Kæra gegn George H.W. Bush
Við undirrituð kærum hérmeð George H.W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem ætlað er að dveljist á Íslandi milli 4. og 7. júlí 2006, fyrir margvíslega alþjóðaglæpi, eins og kemur fram hér á eftir. Við krefjumst þess, á grundvelli meðfylgjandi gagna, að George H.W. Bush verði kyrrsettur á Íslandi meðan meint hlutdeild hans að þessum alþjóðaglæpum er rannsökuð. Bendi niðurstaða rannsóknarinnar til þess að ástæða sé til að lögsækja George H.W. Bush, er mælst til þess að réttað verði yfir honum fyrir íslenskum dómstólum eða að hann verði framseldur alþjóðlegum dómstól sem hefði umboð til að rétta í hans máli.
Efnislegar forsendur kærunnar
§1 Eitt af fyrstu verkum George H.W Bush í forsetatíð sinni, var að skipa bandaríska hernum í desember 1989 að ráðast inn í smáríkið Panama, skipta þar um stjórnvöld og ræna forseta landsins. Þann 20. desember 1989 gaf Bush forseti skipun um hernaðarinnrás í Panama þar sem beitt var flugvélum, stórskotaliði og herþyrlum og tilraunir gerðar með ný vopn, þ.á m. sprengjuvélinni Stealth bomber. Hér var um skyndiárás að ræða og skotmörkin voru stjórnarbyggingar sem ekki höfðu hernaðarlegt gildi. Í hverfinu El Chorillo í Panamaborg voru hundruð óbreyttra borgara drepin og milli 15.000 og 30.000 manns misstu heimili sín. Bandarískir hermenn grófu lík Panamabúa í fjöldagröfum, oft án þess að gengið væri úr skugga um af hverjum líkið var. Í þeirri innrás dóu milli 2.000 og 5.000 manns, fleiri en þeir sem dóu í innrás Íraks í Kúvæt árið á eftir. Um 25.000 manns misstu heimili sín. Árásin var skýlaust brot á alþjóðalögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem banna árásarstríð. Með því að hefja og heyja árásarstríð í bága við Sáttmála Sameinuðu þjóðanna og við Kellogg-Briand sáttmálann frá 1929, gerðist George H.W. Bush sekur um glæp gegn friði (the crime of aggression) [1] . Með því að fyrirskipa mannrán á forseta Panama gerðist George H.W. Bush sekur um glæp gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingi. [2]
§2 George H.W. Bush ásetti sér í forsetatíð sinni að hefja árásarstríð gegn Írak með það fyrir augum að leggja efnahag og hernaðarmátt landsins í rúst. Hann og ráðherrar hans styrktu með leynd ögranir Kúvætstjórnar gegn Írak til að stuðla að innrás Íraks í Kúvæt; undirbjuggu og prófuðu hernaðaráætlanir um stríð milli Bandaríkjanna og Írak áður en Írak réðst á Kúvæt; og gáfu í skyn við Saddam Hussein að Bandaríkin myndu ekki skipta sér af hugsanlegri árás Íraks í Kúvæt. Þótt ljóst væri í júlí 1990 að Írakar hefðu safnað miklu herliði við landamæri Kúvæt, lét stjórn George H.W. Bush það ógert að vara Saddam Hussein við árás. Eftir innrás Íraks í Kúvæt, flýtti George H.W. Bush sér að senda 40.000 manna herlið til Saúdi-Arabíu án heimildar Sameinuðu þjóðanna. Hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að koma í veg fyrir friðsamlegri lausn málsins, m.a. með því að hunsa margar sáttatillögur Saddams Husseins og annarra milligöngumanna. Til að stuðla að stuðningi bandarísks almennings við stríðið, beitti hann grófum lygum sem hann endurtók aftur og aftur í ræðum sínum, þ.m.t. að her Íraks væri í þann mund að ráðast á Sáudi-Arabíu; að hann hafi fjarlægt hundruð hitakassa úr sjúkrahúsum í Kúvæt og valdi dauða hundruða fyrirbura; og að Írak gæti framleitt kjarnorkuvopn innan fárra mánaða. George H.W. Bush beitti öðrum ríkjum mútum og þvingunum, þ.m.t. Egyptalandi, Jemen, Rússlandi og Kína, til að tryggja stuðning þeirra í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna við heimild til stríðsaðgerða gegn Írak. George H.W. Bush reyndi og að fela áætlanir bandaríska hersins um árásir á íraskt landsvæði. Þegar Michael J. Dugan hershöfðingi, æðsti yfirforingi bandaríska flughersins, afhjúpaði í fjölmiðlum 16. september 1990 áætlanir hersins um að eyðileggja efnahag Íraka, var hann rekinn úr starfi.
Með því að neita að tæma friðsamleg úrræði til að tryggja brottför íraska hersins frá Kúvæt, eins og skylt er samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og með öðrum gerðum sínum, m.a. þeim sem að ofan greinir, sannaði George H.W. Bush að hann ætlaði, hverju sem liði, að tryggja Bandaríkjunum tækifæri til árásarstríðs gegn Írak. Með því að vinna markvisst að undirbúningi árásarstríðs gerðist George H.W. Bush sekur um glæp gegn friði.
§3 George H.W. Bush beitti sér fyrir því að allsherjarviðskiptabann yrði sett á Írak, fyrst með einhliða ákvörðun Bandaríkjanna sem hann tók fáeinum klukkustundum eftir innrás Íraks í Kúvæt og fáum dögum síðar í gegnum ákvörðun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Viðskiptabannið náði strax til nauðsynjavara, þ.m.t. matvæla, lyfja, heilbrigðisvarnings, sápu, efnis til að reka vatnshreinsunarstöðvar, skólavarnings og annarra almennra nauðsynjavara. En jafnvel þegar bannið við sendingum á matvælum og lyfjum til Íraks var aflétt, skorti Írak fé til að flytja inn nauðsynlegt magn matvæla og lyfja, vegna olíusölubanns Sameinuðu þjóðanna, sem sett var að undirlagi George H.W. Bush. Hann hlaut að vita að slíkar aðgerðir myndu fyrst og fremst bitna á hinum almenna borgara, einkum á börnum, sjúklingum og fátæklingum. Umræður á þingi Bandaríkjanna benda til þess að markmið viðskiptabannsins, sem George H.W. Bush setti á, hafi verið að þjarma að almennum borgurum í Írak og valda miklum skorti á nauðsynjavörum. Eftir 42 daga látlausar loftárásir á Írak í janúar og febrúar 1991, voru allar borgaralegar undirstöður samfélagsins í Írak í rúst. Samt beitti George H.W. Bush sér fyrir áframhaldandi efnahagslegri atlögu gegn lífi og heilsu almennings í Írak. Markmið hans var greinilega að valda almenningi í Írak verulegum þjáningum og beita þvingunum gegn stjórnvöldum Íraks með því að veikja og skaða efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður samfélagsins. Hann hlaut að vita að slíkt allsherjar viðskiptabann gegn stríðsþjáðri þjóð, háð innflutningi nauðsynjavara, myndi leiða til mikilla hörmunga og til dauða. George H.W. Bush heimilaði jafnframt leyniþjónustu Bandaríkjanna að beita leynilegum aðferðum til að grafa undan efnahagi Íraks, þ.m.t. með því að draga úr getu Írakstjórnar til að tryggja almenningi drykkjarvatn. Hvort markmið George H.W. Bush hafi aðeins verið að valda erfiðleikum, skorti, þjáningum og ringulreið, hlaut honum að verða ljóst að þúsundir manna og barna myndu deyja af völdum þessara aðgerða. Hann hefur því sýnt a.m.k. saknæmt skeytingarleysi (recklessness) um líf og heilsu almennra borgara í Írak. Þar sem um ein milljón manns hafi látist af völdum viðskiptabannsins í Írak, þar af um 500,000 börn undir fimm ára aldri, telst framferði George H.W. Bush glæpur gegn mannkyninu. [3]
