Ríkjandi trúarbragð heims og viðbrögðin
Elías Davíðsson
Ríkjandi trúarbragð heims
Predikun 20. maí 2007 á Degi kirkjunnar í Kálfatjarnarkirkju.
Ég er þakklátur fyrir að mega deila með ykkur vangaveltur um samtímann, um frið, um réttlæti og um sannleika. Kirkjan er rétti staðurinn til að hugleiða þessi gildi.
Siðferðiskreppa okkar daga
Við búum í dag við siðferðiskreppu. Þessi kreppa einskorðast ekki við okkar þjóð. Ekki aðeins við okkur Vesturlandabúa, heldur við heiminn allan. Kreppan getur annaðhvort leitt til tortímingar mannlegs lífs eða til velferðar fyrir allt mannkynið. Auðhyggjan, sem er ríkjandi trúarbragð nútímans og felur í sér skurðgoðadýrkun, tröllriður samfélögum um allan heim og grefur undan réttlæti, sannleika, heiðarleika, umhyggju, samvinnu, samstöðu, nægjusemi, ábyrgð og kærleika. Okkur er sagt að til að ná árangri í lífinu þurfum við að verða eigingjörn, gráðug, metnaðarfull og ófeimin við að blekkja og selja ímynd af okkur sjálfum. Okkur er jafnvel kennt að lita á annað fólk sem hættulega samkeppnisaðila. Við, sem komin eru til ára okkar, búum enn við mótefni gegn þessum kenningum, en hvað verður með börnum okkar, og barnabörnum? Sættum við okkur við það að markaðsöflin innræti þau slíkum viðhorfum?
Það er í okkar valdi hvort við bregðumst við þessari þróun eða hvort við eftirlátum boðendum auðhyggjunnar að vinna skemmdarverk í friði.
Vandinn sem blasir við okkur er ekkki nýr. Frá fornu fari hafa stórmenni varað við því að dýrka Gullkálfinn. Við getum sótt styrk til stórmenna sögunnar, til spámanna gamla testamennsins, til Jesús og lærisveina hans, til Erasmus frá Rotterdam, og til annarra mannvina frá ýmsum tímum, sem óttuðust ekki að segja valdinu til syndanna og boðuðu réttlætið. Gildin sem þeir hafa boðað eru ekki mörg en þau geta veitt hverjum og einum styrk til að lifa af verstu hörmungar.
Friður, ekki án réttlætis
Skoðum nokkur helstu manngildin og hvernig þau tengjast innbyrðis. Byrjum á friðarboðskap. Það vilja allir að friður ríki á jörðu: Ísraelar, Palestínumenn, Írakar, Íranar, Bandaríkjamenn, Rússar, Kínverjar. Allir. Þrælahaldari vill líka frið, frið til að halda stöðu sinni. Honum er illa við þá sem kenna þrælum sínum um mannréttindi. Hann vill ekki að þeir kynnist mannréttindahugsjón, hann óttast uppreisn. