Áminning til Halldórs Ásgrímssonar, 26.11.1997
Áminning til Halldórs Ásgrímssonar
Bréf Elíasar Davíðssonar, 26. nóvember 1997
Halldór Ásgrímsson,
Utanríkisráðherra,
Reykjavík
Í framhaldi af kröfu um Landsdóm vegna meintrar þátttöku þinnar í alþjóðlegum hryðjuverkum og stríðsglæpum, og í ljósi þess að þú hefur kosið að bregðast með engum hætti við þessari kröfu, tel ég rétt að senda þér þetta bréf, en samrit þess er sent til samráðherra þinna í ríkisstjórn Íslands.
Ég hef hitt þig tvívegis á liðnum tveim og hálfum árum til að ræða þátttöku Íslands í viðskiptabanninu gegn írösku þjóðinni. Í bæði skiptin reyndi ég eftir bestu getu að greina þér frá alvöru málsins, ábyrgð Íslands og að veita þér heiðarlegt tækifæri til að takast á við þetta mál með embættisverkum.
Í síðara skiptið, í maí 1996, greindi ég þér frá niðurstöðu minni, að viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni hefði verið og sé, eins og því er háttað, refsivert athæfi samkvæmt þjóðarétti, nánar tiltekið alþjóðleg hryðjuverk og stríðsglæpir.
Á þessum fundi sagði ég þér umbúðalaust að ég kynni að verða knúinn til að krefjast réttaraðgerða gegn þér vegna þátttöku í refsiverðu athæfi, enda yrði ég ósamkvæmur sjálfum mér og reyndar einnig brotlegur við lög, ef ég gerði viðeigandi yfirvaldi ekki viðvart um athæfi sem ég teldi gróflega refsivert. Af viðbrögðum þínum að dæma sýndist mér að þú hefðir alls ekki skilið tilefni heimsóknar minnar til þín – sem var vinsamleg tilraun til að afstýra réttarfarslegum aðgerðum af minni hálfu -né gert þér grein fyrir því að mér væri alvara. Ég held þú hafir vanmetið ásetning minn.
Nú er meira en eitt ár liðið. Ég hef staðið við fyrirheit mín og viku eftir fund okkar í fyrra sakað þig opinberlega um þátttöku í alþjóðaglæpum. Ég hef einnig krafist þess að Alþingi kalli saman Landsdóm, í samræmi við gildandi lög, til að fjalla um meinta sekt þína. Enn sem komið er hefur þér verið bjargað fyrir horn: Alþingi og fjölmiðlar hafa veitt þér grið með því að stinga ásökunum mínum undir stól. En þetta er aðeins spurning um tíma. Æ fleiri landsmenn hafa tekið eftir þögn þinni og þeim fjölgar einnig sem krefjast lögsóknar á hendur þér og fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalssyni, fyrir sömu sakir.
Þar sem þú hefur ekki hlustað nógu vel á það sem ég kom til að segja þér í vinsemd, verður þú að sætta þig við afleiðingarnar. Það er óafturkvæm krafa mín að dómstólar eða Landsdómur fjalli um meinta aðild þína að útrýmingu 600.000 íraskra barna. Sú krafa mun ekki fyrnast meðan dómsúrkurður liggur ekki fyrir. Þú getur því búist við að vera áfram vændur um þátttöku í glæpsamlegu athæfi svo og um að pólítiskt hugleysi sem felst í því að þú þorir ekki verja gerðir þínar fyrir dómi. Ég vona samt að þú þiggir heiðarlegt tækifæri til að útkljá þetta mál fyrir dómi. Mér er fullljóst að hver svo sem þátttaka þín er í þessum harmleik, er hún ekki jafn afdrifarík og þátttaka stjórnvalda í Bandaríkjunum og Bretlandi. En það er mikilvægt að það komi skýrt fram með dómsúrskurði á Íslandi, komandi kynslóðum sem viti til varnaðar, að þátttaka í alþjóðaglæpum sé undir öllum kringumstæðum óheimil og refsiverð.
Ég vona að þú skynjir vinsemdina sem felst í þessum orðum. Það vakir ekki annað fyrir mér en að tryggja að þetta mál, er varðar meinta þátttöku þína í stríðsglæpum og hryðjuverkum, njóti vitsmunalegrar og efnislegrar meðferðar á þeim vettvangi þar sem slík mál eru yfirleitt afgreidd.
Ég sendi samrit af þessu bréfi til samráðherra þinna til þess að þeir fái tækifæri til að styðja þig í þessu máli með því að hvetja þig til að segja af þér, svo þú fáir tækifæri til að hreinsa orðstír þinn fyrir dómi og getir snúið þér á ný að stjórnmálum. Það er von mín, þín vegna, að þú sláir ekki aftur á útrétta hönd.
Með vinsemd,
Elías Davíðsson
Samrit: Ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Odddsonar