Viðbótarbréf til Ríkissaksóknara vegna brota HÁ og DO
Hörpugata 14
101 ReykjavíkS. 552-6444
Reykjavík, 31. október 2005
Ríkissaksóknari,
Hverfisgata 6
101 R
Í framhaldi af ákæru undirritaðs vegna meintrar aðildar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að refsiverðum verknaði, sem embætti yðar hefur fengið til meðferðar, óskar undirritaður að ákæran hans verði tekin á ný til athugunar og meðferðar, m.a. vegna nýrrar vitneskju sem undirrituðum var ekki kunnugt um fyrr en nú og er tilefni nýrra ásakana á hendur ofangreindum einstaklingum.
Í fyrra erindi undirritaðs er vikið að aðgerðaleysi ofangreindra einstaklinga eftir árásina á sjónvarpsstöðina RTS í Belgrad: Þeir hafi ekki mótmælt þessari árás eftir á né krafist þess að þeir sem hafa staðið að þessari fólskulegu árás verði sóttir til laga vegna stríðsglæpa. Slík er þó skylda þeirra samkvæmt ákvæðum Genfarsáttmálanna sem Ísland er skuldbundið til að virða í góðri trú.
Við nýlega rannsókn undirritaðs kom í ljós að ofangreindir einstaklingar hafa verið með í ráðum við ákvörðun um að velja skotmörk árásanna sem NATÓ framdi í Serbíu. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu frá Congressional Research Service frá 8. janúar 2002 sem ber heitið: Kosovo and Macedonia: U.S. and Allied Military Operations. Höfundur skýrslunnar er Steve Bowman en hún er til sýnis á: http://www.globalsecurity.org/military/library/report/crs/IB10027_020108.pdf
(There was also criticism that command by committee hampered NATO military leaders ability to wage an effective, rapidly responsive campaign. Target lists, weapons used, and forces deployed were all subject to prior approval by all NATO governments. This slowed decisionmaking, constrained operations, and sometimes emphasized political over military considerations. However, NATO officials maintain that SACEUR received all resources requested, and emphasized that this consensual process was critical to ensuring the cohesion of the alliance.)
Sé það rétt að Halldór Ásgrímsson, einn, eða í samráði við Davíð Oddsson, hafi veitt samþykki sitt fyrir því að ráðist verði úr lofti á sjónvarpsstöðina í Belgrad, þar sem aðeins óbreyttir starfsmenn voru við störf, krefst undirritaður þess að embætti yðar hefji opinbera rannsókn á því hvort með því hafi þeir gerst sekir um aðild að stríðsglæpum eins og þeir eru skilgreindir í Genfarsáttmálunum frá 12 ágúst 1949 og í fyrsta viðauka við sáttmálana (1977), sem Ísland hefur heitið að virða í hvívetna (einkum 85. gr. viðaukans). Það eru engin undanþáguákvæði í þjóðarétti (eða í íslenskum lögum) sem heimila stríðsaðilum að drepa starfsmenn fjölmiðla, þ.e. óbreytta borgara. Umrædd árás var gerð með þeim ásetningi að þagga í sjónvarpsstöðinni. Manndrápin voru því liður í þessum ásetningi og teljast því morð.
Ættingjar fórnarlamba þessara fólskulegu manndrápa hafa án árangurs reynt að leita réttar síns. Þeir eiga rétt á skaðabótum samkvæmt þeim réttarreglum sem gilda í öllum siðuðum samfélögum. Þeir eiga rétt að vita sannleikann um árásina sem leiddi til dauða ástvina sinna, þ.m.t. nöfn þeirra manna sem heimiluðu og frömdu þessi morð. Þeir eiga rétt á því að þeir sem heimiluðu og frömdu þessi morð verði sóttir til saka. Það er skylda embætti yðar að tryggja að réttlætinu verði framfylgt, án tillits til persónulegra tengsla yðar eða starfsmanna yðar við hina ákærðu.
Undirritaður óskar að þér tækið þetta erindi til meðferðar án tafar og að hann fái að fylgjast með framvindu málsins. Verði ekki orðið við ósk undirritaðs, óskast lagalegur rökstuðningur fyrir því að árás á sjónvarpsstöðina í Belgrad hafi verið lögmæt aðgerð.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson