Kæra v. ófullnægjandi svars Utanríkisráðuneytisins (11. sept.)
Elías Davíðsson
Hörpugata 14
101 Reykjavík
S. 552-6444
Reykjavík, 12. mars 2007
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál
Stjórnarráðinu
Lækjargötu
150 Reykjavík.
Hér með kærir undirritaður þá ákvörðun Utanríkisráðuneytisins að synja honum upplýsingar sem að hans dómi ættu að vera öllum landsmönnum tiltækar.
Málavextir er eftirfarandi:
Þann 25. desember 2005 ritaði undirritaður Utanríkisráðuneytinu bréf (fskj. 1) þar sem undirritaður lagði fram nokkrar efnislegar spurningar. Spurningarnar voru og eru liður í rannsóknarstarfi undirritaðs um atburðina 11. september 2001. Undirritaður hefur á undanförnum árum unnið að fræðilegum rannsóknum á sviði almenns þjóðaréttar, mannréttinda, mannúðarréttar og alþjóða sakaréttar. Greinar hans hafa birst í erlendum fræðiritum á þessum sviðum[1].
Þar sem svar hafði ekki borist frá Utanríkisráðuneytinu, bað undirritaður Umboðsmann Alþingis að hlutast til. Umboðsmaðurinn skrifaði Utanríkisráðuneytinu fjórum sinnum til að kanna hvað liði svari til undirritaðs (fskj. 2). Svar Utanríkisráðuneytisins barst loks þann 6. mars 2007, þ.e. eftir 15 mánaða bið, og er dagsett 2. mars s.l. (fskj. 3).
Undirritaður telur að svar ráðuneytisins sé ófullnægjandi og uppfylli ekki lagalegar skyldur samkvæmt upplýsingalögunum. Ráðuneytið rökstyður synjun sína á svari með vísan til 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi málsgrein vísar aftur til 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga sem varða undanþágur og takmörkun á upplýsingarétti.
Undirritaður hefur ekki beðið um aðgang að fundargerðum, bréfaskiptum eða vinnuskjölum stjórnvalds. Því verður ekki séð að 16 gr. eigi hér við. Hins vegar er ráðuneytinu heimilt skv. 17. gr. stjórnsýslulaga þegar sérstaklega stendur á, …að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.
Þeir almannahagsmunir sem ráðuneytið vísar til og hyggst vernda með synjun sinni eru öryggis- og varnarsamvinna við Bandaríkin.
En fyrstu þrjár spurningar undirritaðs vörðuðu ekki upplýsingar sem íslensk stjórnvöld fengu frá Bandaríkjunum heldur einungis störf ráðuneytisins. Það er réttur almennra borgara á Íslandi að vita hvað starfsmenn ríkisins hafast að. Rökstuðningur ráðuneytisins fyrir synjun á svari á því ekki við um þessar þrjár spurningar.
Hvað varðar fjórðu spurninguna, þá er hún í tveimur liðum. Annars vegar er spurt hvort ráðuneytið hafi fengið óyggjandi sannanir um að hinir 19 meintu flugræningjar sem bandaríska alríkislögreglan hefur nafngreint hafi farið um borð í flugvélarnar 11. september 2001. Hins vegar er spurt hvers eðlis þessar sannanir hafi verið. Sem kunnugt er hafa bandarísk yfirvöld staðhæft að 19 íslamskir hryðjuverkamenn hafi framið voðaverkin 11. september 2001 með því að ræna flugvélum og steypa þeim á Tvíburaturnana í New York og Varnarmálaráðuneytið í Washington.
Ráðuneytið telur að slík upplýsingagjöf væri til þess fallin að grafa undan trúnaði og spilla samstarfi [Bandaríkjanna og Íslands] á þessu sviði [þ.e. á öryggis- og varnarsviði]. Hér er ráðuneytið væntanlega að nýta sér heimild Upplýsingalaga sbr. 17. gr lið (2) sem varðar samskipti Íslands við önnur ríki. Hinir mikilvægu almannahagsmunir sem réttlæta takmörkun á upplýsingum eru að sögn ráðuneytisins samstarf ríkjanna á þessu sviði. Ráðuneytið skýrir þó ekki með hvaða hætti játandi eða neitandi svar við fyrra lið fjórðu spurningarinnar gæti grafið undan samstarfi ríkjanna. Íslensk stjórnvöld hljóta að geta greint frá því hvort þau hafi fengið í hendur ofangreindar sannanir eða ei, án þess að skaða hagsmuni eins eða neins.
Síðari liður fjórðu spurningarinnar um eðli þessara sannanna – á við ef fyrra liðnum er svarað játandi, þ.e. ef ráðuneytið hefur fengið umræddar sannanir.
