjóðaglæpum, en aðeins þegar þjóðríki eru ekki viljug eða fær að standa að slíkum málaferlum, getur Alþjóða sakadómstóllinn tekið málið til meðferðar. Af þessu er ljóst að stofnendur dómstólsins ætluðust til þess að einstök ríki eigi frumkvæði til að tryggja refsileysi þegar um brot á alþjóða sakarétti er að ræða.
3. Samkvæmt alþjóðlegum venjurétti, er það skylda ríkja að koma í veg fyrir framkvæmd alþjóðlegra glæpa og tryggja að þeir sem fremja slíka glæpi verði sóttir til laga. Þennan venjurétt má rekja til Nürnbergsáttmálans en meginreglur þess hafa verið samþykktar einróma af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með ályktun nr. 95(1) frá 11. des. 1946. Frá þeim tíma hefur verið litið á þessar meginreglur sem hluta alþjóðlegs venjuréttar um ábyrgð einstaklinga og ríkja í sambandi við glæpi gegn friðnum, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu.
Samkvæmt meginreglum Nürnnbergsáttmálans (grein 6(a)) telst aðild að glæpum gegn friði saknæmar. Glæpur gegn friði telast það
að gera áætlanir, undirbúa, hefja eða heyja árásarstríð eða stríð sem brýtur í bága við alþjóðlega samninga, sáttmála eða samkomulaga, eða aðild að sameiginlegri áætlun eða samsæri um að framkvæma eitthvað af því sem fyrr greinir.
Meginregla 1 segir: Sérhver einstaklingur sem fremur athöfn sem felur í sér glæp samkvæmt þjóðarétti ber refsiábyrgð á gerðum sínum.
Meginregla 2 segir: Þótt einhver athöfn teljist ekki refsiverð samkvæmt landslögum, ber einstaklingur refsiábyrgð vegna athafnarinnar, ef hún telst glæpur samkvæmt þjóðarétti.
Meginregla 3 segir: Sú staðreynd að einstaklingur sem sekur er um alþjóðlegan glæp hafi verið þjóðarleiðtogi eða opinber embættismaður ríkisins þegar hann framdi glæpinn, dregur ekki úr ábyrgð hans samkvæmt þjóðarétti.
Meginregla 6 telur upp þá glæpi sem meginreglurnar ná yfir, sem sé glæpir gegn friðnum, stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu.
Meginregla 7 segir: Samsekt (complicity) við framkvæmd alþjóðlegs glæps, sbr. meginreglu 6 telst einnig alþjóðlegur glæpur.
Hlutdeild George HW Bush í ofangreindum alþjóðaglæpum
Samkvæmt þeim reglum um hlutdeild sem hafa þróast í meðferð alþjóðlegra sakadómstóla, sbr. ICTY, ICTR og hafa verið fest í Rómarsáttmála Alþjóða sakadómstólsins, nær hlutdeild í alþjóðaglæpum til einstaklings sem (a) fremur glæpinn, einn eða með öðrum; (b) skipar öðrum, hvetur aðra eða fær aðra með öðrum hætti að fremja glæpinn: eða (c) aðstoðar við eða auðveldar framningu glæpsins.
Samkvæmt bandarísku stjórnarskrá er forseti Bandaríkjanna í senn forseti og yfirmaður allra herja. Hann ber því æðstu ábyrgð á gerðum bandarískra herja á hverjum tíma.
Það er ljóst að Geore HW Bush ber ábyrgð á stríðsrekstri Bandaríkjanna gegn Panama og Írak. Ennfremur liggur fyrir vitneskja um að hann hafi skipað, hvatt eða stuðlað með öðrum hætti að árásum Bandaríkjahers á borgaralegar undirstöður íraks samfélags. Hann hefur einnig mælt með aðgerðum til að þjarma að írösku þjóðinni með alhliða viðskiptabanni. Hann hefur tekið þátt í þessum athöfnum í fullri vitund um afleiðingar fyrir saklaust fólk. Sú staðreynd að hann hefur ekki beitt sér fyrir því að bandarískir þegnar verði lögsóttir vegna alvarlegra brota á Genfarsáttmálunum, s.s. árása á óbreytta borgara og á borgaraleg skotmörk í Persaflóastríðinu, bendir til þess að hann hafi sjálfur mælt með slíkum aðgerðum með það fyrir augum að leggja Írak í rúst.
Niðurstöður
Við undirrituð teljum, að rannsökuðu máli, að George HW Bush hafi gerst sekur um alvarlega alþjóðaglæpi meðan hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna, einkum í sambandi við árásarstríð gegn Panama, við Persaflóastriðið árið 1991 og við viðskiptabannið gegn Írak sem sett var á að hans undirlagi sumarið 1990.
Við höfum sýnt að íslenskum yfirlöndum er skylt að handtaka og lögsækja (eða framselja til annars ríkis) einstaklinga innan íslenskrar lögsögu, sem gerst hafa sekir um stríðsglæpi. Hlutdeild manna í slíkum glæpum takmarkast ekki við beina þátttöku, heldur bera yfirmenn jafna og stundum meiri ábyrgð á slíkum gerðum en undirsátar þeirra.
George HW Bush mun dvelja eða dvelur þegar innan íslenskrar lögsögu. Það er því að okkar mati skylda íslenskrar lögreglu að ákæra George HW Bush vegna meintrar aðildar að ofangreindum alþjóðaglæpum og tryggja að hann fari ekki úr landi meðan rannsókn málsins stendur yfir.
Við ætlumst þess að íslensk yfirvöld standi vörð um lagalegar skuldbindingar sínar að þjóðarétti og mismuni ekki milli manna á grundvelli þjóðernis eða stöðu þegar um er að ræða alvarlegustu alþjóðaglæpi.
Við væntum þess að heyra frá embætti yðar um framvindu mála og eru reiðubúin til að veita nánari upplýsingar ef þess gerist þörf.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson,
f.h. undirritaðra
Hörpugata 14
101 Reykjavík
(Kæran lögð inn hjá Ríkislögreglustjóra 3.8.2006)