Opið bréf til Styrmis Gunnarssonar 7.4.1992
Opið bréf til Styrmis Gunnarssonar
Elías Davíðsson / 7. apríl 1992 (birtist í DV)
Þann 3. apríl birtist í Morgunblaðinu á bls. 26 í smáfréttadálki eftirfarandi frétt:
Grjótkast á Gaza-svæðinu
Hundruð Palestínumanna réðust með grjótkasti á ísraelska hermenn á Gaza-svæðinu í gær til þess að mótmæla því að lögreglusveitir skutu fjóra Palestínumenn til bana á svæðinu í gærkvöld. Hermt var að 21 maður hefði særst í átökunum í gær og um 80 í gærkvöld.
Þessi frétt gefur tilefni til ýmissa hugleiðinga um stefnu Morgunblaðsins. Ég veit ekki hver skrifaði ofangreinda frétt. Það er stefna blaðsins að neita lesendum sínum um upplýsingar um það hverjir velja fréttirnar og hverjir semja þær.
Frá því 1982, þ.e. í tíu ár samfleytt, hefur þú, Styrmir Gunnarsson, notað valdaaðstöðu þína til að meina lesendum Morgunblaðsins að kynnast sjónarmiðum mínum. Gagnstætt sumum undirrita ég alltaf greinar mínar. Það er ekki þér að þakka að enn finnst smuga til að birta beitta gagnrýni á Íslandi. Ég er ritstjórum DV þakklátur fyrir að veita mér þennan lýðræðislega rétt.
En snúum okkur að fréttaflutningi Morgunblaðsins. Grjótkastið var til þess að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjallaði um málið (að beiðni Jasser Arafat). Ritstjórn Mbl. kaus að fela þátt Öryggisráðsins í málinu. Daginn eftir, þ.e. eftir fund Öryggisráðsins, kusu ritstjórar Morgunblaðsins að birta forsíðumynd í litum af ógnvekjandi grímuklæddum Palestínumönnum sem sögð var tekin í upphafi mótmælafundarins, sem frétt gærdagsins hafði fjallað um. Myndin og textinn sem henni fylgdi gefa hvorugt til kynna að Öryggisráðið hafi fjallað um málið né að ísraelskir hermenn hafi komið þarna nærri. Lesendur blaðsins eiga greinilega ekki að fá of mikið að vita.
Allir vita að ísraelskir hermenn eiga ekkert erindi inn í bæi, þorp og flóttamannabúðir Palestínumanna. Palestínumenn hafa ekki ráðið þá til löggæslustarfa hjá sér. Hermennirnir ráðast þangað í tíma og ótíma tl að egna Palestínumenn gegn sér og fá þannig átyllu til að skjóta þá og drepa. Það hefur ætíð verið stefna síonista að fækka Palestínumönnum og fjölga gyðingum í landinu. Palestínumenn hafa árum saman beðið um alþjóðlega vernd gegn ísraelska hernámsliðinu en Bandaríkin hafa ævinlega komið í veg fyrir hana.
Í ofangreindri frétt segir að 21 maður hafi særst í átökunum. Voru það Palestínumenn sem köstuðu grjóti hver á annan meðan ísraelskir hermenn horfðu á? Eða særðu Palestínumenn með grjóti 21 vopnaðan hermann? Eða var þetta bara hefðbundin atburðarrás sem viðgengst daglega á herteknu svæðunum og sem lsendum Morgunblaðsins er sagt sagt frá?
Leyfðu mér að lýsa fyrir þér í grófum dráttum slíka atburðarás, eins og henni er marglýst í ísraelskum dagblöðum: Ísraelskir herbílar keyra inn í palestínska bæi, þorp eða í flóttamannabúðir til að sýna vald sitt; palestínskir unglingar og börn sjá hermennina og reyna að fæla þá á brott með grjótkasti; því næst tekur liðsforinginn úr vasa sínum prentað eyðublað sem lýsir bæinn, þorpið eða flóttamannabúðirnar lokað [hernaðar]svæði, fyllir út nafn byggðalagsins og undirritar blaðið. Þessi blaði veifar hann svo framan í utanaðkomandi sjónarvotta, einkum blaðamenn, sem verða tafarlaust að yfirgefa svæðið. Átökin hefjast ekki fyr en allir utanaðkomandi sjónvarvottar hafa yfirgefið staðinn og hermenn umkringt hann. Þegar árásinni er lokið gefur talsmaður hersins hefðbundna (staðlaða) fréttatilkynningu um mannfall Palestínumanna, fréttatilkynningu sem fjölmiðlar heims endurprenta oftast gagnrýnislaust.
Því spyr ég þig, Styrmi Gunnarsson, hvort heimildarmaður Reuter sem fréttin væntanlega er eftir, hafi ekki greint frá því hver hafi sært hvern, eða var það blaðamaður þinn sem matreiddi staðreyndirnar? Hver tók myndina sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins? Fylgdist fréttamaður Reuter með átökunum? Hvar eru myndirnar af þeim ? Eða sendi hann aðalskrifstou Reuter í Lundúnum myndir sem ljósmyndari hersins tók? Hvers vegna birtir Morgunblaðið aldrei lýsingar sjónarvotta af atburðunum á herteknu svæðunum? Telur þú fórnarlömb hryðjuverka aðeins trúverðug ef þau tilheyra hinum æðri kynstofni?
Ofangreind fréttameðferð ber vott um þann markvissa ásetning ritstjórnar að fela og afbaka staðreyndir. Slíkur fréttaflutningur er augljós liður í þeirri stefnu að kynda undir fordómum gegn Palestínumönnum.
Með vinsemd