Kyrrahafið
Kyrrahafið
Ef til vill þykir einhverjum sem úrræði kerfisins við leyndarbréfaerindunum, þögnin og aðgerðaleysið, hafi verið með þeim ljúfustu sem völ var á eins og á stóð. En þessi langvarandi þögn og aðgerðaleysi skákaði skýrsluhöfundi í undarlega stöðu. Líkri stöðu skipherra á herskipi flotaveldis sem taldi sig hafa fengið glögg fyrirmæli flotastjórnarinnar um að stugga við og knýja aðkomukafbáta innan landhelgi Kyrrahafsins upp á yfirborðið. Ekki skorti upplýsingar um stöðu og búnað kafbátanna eða djúpsprengjur. Vandinn við að neyða kafbátaforingjana til að gefast upp virtist ekki vera mikill. Skipherranum kom ekki annað til hugar en það mundu þeir gera. Langvarandi djúpköfun í sprengjuregni gat ekki verið verjandi, þegar hinn kosturinn var staðfesting á viðurkenndum gildum.
Skipherrann miðaði fyrst út stærsta og öflugasta kafbátinn í þeirri von að það mundi fljótt skila árangri. Síðan var sprengja send. Næst var að fylgjast með og bíða. Þrátt fyrir að sprengjan virtist hafa verið í lagi og farið á réttan stað, gerðist ekkert. Ekkert brak eða brestir, því síður uppgjöf. Ekki var hjá því komist að sprengja aftur og sækja að hinum kafbátunum. Verið gat að í einhverjum þeirra væri foringi sem þyrði að upplýsa æðstu valdamenn sína og fjölmiðla um hvað væri á seiði og koma þannig þeim skilaboðum til þjóðar sinnar að nú yrði að breyta um stefnu. Brot á grundvallarlögmálum og lögum þjóða gætu ekki gengið fram eins og þau hefðu gert. Síðan var sprengt og beðið og aftur sprengt og beðið og enn aftur og aftur. Að lokum voru allar sprengjubirgðir skipsins búnar.
Hvert sem litið var, var í fyrstu ekkert að sjá nema sléttar glampandi víðáttur Kyrrahafsins. Þegar frá leið fóru kafbátarnir að tínast upp á yfirborðið einn af öðrum eins og þeir væru í heimahelgi sinni. En liðsmönnum þeirra virtist ekki ófriður í hug. Varð ekki vart að kafbátamenn myndu eftir djúpsprengingum fyrri daga. Þeir virtust ekki sjá skip sprengjuvarparans fremur en það væri af öðrum heimi.
Skipherrann, sem hafði ráðist í sprengjuaðgerðirnar í góðri trú um mikilvægi þeirra til að styðja að æðstu gildum þjóðar sinnar, stóð nú einnig frammi fyrir því að djúpsprengingarnar voru metnar einkastríðsaðgerðir hans sem þjóð hans og leiðtogar gerðu ekkert með og vildu ekkert af vita. Reyndar vissu fáir samlanda skipherrans um sprengjubröltið en þeir sem voru upplýstir orðuðu ekki grundvallaraðferðir eða markmið, sem gátu þó skipt þá sjálfa miklu. Ágreiningur við eigin valdhafa var vissulega háskalegur.
Svo illa var komið fyrir skipherranum að hann hafði ekki aðeins eytt öllum sprengjunum, heldur var eldsneyti skipsins nánast þrotið. Hann varð því að bíða eftir því að einhver sæi aumur á skipshöfninni og kæmi henni í land, enda yrði herskipið skilið eftir. Það mundi væntanlega lóna sem draugaskip, enginn vissi hve lengi, til viðvörunar skipherrum sem ekki áttuðu sig á því að ný gildi og ný lögmál væru komin til sögu.
En skipherrann var ekki alveg Ònormal" fremur en flestir aðrir. Kæmi til að herréttur fjallaði um mislukkaða herför hans vildi hann að minnsta kosti geta sagt, að hann hefði staðið vörð um gömul gildi sem voru innrætt honum ungum, meðan kostur var. Talsverðar birgðir neyðarblysa voru í herskipinu. Skipherrann notaði þau til að varpa Ijósi á kafbátana í þeirri von að aðrir, sem héldu tryggð við gömlu gildin, héldu baráttunni áfram.
Þessi bók er neyðarblysasýning höfundar og síðasta úrræði í leyndarbréfamálinu um sinn. Kyrrahafið er Íslendingum fjarlægt, jafnvel svo fjarlægt að þeim finnst það ekki þeirra mál, sem þar gerist. Sindur flugelda er meinlaust og skammlíft þótt endurminning um það geti lengi fylgt mönnum. Sjálfsagt eru einhverjir sem telja að leyndarbréfamálið og algleymi, ef algleymi er til, fari best saman. En upplýsing neyðarblysanna verður Íslendingum tæpast upplyftingin ein. Upplýsingin er líkleg til að verða tæki í mótun þjóðfélagsins og vopn þeirra sem sækja eða verja rétt eins og hún hefur alltaf verið.