§4 Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna er forseti landsins jafnframt yfirmaður allra herja og ber því almenna ábyrgð á stefnu hersins. Áður en Persaflóastríðið hófst sagði George H.W. Bush að hann ætlaðist ekki til að bandarískir hermenn myndu heyja stríðið með hendur bundnar fyrir aftan bak. Í þessu fólst dulin heimild til ólöglegra aðferða, þ.m.t. stríðsglæpa. Bandaríkin notuðu heimild Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir (sem áttu aðeins að frelsa Kúvæt) til að ráðast á öll héruð Íraks með látlausum loftárásum í 42 daga. Að því leyti sem árásirnar voru ekki nauðsynlegar til að hrekja her Íraks frá Kúvæt, teljast þær árásarstríð. Farnar voru 110.000 árásarferðir og 88.000 tonnum af sprengjum var varpað, sem jafngildir u.þ.b. sjöföldum eyðingarmætti Hiroshima-sprengja. Þorri sprengjanna var varpað úr meira en 30.000 feta hæð, en slíkt sýndi gróft skeytingarleysi gagnvart lífi og limum almennra borgara. Meðal skotmarka Bandaríkjahers voru raforkukerfið (raforkuver og dreifingarkerfið), vatnsveitukerfið, dælustöðvar og vatnsból, síma- og útvarpsstöðvr, turnar og sendar, matvælaskemmur, markaðir, verksmiðja sem framleiddi barnamjólk, bólusetningarstöðvar fyrir húsdýr, áveitukerfi, járnbrautarmannvirki, langferðabílastöðvar, brýr, þjóðvegir, lestir, langferðabílar og önnur almenningsfarartæki, ökutæki í eigu fyrirtækja og einstaklinga, olíulindir og dælur, leiðslur, hreinsunarstöðvar, olíugeymar, bensínstöðvar, tankbílar, steinolíugeymslur, holræsakerfi, klæðaverksmiðjur, sögulegar minjar, fornir sögustaðir, moskur, kirkjur, skólar, ofl. Þúsundir íraskra hermanna sem vildu gefast upp, fengu ekki tækifæri til þess og voru grafnir lifandi í sandi eða voru skotnir úr flugvélum og þyrlum, m.a. þegar íraski herinn dró sig tilbaka frá Kúvæt. Talið er að á Vegi Dauðans milli Kúvæt og Bösru hafi tugþúsundir hermanna látið lífið þegar bílalest þeirra á leið frá Kúvæt varð fyrir látlásum loftárásum Bandaríkjanna. Vitnisburður bandarískra hermanna sem tóku þátt í þessum árásum sannar að þetta voru ekkert annað en fjöldamorð. Um 125.000 íraskir hermenn létu lífið í árásunum en aðeins 148 bandarískir hermenn (opinberar tölur). Þetta bendir sterklega til þess að flestir íraskir hermenn hafi verið myrtir en ekki felldir í átökum.
Bein og fyrirsjáanleg afleiðing þessara árása var sú, að tugþúsundir óbreyttra borgara hafa látist úr uppþornun, blóðkreppusótt og sjúkdómum sem mengað drykkjarvatn veldur, fólk hefur veslast upp vegna skorts á læknishjálp og vegna hungurs, taugalosts, kulda og streitu. Engir aðrir en Bandaríkjamenn hefðu getað framkvæmt þessa eyðileggingu í Írak, og stríðinu var stjórnað svo til eingöngu af Bandaríkjastjórn, sem laut forystu George H.W. Bush.
