Þurfum við leyniþjónustu?
Þurfum við leyniþjónustu?
Er ríkisstjórnin með Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í broddi fylkingar að íhuga stofnun íslenskrar leyniþjónustu eða öryggislögreglu? Er þörf á slíkri starfsemi á Íslandi?
Þessar spurningar eru ekki settar fram af tilefnislausu. Í fyrsta lagi hefur ráðherrann nýlega gefið málinu undir fótinn með ræðu sem hann flutti á fundi með sýslumönnum í október en ræðan hefur verið til umfjöllunar í Ríkisútvarpinu undanfarna daga. Í öðru lagi hefur um skeið verið á kreiki orðrómur um að embættismenn dómsmálaráðuneytisins séu með markvissum hætti að skoða hugmyndina um íslenska leyniþjónustu og má segja að ráðherrann hafi að nokkru leyti staðfest það í fyrrnefndri ræðu sem lesa má á heimasíðu hans á netinu.
Til viðbótar þessu má rifja upp að fyrir tveimur árum voru bæði Sólveig Pétursdóttir þáverandi dómsmálaráðherra og Stefán Eíríksson skrifstofustjóri í ráðuneytinu með opinberar vangaveltur um nauðsyn löggjafar um starfsemi leyniþjónustu eða öryggislögreglu. Sköpuðust þá nokkrar umræður um málið á Alþingi og í fjölmiðlum.
Ákvörðun um breytingar á yfirstjórn Landhelgisgæslunnar kann að tengjast þessu máli eins og vikið verður að síðar.
Í sýslumannaræðunni 8. október síðastliðinn kom dómsmálaráðherra víða við en um svokölluð "innri öryggismál" vegna hættu á hryðjuverkum sagði hann:
"Alþjóðlegt samstarf í öryggismálum mótast að sjálfsögðu af lögum þeirra ríkja, sem eiga samstarf. Oft hefur verið á það bent, að hér á landi sé ekki löggjöf um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Sú spurning verður áleitnari með aukinni alþjóðavæðingu á þessu sviði, hve lengi er unnt að láta undir höfuð leggjast að ræða lagafrumvarp um þetta efni á alþingi".
Þessi ræða varð tilefni eftirfarandi fréttar í Ríkisútvarpinu fyrr í vikunni:
"Björn Bjarnason dómsmálaráðherra veltir fyrir sér nauðsyn á löggjöf um öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Hryðjuverkamenn gætu leitað skjóls hér á landi, að mati sérfræðinga, þó ólíklegt sé að þeir leggi til atlögu hér. Fjallað var um hryðjuverk og löggæslu í úttekt á Morgunvaktinni í morgun. Þar kom fram að stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndunum glíma við hryðjuverkaógnina og um helgina var t.d. greint frá því að danska lögreglan hefði flett ofan af glæpasamtökum í Árósum sem hefðu sterk tengsl við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin.
Heimildarmenn fréttastofu Útvarps innan stjórnkerfisins hér segja að meginhættan sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir sé sú að hryðjuverkamenn reyni að flýja hingað eða leita skjóls meðan þeir bíði eftir því að ráðast til atlögu annars staðar. Ólíklegt sé að þeir sjái íslenskt samfélag sem skotmark. Miðlun og öflun fjármuna til hryðjuverka gæti þó tengst Íslandi og fylgjast þyrfti grannt með þeim þætti málsins. Sumir innan stjórnkerfisins telja líka nauðsynlegt að setja að setja á stofn sérstaka öryggislögreglu eða en hjá ríkislögreglustjóra er þegar fyrir vísir að henni. Sérsveit lögreglu heyrir sömuleiðis undir embættið en unnið hefur verið að eflingu hennar. Þá sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á fundi með sýslumönnum fyrir skömmu að oft hefði verið á það bent að hér á landi væri ekki löggjöf um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Björn sagði að sú spurning yrði áleitnari með aukinni alþjóðavæðingu á þessu sviði hve lengi væri hægt láta undir höfuð leggjast að ræða lagafrumvarp um þetta efni á Alþingi. Hjá yfirvöldum hefur líka verið rætt um nauðsyn þess að lögregla fái meira svigrúm við rannsókn mála, með ríkari heimildum sem snúa til dæmis að handtökum og hlerunum. Bent er á að mannréttindum gæti þá verið hætta búin en ef hér yrði komið á fót sérstakri öryggislögreglu yrði hún háð innra eftirliti í stjórnkerfinu og þingnefndir gætu líka haft eftirlit með löggæslu af þessu tagi".
Fyrir rúmum tveimur árum, 11. september 2002 (dagsetningin er víst engin tilviljun), komu þessi mál til umræðu á opnum fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu. Lét Stefán Eiríksson skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu þar í ljós þá skoðun að eftirlit af því tagi sem fella mætti undir leyniþjónustustarfsei væri nauðsynlegt hér á landi. Varpaði hann fram þeirri spurningu hvort rétt væri að setja sérstök lög um efnið. Þáverandi dómsmálaráðherra Sólveig Pétursdóttir tók aðspurð í sama streng.
Málið kom til umræðu á Alþingi 6. nóvember sama ár. Sagði þá Sólveig að hún teldi ekki ástæðu til að nota orðið "leyniþjónusta" um þá löggæslustarfsemi sem verið væri að ræða um. Benti hún á að í gildandi lögreglulögum væri það talið upp sem eitt af verkefnum ríkislögreglustjóraembættisins að starfrækja rannsóknardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Væri slík deild nú starfrækt og sinnti hún meðal annars "eftirgrennslan og áhættugreiningu". Ástæðan fyrir því að málinu væri hreyft væri ekki skortur á almennri lagaheimild heldur skortur á skýrari lagaramma um starfsemina, það er "nánari útlistun á í hverju hún eigi að felast" og "hvernig haga skuli eftirliti með þessari starfsemi".
Í umræðunum lýstu stjórnarandstöðuþingmennirnir Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson yfir andstöðu sinni við hugmyndina um íslenska leyniþjónustu eða öryggislögreglu. Daginn eftir fjallaði hinn fyrrnefndi um málið á heimasíðu sinni á netinu og minnti á að lögregla væri borgaraleg stofnun en leyniþjónusta væri hins vegar á gráu svæði milli hers og lögreglu og þyrfti yfirleitt ekki að svara fyrir gerðir sínar. Í sjálfri nafngiftinni fælist viðurkenning á því að hún gæti farið leynt með sín störf. Slík leynd væri ekki holl fyrir lýðræðið.
Ljóst er að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra gerir sér fulla grein fyrir því að leyniþjónustustarfsemi vekur upp ýmsar spurningar um frelsi og réttindi. Í ræðunni hjá sýslumönnum komst hann svo að orði:
"Vandinn við þessi störf er að öðrum þræði sá, að í lýðfrjálsum ríkjum er að sjálfsögðu lögð þung áhersla á frelsi einstaklingsins og friðhelgi einkalífs hans. Hvert skref, sem þarf að stíga inn fyrir þessa friðhelgi, verður að íhuga vandlega og rökstyðja. Hér hafa orðið nokkrar umræður um álitamál, sem snerta störf lögreglu og er skemmst að minnast umræðna á síðasta þingi um heimildir lögreglu til símahlerana. Þær umræður sýndu, að grunnt er á viðleitni til að gera allar ráðstafanir í því skyni að auka virkni lögreglunnar tortryggilegar".
Hitt er líka ljóst af ræðunni að embættismenn dómsmálaráðuneytisins eru markvisst að kynna sér hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum þjóðum. Sagði Björn m.a. frá heimsókn til Bandaríkjanna í vor:
"Í maí síðastliðnum fórum við nokkrir úr dómsmálaráðuneytinu og ríkislögreglustjóri til Washington til að ræða við ráðamenn þar um þessi mál [þ.e. viðbrögð við hryðjuverkaógninni] og fræðast af eigin raun um stefnu Bandaríkjastjórnar. Eftir þá ferð er ég betur sannfærður en áður um þá alvöru, sem fylgir stefnubreytingu Bandaríkjanna í öryggismálum eftir árásina miklu 11. september 2001".
Fram kom í viðtali við dómsmálaráðherra í Ríkisútvarpinu í gær, miðvikudaginn 24. nóvember, að frumvarp um íslenska öryggislögreglu eða leyniþjónustu hefði ekki verð samið í ráðuneytinu. Málið í heild væri til athugunar.
Heyrst hefur að nýleg breyting á yfirstjórn Landhelgisgæslunnar kunni að tengjast þessari athugun sem í gangi er. Heimildarmenn Vísis.is segja að yrði sérstök öryggislögregla eða leyniþjónusta sett á fót á grundvelli lagaheimildar yrði hún líklega ekki vistuð innan embættis ríkislögreglustjóra (þar sem vísir að henni er þegar fyrir hendi eins og fyrr segir). Ástæðan er sú að verkefni slíkrar stofnunar mundi skarast á við verkefni annarra sjálfstæðra stofnana, ekki síst embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Einhver togstreita mun vera á milli þessara tveggja embætta. Annað hvort yrði hin nýja stofnun því sjálfstæð eða vistuð hjá þriðja aðila. Og sá aðili gæti verið Landhelgisgæslan sem í leiðinni fengi ef til vill endurskoðann lagagrundvöll til að starfa eftir.
Björn Bjarnason ætlar að ráða nýjan yfirmann Landhelgisgæslunnar og á hann að taka til starfa um áramótin. DV hefur nefnt nafn Arnórs Sigurjónssonar í því sambandi. Hvort sem hann verður fyrir valinu eða ekki er ljóst að það er maður með svipaða menntun og bakgrunn og Arnór sem fær starfið.
En þurfa Íslendingar leyniþjónustu? Segja má að til að svara þeirri spurningu þurfi frekari upplýsingar um þær hættur sem stjórnvöld telja að fyrir hendi séu og jafnframt nákvæmari upplýsingar um það hvernig nágrannaþjóðirnar haga þessum málum. Mikilvægt er að ekki verði hrapað að framkvæmdunum heldur málið kynnt og rætt með opinskáum hætti. Með öllu væri óþolandi að leyniþjónustu yrði "smyglað inn bakdyramegin".
Hvað ætli fólki finnist? Hvernig mun það bregðast við? Um það vitum við svo sem ekkert – enda má kannski segja að óljóst sé um hvað málið snúist nákvæmlega – en hitt sýnir reynslan að þjóðinni er illa við allt pukur og leynimakk. Trúi ráðamenn því að hér þurfi að setja á stofn öryggislögreglu vegna hryðjuverkaógnar ættu þeir að leggja spilin á borðið gagnvart almenningi. Það er ekki nóg að tala um þessi mál við sýslumenn og lögreglumenn. Það þarf að tala beint við þjóðina.
Guðmundur Magnússon – gm@frettabladid.is