Ráðuneytið telur að með því að veita undirrituðum vitneskju um eðli þeirra sannanna myndi slík upplýsingagjöf grafa undan samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á hernaðar- og öryggissviði. Undirritaður viðurkennir fúslega að slík upplýsingagjöf gæti grafið undan trúnaði milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna. Ráðuneytinu er skylt við störf sín að hafa hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Það er ekki sýnt að slíkt trúnaðarbrot af völdum slíkrar upplýsingagjafar myndi skaða hagsmuni Íslendinga. Ráðuneytið hefur ekki sýnt fram á að hagsmunum Íslendinga sé þjónað með því að fela sannanir um hlutdeild múslima í fjöldamorðunum 11. september 2001. Undirritaður er fullviss um að íslenska þjóðin telji hagsmunum sínum ekki þjónað með slíku pukri í þágu útlagaríkis, þ.e. ríkis sem ræðst að tilefnislausu á önnur lönd, hernemur þau og drepur þúsundir saklausra borgara, auk þess að það lýgur að þjóðum heims til að réttlæta hernaðarárásir sínar á aðrar þjóðir, stundar pyntingar, starfrækir leynileg fangelsi um víða veröld og grefur kerfisbundið undan þjóðarétti og starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
Hvorki íslensk stjórnvöld né Bandaríkjastjórn hafa sýnt fram á, að ríkir almannahagsmunir neyði þau til að leyna eftirfarandi gögnum um atburðina 11. september 2001 fyrir almenningi:
– Farþegalistunum, þar sem unnt væri að greina nöfn hinna meintu flugræningja;
– Vitnisburðum starfsmanna sem hafa séð hina meintu flugræningja ganga um borð;
– Öðrum upplýsingum sem sanna hverjir hafi farið um borð í flugvélarnar.
Hafi íslensk stjórnvöld ekki fengið óyggjandi sannanir um hlutdeild múslima og aðila í Afganistan í voðaverkunum 11. september 2001, ber að tilkynna það almenningi.
Markmið löggjafans með undanþágum frá upplýsingaskyldu stjórnvalda var að tryggja hagsmuni almennings en ekki auðvelda yfirhylmingu á lögbrotum íslenskra eða erlendra aðila. Það er sjálfsagður réttur almennra borgara á Íslandi og um allan heim að vita hvað gerðist í raun og veru þann 11. september 2001, ekki síst í ljósi þess að enginn hefur verið ákærður eða sakfelldur enn vegna þátttöku í undirbúningi eða framkvæmd voðaverkanna. Það er skylda Íslands sem og annarra ríkja, sbr. ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 12. september 2001, að vinna að upplýsingu voðaverkanna 11. september 2001. Meira en fimm ár eru liðin frá þessum atburðum og sannanirnar um hlutdeild múslima í voðaverkunum hafa ekki verið birtar. Af þeim sökum er ástæða til að ætla að þeir sem hafa tekið þátt í undirbúningi voðaverkanna 11. september 2001 gangi enn lausir og stofni heimsfriðnum í hættu. Það er því brýnt hagsmunamál almennings að ráðuneytið birti allt sem það hefur undir höndum um atburðina 11. september 2001, m.a. til þess að almennir borgarar geti stuðlað að upplýsingu þessara fjöldamorða.
Árásarstríð er bannað að þjóðarétti. Bandaríkin staðhæfðu að hernaðaraðgerðir gegn Afganistan væru byggðar á sjálfsvarnarrétti (51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna). Þau reyndu áður án árangurs að fá Öryggisráð SÞ til að réttlæta hernmaðaraðgerðir sínar gegn Afganistan. En Bandaríkin hafa ekki lagt fram sannanir um að árás frá Afganistan á Bandaríkin stæði yfir eða að Bandaríkin byggjust á hverri stundu við árás frá Afganistan á Bandaríkin, sem hefðu réttlætt sjálfsvarnaraðgerðir þeirra gegn Afganistan. Talsmaður Alríkislögreglunnar, Rex Tomb, staðfesti þann 5. júní 2006 við Ed Haas frá Muckraker Report, að FBI að byggi ekki yfir neinum haldbærum sönnunum um hlutdeild Osama bin Laden að fjöldamorðunum 11. september 2001.
Sú viðleitni ráðuneytisins að leyna forsendurnar fyrir árásarstríði gegn Afganistan, er í senn tilraun til að fela ólögmæti viðkomandi stríðs, fela ástæður þess að íslensk stjórnvöld studdu ákvörðun NATO-ráðsins frá 2. október 2001, og eru auk þess gróf tilraun til að hylma yfir mistökum stjórnvalda. Slíkt framferði er ekki í anda þeirra sjónarmiða sem lágu að baki lögmætum undanþágum frá upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Að lokum vill undirritaður benda á, að stjórnvaldi er ekki skylt heldur aðeins heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum. Ráðuneytinu var því heimilt samkvæmt íslenskum lögum að veita undirrituðum allar umbeðnar upplýsingar.
Af ofangreindum ástæðum óskar undirritaður að Utanríkisráðuneytið:
(a) svari öllum spurningum sem koma fram í bréfi undirritaðs frá 11. desember 2005;
(b) veiti skýringu á hinum langa drætti sem varð á svari ráðuneytisins til hans;
(c) birti þjóðinni allar upplýsingar sem það hefur undir höndum um atburðina 11. september 2001, án tillits til þess hverjir hafa veitt þessar upplýsingar.
Undirritaður vonar að Úrskurðanefnd um upplýsingamál beri gæfa til þess að tryggja lýðræðislegan og lagalegan rétt hans og almennra borgara í þessu máli.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson
[1] Sjá Writings by Elias Davidsson, http://www.aldeilis.net/english/index.php?option=com_content&task=view&id=542&Itemid=206