Eftir eyðileggingu mannvirkja sem ekki þjónuðu neinum hernaðarlegum tilgangi urðu óbreyttir borgarar upp til hópa án húshitunar, eldsneytis, ísskápa, drykkjarvatns, síma, rafmagns, útvarps og sjónvarps, almenningsfarartækja og eldsneytis fyrir einkabíla. Eyðileggingin hafði einnig í för með sér matvælaskort, skólum var lokað, atvinnuleysi varð almennt, alvarlega dró úr atvinnustarfsemi og loka varð sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Auk þess var skotið á íbúðahverfi í öllum stærri borgum og flestum kaupstöðum og þorpum og þau lögð í rúst. Bandarísku flugvélarnar réðust jafnvel á afskekktar Bedúínabúðir. Auk þess að drepa fólk og særa eyðilögðu loftárásirnar 10 – 20.000 heimili, íbúðir og aðra íverustaði. Skotið var á verslunarmiðstöðvar með búðum, skrifstofum, hótelum, veitingahúsum og öðrum þjónustustöðvum og þúsundir slíkra staða voru lagðar í rúst. Tugir skóla, sjúkrahúsa, moska og kirkna voru skemmdir eða eyðilagðir. Skotið var á þúsundir ökutækja á vegum úti eða á bílastæðum og í bílskúrum og þau eyðilögð. Meðal þeirra voru almenningsvagnar, sendiferðabílar og fólksflutningabílar í einkaeign, vörubílar, dráttarvélar, tengivagnar, leigubílar og einkabílar. Markmið þessara sprengjuárása var að ógna öllum landsmönnum, drepa fólk, eyðileggja eignir, koma í veg fyrir fólksflutninga, lama siðferðisþrek þjóðarinnar og neyða stjórnina frá völdum.
Árásir á óbreytta borgara, á borgaraleg skotmörk og á varnarlausa hermenn fela í sér stríðsglæpi . Ekki er vitað til þess að George H.W. Bush hafi varað herforingja sína við því að ráðast á borgaraleg skotmörk í Írak né fordæmt þessar árásir eftirá. Enginn þeirra sem tók þátt í þessum stríðsglæpum var dæmdur. Helstu herforingjar þessa stríðs, mennirnir sem stjórnuðu árásunum, þ.m.t. stríðsglæpunum, voru meðhöndlaðir opinberlega sem þjóðhetjur. Allt ofangreint bendir til þess að George H.W. Bush hafi heimilað eða fyrirskipað framkvæmd þessara árása sem fólu í sér stríðsglæpi.
§5 Meðan árásirnar á Írak stóðu yfir i janúar og febrúar 1991, hvatti stjórn George H.W. Bush almenning í Írak til að risa upp gegn einræðisherranum, og gaf í skyn að þeir sem myndu risa upp fengju stuðning frá Bandaríkjunum. Þegar slík uppreisn hófst á síðari dögum Persaflóastríðsins, einkum á svæðum Kúrda og Shiita, sviku Bandaríkin loforð sín um stuðning og leyfðu úrvalssveitum Saddams Husseins að bæla uppreisnina. Þúsundir manna lágu í valnum í þessum grimmilegu árásum gegn Shiitum og Kúrdum. Hundruð þúsundir manna, einkum Kúrdar, urðu landflótta í þessum innanlandsátökum. Bandaríski herinn, sem var enn staddur á írösku landssvæði, gerði ekkert til að koma þessu fólki til hjálpar.
Af umfangi árásanna á Írak, borgaralegu eðli skotmarkanna og svik Bandaríkjastjórnar við uppreisnina gegn stjórn Saddams Husseins er augsýnilegt að framferði Bandaríkjahers hafi verið liður í áætlun Bandaríkjastjórnar til að leggja efnahagslegar og félagslegar undirstöður samfélagsins í Írak í rúst og skapa glundroða þar í landi. Eftir Persaflóastríðið, þegar Írak var í rúst og háttsettir embættismenn Sameinuðu þjóðanna líktu aðstæðum í Írak við ragnarök og þrábáðu um að viðskiptabanninu yrði aflétt, beitti George H.W. Bush sér fyrir því að koma í veg fyrir enduruppbyggingu landsins. Hann lagðist eindregið gegn því að Írakar fengju að flytja inn varahluti og annan búnað til að gera við raforkukerfið og vatnshreinsunarstöðvar og tryggði með framferði sínu að þúsundir barna dóu vegna vatnsmengunar. Með því að heimila eða skipa fyrir almennri og banvænni atlögu að borgaralegu samfélaginu í Írak og espa þjóðarbrot hvert gegn öðru, sem hafði fyrirsjáanlega í för með sér dauða, þjáningar og heilsumissi þúsunda óbreyttra borgara og barna gerðist George H.W. Bush sekur að glæp gegn mannkyninu.
Lagalegar forsendur kærunnar
Árásarstríð, stríðsglæpir, glæpir gegn mannkyninu og glæpir gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum og þjóðarleiðtogum eru taldir alþjóðlegir glæpir. Viðbrögð við alþjóðlegum glæpum varða öll ríki og allar þjóðir. Samkvæmt alþjóðlegum venjurétti (international customary law) getur þjóðríki ekki lengur beitt þeim rökum að það skorti lagaheimild til að lögsækja menn sem grunaðir eru um aðild að alþjóðlegum glæpum. Það er skylda hvers ríkis til að handtaka og rétta yfir (eða framselja öðru ríki) hvern þann sem fyrirfinnst innan lögsögu viðkomandi ríkis og grunaður er um hafa skipað fyrir eða framið pyntingar, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu, þjóðarmorð eða glæpi gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum. Einstaklingar njóta ekki friðhelgi þótt þeir hafi framið alþjóðlega glæpi meðan þeir gegndu opinberu embætti. Sú regla var fest í sessi við réttarhöldin í Nürnberg árið 1945 og ítrekuð síðan, m.a. í svonefnda Pinochetmáli. Reglan um afnám friðhelgi fyrrverandi opinberra ráðamanna sem grunaðir eru um hlutdeild í alþjóðlegum glæpum, hefur verið viðurkennd í ályktunum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, í skýrslum Alþjóða laganefndar og í skýringum Alþjóða rauðakrossins við ákvæði Genfarsáttmálanna frá 12. ágúst 1949. Hún hefur nú verið fest í Rómarsáttmála Alþjóðasakadómstólsins sem Ísland er aðili að.
Hlutdeild hins ákærða
Ef ofangreindar upplýsingar, eða jafnvel hluti þeirra, sannast réttar, verður ljóst að í forsetatíð sinni átti George H.W. hlutdeild í glæpum gegn friði, stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu og glæpum gegn alþjóðlega vernuðum einstaklingum.
Samkvæmt þeim reglum um hlutdeild sem hafa þróast í meðferð alþjóðlegra sakadómstóla, sbr. dómum ICTY, ICTR og Rómarsáttmála Alþjóða sakadómstólsins, nær hlutdeild í alþjóðaglæpum til einstaklings sem (a) fremur glæpinn, einn eða með öðrum; (b) skipar öðrum, hvetur aðra eða fær aðra með öðrum hætti að fremja glæpinn: eða (c) aðstoðar við eða auðveldar framkvæmd glæpsins.
Samkvæmt ákæru Alþjóðasakadómstólsins um málefni fyrrverandi Júgóslavíu (ICTY) á hendur Slobodan Milocevic, var hann sakaður um þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Saknæm hlutdeild hans var talin sú að hann gerði áætlanir um þessa glæpi, stuðlaði að þeim og tók þátt í framkvæmd þeirra. Ákæruvaldið taldi ekki að hugtakið framkvæmd í ákærunni ætti við að hinn ákærði hafi tekið persónulega þátt í manndrápum eða álíka aðgerðum, heldur að hann hafi átt hlutdeild í sameiginlegri saknæmri áætlun (joint criminal entreprise). Hann var sakaður um að vinna saman með öðrum einstaklingum eða með milligöngu þeirra að hinni saknæmu áætlun. Sérhver aðili að þessari áætlun var talinn hafa lagt sitt á vogaskálarnar til að tryggja saknæman framgang hennar. [5]
Sem þjóðarleiðtogi, hefur George H.W. Bush, með svipuðum hætti og Milocevic fyrir sitt leyti var sakaður um, átt hlutdeild í sameiginlegri saknæmri áætlun ásamt öðrum ráðamönnum eða með þeirra milligöngu í áætlun, skipulagi, stuðningi og framkvæmd brotanna sem áður var lýst.
