Mat á afstöðu alþingismanna
Mat á afstöðu alþingismanna
Elías Davíðsson / Febrúar 1999
Afstaða alþingismanna til viðskiptabannsins flokkast í grófum dráttum þannig:
a. Flestir alþingismenn styðja barnadrápin með þögninni þó fæstir þeirra myndu viðurkenna að líkja megi viðskiptabanninu við barnadráp. Hér er um sjálfsblekkingu að ræða þar sem aðgerðir sem fyrirsjáanlega leiða til dauða 150 barna á degi eru auðvitað saknæmar og teljast manndráp samkvæmt íslenskum lögum. Rökstuðningur þeirra fáu sem hafa lýst opinberlega stuðningi við viðskiptabannið (t.d. Geir Haarde og utanríkisráðherra) er afar klisjukenndur og byggist á tveim meginstoðum: Annars vegar að Ísland verði en framfylgja ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (án tillits til afleiðinganna eða lögmætis); hins vegar að Saddam Hussein beri ábyrgð á dauða barnanna í Írak.
Þessi rök standasta ekki eins og sýnt er ítarlega annars staðar. Nægjum hér að benda á að ekkert ríki er skylt að framfylgja ákvæðum alþjóðasamnings ef sýnt er að slíkar aðgerðir brjóta í bága við grundvallarreglur þjóðaréttar (jus cogens); hvað ábyrgð Saddam Husseins viðkemur, þá takmarkast hún við athæfi sem hann ber ábyrgð á, s.s. að skipa innrás í Kúvæt eða að beita eiturefnum gegn óbreyttum borgurum í Kúrdistan. Hann ber hins vegar ekki ábyrgð á gerðum stjórnmálamanna annarra ríkja, s.s. að setja banvænt viðskiptabann gegn þegnum sínum, þótt slík aðgerð sé réttlætt sem "gagnaðgerð" gegn stjórnarstefnu hans.
b. Nokkrir þingmenn hafa vissar efasemdir um réttmæti viðskiptabannsins. Þessir efasemdarmenn telja viðskiptabannið sé "ekki lengur" við hæfi, sé "gagnslaust" og að þjáningarnar sem það veldur eru ekki "lengur" réttlætanlegar (miðað við árangur). Þessi afstaða líkist að mörgu leyti afstöðu þeirra sem mæla með hinu banvæna viðskiptabanni, nema þessi hópur manna telur að búið sé að valda dauða nógu margra barna og valda nóg miklar þjáningar og hafi það samt ekki skilað tilætluðum árangri (hver sem hann annars er). Með þessari afstöðu er einnig gefið í skyn að ekkert athugavert hafi verið við afleiðingar viðskiptabannsins fram að þessu.
c. Einstakir þingmenn fordæma viðskiptabannið af mannúðarsjónarmiðum en reyna eftir megni að komast hjá því að fjalla um þær hliðar máls sem kynnu að vekja spurningar um réttarábyrgð. Dæmigert fyrir umfjöllun þessara þingmanna er að þeir skírskota ekki til umfangs þess manntjóns sem viðskiptabannið hefur valdið né til þeirra vangaveltna hvort aðgerðir sem valda dauða 750.000 barna séu ekki saknæm brot á ákvæðum þjóðaréttar.
d. Tveir alþingismenn, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, skynja hugsanlegt saknæmi viðskiptabannsins með skírskotun til alþjóðlegra mannúðarsamninga og nefna afdráttarlaust ábyrgð Íslands vegna þátttöku í þessum aðgerðum. Af ástæðum sem erfitt er að meta, draga þeir ekki ályktun af ummælum sínum um umfang harmleiksins og ábyrgð Íslands í þeim efnum.
Þeir sem eiga í hlut, aðallega alþingismenn og ráðherrar, eru beðnir velvirðingar á hugsanlegum efnislegum mistökum sem ég kynni að hafa gert við gerð þessarar úttektar. Mun ég að sjálfsögðu leiðrétta slík mistök að fengnum ábendingum þar að lútandi. Mat mitt á afstöðu einstakra þingmanna byggist á þeim upplýsingum sem mér hafa borist fyrir 20. febr. 1999, og tek ég að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þessu mati. Lesendur, og að sjálfsögðu alþingismenn, geta sent mér athugasemdir, spurningar eða/og leiðréttingar á netfang edavid hjá simnet.is, eða beðið um nánari upplýsingar og frumheimildir.
Það er von mín að birting þessa lista hvetji fleiri Íslendinga til að átta sig á siðleysi og saknæmi þessa viðskiptabanns og krefjast þess að Ísland hætti tafarlaust þátttöku í þessu saknæma athæfi gegn saklausu fólki. En varpa þessar upplýsingar ljósi á þá "þjóðlega samstöðu" sem er Íslendingum eiginleg, þótt stjórnvöld sín taki þátt í glæpum gegn annarri þjóð.
Elías Davíðsson