Meint aðild D.O. og H.Á að stríðsglæpum 1999
Meint aðild Davíðs Oddssonar og
Halldórs Ásgrímssonar að stríðsglæpum árið 1999
Eftir Elías Davíðsson, 10. mars 2003
(leiðr. 19. apríl 2004)
Snemma þann 23 April 1999 var ráðist úr flugvélum NATÓ-herja á sjónvarpsstöðina Radio Televizija Srbija (RTS) í Belgrad með þeim afleiðingum að 16 manns týndu lífið. Árásin var með því markmiði að eyðileggja þessa stöð og þagga í fréttaflutning hennar sem var NATÓ ekki að skapi.
Sama dag og árásin var gerð, þ.e. 23. apríl 1999, var haldinn leiðtogafundur NATÓ-ríkja í Washington, D.C. en fundinn sátu Davíð Oddsson, forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra. Á þeim fundi var sú ákvörðun tekin samhljóða eins og venjan er á leiðtogafundum NATÓ – að heimila herjum NATÓ að hefja árásir á fjölmiðla í fyrrverandi Júgóslavíu. Ákvörðunin var í senn síðbúin blessun á árásinni og heimild til frekari árása af sama tagi.
Ekkert benti til þess að sjónvarpsstöðin í Belgrad var hernaðarlegt mannvirki eða að þar hafi leynst hermenn. Eins og áður er getið var megintilgangur árásarinnar að þagga í fjölmiðlun. Fjölmiðlar og starfsmenn þeirra verða ekki að lögmætum skotmörkum fyrir það eitt að miðla fréttum eða veita hernum siðferðilegan styrk, burt séð frá því hvort mönnum líkar eða mislíkar þessi fjölmiðlun. Blaðamenn á Íslandi, t.d., mega að ósekju stunda stríðsáróður og gera það óspart. Íslensk stjórnvöld gerðu sérstakan fyrirvara við 20. grein alþjóðasamnings um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi til þess eins og heimila íslenskum fjölmiðlum að stunda stríðsáróður. Íslenskir fjölmiðar og starfsmenn þeirra eru ekki, fyrir þær sakir, lögmæt skotmörk þeirra ríkja sem Ísland er í stríði við. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum eru árásir á borgaraleg skotmörk, fólk og eignir, ekki leyfileg og teljast í vissum tilfellum til stríðsglæpa. Samkvæmt 85. gr. Fyrsta viðaukans við Genfarsáttmálana (1977) sem Ísland er aðili að, teljast vísvitandi árásir á óbreytta borgara og á borgaraleg mannvirki til stríðsglæpa.
Amnesty International gaf út lagalega útttekt um árásina á sjónvarpsstöðinni RTS í Belgrad sem var gerð 23. apríl 1999 og komst að þeirri niðurstöðu að í henni felist stríðsglæpur. En jafnvel brot á alþjóðlegum mannúðarlögum sem ekki teljast stríðsglæpir baka árásarríkinu eða árásarríkjunum skaðabótaábyrgð og teljast dómhæf.
Samkvæmt 146. grein IV. Genfarsáttmálans frá 12. ágúst 1949 sem Ísland hefur undirritað og Alþingi hefur samþykkt, ber íslenskum yfirvöldum að lögsækja, án til þjóðernis og stöðu, hvern þann innan íslenskrar lögsögu sem ku hafa framið stríðsglæpi eða skipað fyrir framkvæmd stríðsglæpa. Samkvæmt íslenskum lögum ber einnig að lögsækja einstaklinga sem hvetja til refsiverðrar hátterni, heimila hana eða hylma yfir henni. Sá er sú sem heimilar öðrum að fremja stríðsglæpi eru því sekir um lögbrot samkvæmt íslenskum lögum og réttarvenju. Þeir stjórnmálaleiðtogar sem heimila heryfirvöldum að fremja stríðsglæpi, hvar sem er í heimi, bera refsiábyrgð jafnvel í þeim tilfellum sem ekki verður af framkvæmd þessara glæpa svo fremur sem þeir draga ekki heimildina tilbaka. Ennfremur baka leiðtogar sér refsiábyrgð ef þeir hylma yfir stríðsglæpum undirmanna sinna, m.a. með því að lögsækja þá ekki.
Þótt ættingjar fórnarlamba NATÓ-ríkja hafa hingað til ekki fengið réttarfarslega úrlausn mála sinna og þótt enginn af þeim sem bera ábyrgð á dauða 16 starfsmanna RTS hafi verið leiddur fyrir rétt, stendur sú staðreynd óhögguð, að áðurgreindir leiðtogar NATÓ bera samábyrgð á þessum stríðsglæp. Þeirri ásökun verður ekki eytt með þögninni. Saknæmi einstaklinga sem eiga aðild að stríðsglæpum fyrnist ekki með tímanum.
Hins vegar vakna eftirfarandi spurningar um störf Alþingismanna sem hafa hingað til neitað að kynna sér málið og tryggja að Ísland framfylgi lagalegum skyldum sínum að þjóðarétti í þessu sakamáli:
Samrýmist það réttar- og siðferðisvitund Íslendinga og Alþingismanna að hlífa íslenskum stjórnmálamönnum sem taka þátt í alþjóðlegum glæpum, þ.m.t. manndrápum, við lögsókn og jafnvel við opinberri rannsókn ?
Samrýmist það siðferðisvitund þjóðarinnar og Alþingimanna, að einstaklingar sem liggja undir grun um aðild að stríðsglæpum og manndrápum, gegni trúnaðarstörf í þágu almennings, þ.m.t. þingmennsku ?
Samrýmist það skyldum Íslands að alþjóðlegum mannúðarsamningum að aðhafast ekki þegar grunur leikur á um dvöl stríðsglæpamanna innan íslenskrar lögsögu?
Samrýmist það siðferðisvitund Íslendinga að skeyta engu um rétt ættingja myrtra manna til skaðabóta ?
Þessum spurningum er beint til almennings en ekki síst til alþingismanna sem hafa hingað til hlíft ráðherrum við rannsókn málsins.
* Ofangreind samantekt byggist á stórum fjölda heimilda sem eru í vörslu höfundar. Þeir sem áhuga hafa á tilteknum heimildum hafi samband við edavid@simnet.is