Í máli Slobodan Milocevic varð dómstóllinn að komast að því hvort og að hve miklu leyti hinn ákærði hafi ráðið yfir þeim hersveitum sem frömdu glæpina. Í máli George H.W. Bush þarf ekki að kljást við þessa spurningu vegna þess að George H.W. Bush var, í krafti forsetavalds, lögmættur yfirmaður allra bandarískra herafla. Það var því í hans valdi að skipa fyrir aðgerðir eða stöðva þær.
Skuldbindingar og lagalegar heimildir íslenskra yfirvalda
Með aðild sinni að alþjóðasamningum bera íslensk stjórnvöld skyldu til að bregðast við þegar einstaklingur fyrirfinnst innan íslenskrar landhelgi og grunaður er um að hafa átt hlutdeild að stríðsglæpum og glæpum gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum.
(a) Samkvæmt ákvæðum Genfarsáttmálans frá 12. ágúst 1949 ber aðildarríkjum samninganna að lögsækja eða framselja til annars ríkis hvern þann, sem dvelur innan lögsögu þeirra, og er grunaður um hlutdeild í stríðsglæpum. Sú skylda er fest í 49. gr. fyrsta sáttmálans, 50. gr. annars sáttmálans, 129. gr. þriðja sáttmálans og 146. gr. fjórða sáttmálans. Nánari lýsing á því hvað teljist stríðsglæpur er að finna í 50. gr. fyrsta sáttmálans, 51.gr. annars sáttmálans, 130. gr. þriðja sáttmálans, 147. gr. fjórða sáttmálans og í 85. gr. fyrsta viðaukans frá 1977. Ísland er aðili að þessum samningum.
(b) Samkvæmt grein 2(a) í Alþjóða samningi um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar (Convention on the Prevention and Punishment of Crimes against Internationally Protected Persons, including Diplomatic Agents), telst rán á alþjóðlega vernduðum einstaklingi, þ.m.t. þjóðarleiðtoga, glæpur og brot á þessum samningi. Samkvæmt grein 3(2) þessa samnings ber hverju aðildarríki að lögsækja (eða framselja til annars ríkis) einstakling sem fyrirfinnst innan lögsögu þess og er grunaður m.a. um að hafa gerst sekur um áðurgreindan glæp. Ísland er aðili að þessum samningi.
Samkvæmt alþjóðlegum venjurétti er íslenskum stjórnvöldum í sjálfsvald sett að lögsækja einstaklinga sem fyrirfinnast innan eigin lögsögu og eru grunaðir um að hafa átt hlutdeild að glæpum gegn mannkyninu, án þess að verknaðurinn hafi verið framinn hérlendis eða gegn íslenskum ríkisborgurum og án tillits til þjóðernis og stöðu hins grunaða. Þennan venjurétt má rekja til Nürnbergsáttmálans en meginreglur hans hafa verið samþykktar einróma af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með ályktun nr. 95(1) frá 11. des. 1946.
Samkvæmt ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 3074 (XXVIII) frá 3 des. 1973 telja aðildarríkin nauðsynlegt að efla alþjóða samvinnu til að tryggja lögsókn og sakfellingu einstaklinga sem hafa gerst sekir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Samkvæmt fyrstu grein ályktunarinnar viðurkenndu aðildarríkin sem studdu þessa ályktun (þ.m.t. Ísland) að rannsaka skuli stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu án tillits til þess hvar þeir voru framdir og að þeir sem grunaðir eru um hlutdeild að þessum glæpum skuli verða handteknir, lögsóttir og ef svo ber undir, þeim refsað vegna þessara glæpa. Samkvæmt fjórðu grein ályktunarinnar heita aðildarríkin því að aðstoða hvert annað í því að finna, handtaka og lögsækja einstaklinga sem grunaðir eru um hlutdeild í slíkum glæpum, og ef svo ber undir, að refsa þeim. Þótt ályktunin sé ekki skuldbindandi samningur, ber hún með sér að aðildarríkin ætlast til þess að ákvæðum ályktunarinnar verði framfylgt í góðri trú.
