Opið bréf til íslenskra jafnaðarmanna
101 Reykjavík
Kæri viðtakandi,
Eftirfarandi "opið bréf til íslenskra jafnaðarmanna" var skrifað til birtingar í Alþýðubladinu vegna væntanlegs formannskjörs jafnaðarmanna. Ritstjóri Alþýðublaðsins neitaði að birta þetta bréf og reyndi þannig að misnota valdaaðstöðu sína.
Til að tryggja virðingu fyrir tjáningarfrelsi í þessu landi, bið ég þig góðfúslega að dreifa þessu bréfi til annarra á netinu.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson, tónskáld
Reykjavík, 18.10.1996
Opið bréf til íslenskra jafnaðarmanna
—————————————————
Um þessar mundir eru margir að velta fyrir sér hver eigi að verða næsti formaður jafnaðarmanna á Íslandi. Nafn Jóns Baldvins Hannibalssonar hefur verið nefnt, enda er hann enn formaður Alþýðuflokksins.
Ef til vill vita ekki margir að Jón Baldvin Hannibalsson er sakaður um aðild að refsiverðu athæfi. Undirritaður hefur farið þess á leit við embætti ríkissaksóknara að Jón Baldvin verði lögsóttur vegna meintrar aðildar að alþjóðaglæpum meðan hann gegndi embætti utanríkisráðherra. fiá undirritaði Jón Baldvin auglýsingu sem birtist í Stjórnartíðindum þann 28. apríl 1992 um áframhaldandi þátttöku Íslendinga í "viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna gegn Írak" og lögleiðingu þess hérlendis. Með einu pennastriki tryggði Jón Baldvin þátttöku Íslands í aðgerðum sem hafa þegar leitt til dauða 600 þúsund manns, þar með talið meira en 200 þúsund barna.
Sumir spyrja: Er ekki verið að hengja bakara fyrir smíð ? Eru þessar aðgerðir ekki á vegum og á ábyrgð Sameinuðu þjóðanna? Hér rugla menn aðild að samtökum Sameinuðu þjóðanna (sem getur ekki verið refsiverð i sjálfri sér) og þátttöku í aðgerðum að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna sem aðildarríkin framfylgja á eigin ábyrgð.
En eru þessar aðgerðir gegn almenningi í Írak glæpsamlegar ? Ein meginregla í rétti siðaðra þjóða er sú að ekki má refsa saklausum mönnum. Hóprefsingar eiga sér til dæmis enga stoð í réttarfari okkar og eru bannaðar í þjóðarétti. Að beita óbreytta borgara kúgun til að etja þeim gegn eigin stjórnvöldum er skilgreint sem alþjóðlegt hryðjuverk. Að svelta almenna borgara er stríðsglæpur samkvæmt ákvæðum þjóðaréttar. Viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni er því, frá lagalegu sjónarmiði, glæpsamlegt athæfi.
Og þótt þessar aðgerðir séu glæpsamlegar, ber Jón Baldvin nokkra ábyrgð í þessu máli ? Er ekki langsótt að saka hann um refsivert athæfi fyrir það eitt að undirrita eitthvert skjal ?
Önnur meginregla í réttarfari siðaðra þjóða er að bæði einstaklingar og lögpersónur bera ábyrgð á gerðum sinum. fiátttökuríki refsiaðgerðanna eru þannig bótaskyld gagnvart fórnarlömbum aðgerðanna, en einstaklingar sem heimila slíkar aðgerðir, bera persónulega refsiábyrgð á þeim, ef þær brjóta í bága við ákvæði Nürnbergsáttmálans frá 1945 og teljast alvarleg brot á Genfarsáttmálunum frá 1949 eða fyrsta viðauka þeirra frá 1977.
fiótt einræðisráðherra Íraks, Saddam Hussein, sé að flestra mati sekur um margvísleg og alvarleg brot á þjóðarétti (og umhugsunarvert að ekkert ríki hefur enn sakað hann formlega um þau), ber hann enga lagalega ábyrgð á afleiðingum aðgerða sem önnur ríki grípa til gegn írösku þjóðinni.
Hjól réttvísinnar snúast hægt. En fyrr eða síðar verða þátttakendur í glæpum gegn mannkyninu að standa skil gerða sinna. Forystumenn nasísta drápu enga með eigin hendi. fieir undirrituðu aðeins skjöl. Engu að síður voru þeir fundnir sekir og dæmdir í samræmi við það.
Íslenskir jafnaðarmenn ættu að hugleiða það í fyllstu alvöru hvort þeir telja það sér til framdráttar að velja sér til forystu einstakling sem sætir ásökun um aðild að alþjóðaglæpum.
Elías Davíðsson, tónskáld