Pólitískar hleranir hægri aflanna
Árni Þór Sigurðsson
http://arnith.blog.is/blog/arnith/entry/13530/
22.5.2006
Upplýst hefur verið að stjórnvöld hafi staðið fyrir umfangsmiklum hlerunum á tímum kalda stríðsins. Fórnarlömbin eru m.a. dagblöð, verkalýðshreyfing, félagasamtök , stjórnmálaflokkar og þingmenn. Þessar uppljóstranir berskjalda pólitískt hneyksli. Ragnar Arnalds, fyrrv. formaður Alþýðubandalagsins og þingmaður til margra ára segir að rannsaka verði málið til hlítar. Kannski var einfaldlega um brot á stjórnarskránni að ræða, a.m.k. hvað varðar hleranir hjá þingmönnum.
Á hinum Norðurlöndum hefur þegar farið fram "uppgjör" vegna pólitískra hlerana stjórnvalda sem einkum beindust að stjórnmálastarfsemi á vinstri vængnum, verkalýðshreyfingu, fjölmiðlum o.s.frv. Uppljóstranir Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings sýna að hægri sinnuð stjórnvöld skirrast einskis og víla ekki fyrir sér að grípa til alls kyns óþrifaráða í þeim tilgangi að ná sínu fram. Nú vill dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, koma á fót svokallaðri "greiningardeild" hjá lögreglunni, sem að því er virðist á að vera einhvers konar hlerunardeild. Upplýsingar Guðna Th. hljóta hins vegar að vekja menn til umhugsunar um það, á hvaða leið við erum raunverulega með samfélagið. Er ekki rétt að staldra við og gera fyrst upp fortíðina, og leiða allar staðreyndir hinna pólitísku hlerana fram í dagsljósið og bæta þeim sem voru fórnarlömb miskann.