Niðurstöður og kröfur
Við undirrituð teljum okkur hafa sýnt fram á að sterkur grunur leiki á um að George H.W. Bush hafi gerst sekur um alvarlega alþjóðaglæpi meðan hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna, þ.m.t. hlutdeild í glæpum gegn friði, stríðgsglæpum, glæpum gegn mannkyninu og glæpum gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum.
Við höfum sýnt fram á að íslenskum yfirvöldum er skylt að handtaka og lögsækja (eða framselja til annars ríkis) einstaklinga sem fyrirfinnast innan íslenskrar lögsögu, og grunaðir eru um hlutdeild í stríðsglæpum og glæpum gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum.
Við höfum einnig sýnt fram á að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi ætlast til þess, og Ísland hefur viðurkennt siðferðilega skyldu sína, að það lögsæki (eða framselji til annars ríkis) einstaklinga sem fyrirfinnast innan íslenskrar lögsögu og grunaðir eru um hlutdeild í glæpum gegn mannkyninu.
Við teljum ennfremur að lagalegar forsendur séu fyrir hendi á grundvelli alþjóðlegs venjuréttar til að lögsækja á Íslandi einstaklinga sem fyrirfinnast innan íslenskrar lögsögu og eru grunaðir um að hafa átt hlutdeild í glæpum gegn friði, einum æðsta glæpa gegn alþjóða samfélaginu. Ekkert í íslenskum lögum virðist koma í veg fyrir slíka lögsókn.
Kæra þessi er ekki lögð fram vegna smámuna eða vegna stjórnmálalegra skoðana. George H.W. Bush hefur augsýnilega tekið þátt í verkum sem hafa valdið dauða, heilsumissi, örkuml, fátækt, og þjáningum heilla þjóða. Þessir glæpir eru með þeim mestu sem framdir hafa verið í lok tuttugustu aldar. Það er bæði siðferðileg og lagaleg skylda manna að vekja athygli stjórnvalda sinna þegar þeim er ljóst að einstaklingar finnast innan lögsögu þeirra lands og hafa gerst sekir um hroðalega glæpi.
Samkvæmt auglýstri dagskrá, mun George H.W. Bush dvelja hér á landi 4. og 7. júlí n.k. m.a. í boði forseta Íslands. Við ætlumst til þess
- að íslensk yfirvöld ákæri George H.W. Bush vegna meintrar hlutdeildar í áðurgreindum alþjóðaglæpum og tryggi að hann fari ekki úr landi meðan rannsókn á hlutdeild hans í þessum glæpum stendur yfir. Við ætlumst jafnframt til þess að íslensk stjórnvöld skýri almenningi frá efnislegum og lagalegum niðurstöðum rannsókna sinna.
- að íslensk yfirvöld standi vörð um siðferðislegar og lagalegar skyldur Íslands að alþjóðalögum, samningum og sáttmálum.
- að ákæruvaldið sem fær þessa kæru til meðferðar starfi í samræmi við siðareglur evrópskra ríkissaksóknara frá maí 2005, þ.m.t. að þeir vinni störf sín af sanngirni, hlutleysi og samkvæmni, og með hæfilegum hraða; að þeir taki tillit til þess að þeir starfa fyrir hönd samfélagsins og í þágu almannahags; að þeir vinni störf sín á grundvelli mats síns á atvikum og lögum samkvæmt, án nokkurra óviðkomandi áhrifa; að þeir vinni störf sín af sanngirni og án ótta, vildar eða fordóma; að þeir leiði hjá sér einstaklingsbundna og hópbundna hagsmuni og þrýsting frá almenningi eða fjölmiðlum; að þeir virði jafnrétti allra fyrir lögum og sýna engum mismunun á grundvelli atriða á borð við kynþátt, trú, stjórnmálaskoðun, þjóðernislegan eða félagslegan uppruna, eignir, eða aðra stöðu; og að þeir leitist við að tryggja að allar nauðsynlegar og eðlilegar rannsókir og athuganir fari fram eða hafi farið fram áður en ákvarðanir eru teknar um að höfða mál eða höfða ekki mál, eða aðrar ákvarðanir sem kunna að hafa árhif á gang réttvísinnar.
Við yrðum þakklát að mega fylgjast með framvindu þessarar kæru, eftir því sem kostur er.
Virðingarfyllst, f.h. undirritaðra
Elías Davíðsson, kt. 230141-6579
Hörpugata 14
101 Reykjavík
Reykjavík, 3. júlí 2006
Eftirfarandi einstaklingar undirrituðu kæruna:
Rúnar Sveinjörnsson, kt. 121250-7569
Þórarinn Einarsson, kt. 230374-4069
Rúnar Þór Friðriksson, kt. 070191-2379
Sigurður Flosason, kt. 240128-2629
Vésteinn Valgarðsson, kt. 121180-3169
Ólafur Þórsson, kt. 230772-452
Haukur Hólmarsson, kt. 220786-2189
Arni Guðmundsson, kt. 150582-2969
Kristján Þorsteinsson, kt. 110269-299?
Athugasemdir
(1) Glæpur gegn friði er skilgreindur í gr. 6(a) í Nürnbergsáttmálanum frá 1945. Glæpur gegn friði telst það að gera áætlanir, undirbúa, hefja eða heyja árásarstríð eða stríð sem brýtur í bága við alþjóðlega samninga, sáttmála eða samkomulaga, eða aðild að sameiginlegri áætlun eða samsæri um að framkvæma eitthvað af því sem fyrr greinir. Árásarstríð er jafnframt brot á alþjóðlegum venjurétti, sbr. Sáttmála um að fyrirdæma stríð til að skera úr deilum milli ríkja/ Treaty providing for the Renunciation of War as an Instrument of National Policy (Kellogg-Briand sáttmálinn) staðfestur 14. maí 1929, öðlaðist gildi 10. júní 1929, SÍ 34
(2) Glæpur gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingi er skilgreindur í samningi um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar. Convention on the Prevention and Punishment of Crimes against Internationally Protected Persons, including Diplomatic Agents, fullgiltur 2. ágúst 1977, öðlaðist gildi 1. september 1977, C 15/1977.
(3) Glæpur gegn mannkyninu er bæði glæpur að alþjóðlegum venjurétti og einn af þeim glæpum sem Alþjóða sakadómstóllinn hefur efnislega lögsögu yfir. Samkvæmt 7. gr. Rómarsáttmálans alþjóða sakadómstólsins er glæpur gegn mannkyninu skilgreindur sem víðtæk eða kerfisbundin árás á almenna borgara (civilian population) sem felur í sér annaðhvort manndráp, útrýmingarherferð eða aðrar ómannúðlegar aðgerðir sem valda miklum þjáningum eða alvarlegu heilsutjóni. Hugtökin manndráp og útrýming sem liðir í glæpum gegn mannkyninu ná til óbeinna aðgerða sem valda dauða, þ.m.t. ráðstafanir um að neita almennum borgurum um aðföng til lífsbjargar (sjá m.a. dóma sem fallið hafa í réttarhöldum ICTY, alþjóða sakadómstólsins í málefnum fyrrv. Júgóslavíu).
(4) Genfarsamningur frá 12. ágúst 1949 um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna á vígvelli/Geneva Convention for the Amelioration of the Condition of the Wounded and Sick in Armed Forces in the Field, aðild og fullgiltur 10. ágúst 1965, öðlaðist gildi 10. febrúar 1966, C 16/1965; Genfarsamningur frá 12. ágúst 1949 um vernd almennra borgara á stríðstímum/Geneva Convention relative to the Protection of Civilian Persons in Time of War, aðild og fullgiltur 10. ágúst 1965, öðlaðist gildi 10. febrúar 1966, C 16/1965; Viðbótarbókun I (1977) við Genfarsamningana frá 12. ágúst 1949 um vernd stríðshrjáðra aðila að alþjóðlegum vopnaviðskiptum/Additional Protocol I to the Geneva Conventions of 12 August 1949, and relating to the Protection of Victims of International Armed Conflicts, fullgilt 10. apríl 1987, öðlaðist gildi 10. október 1987, C 3/1987
Case No. IT-02-54-T, Amended Indictment, http://www.un.org/icty/indictment/english/mil-ai040421-e.htm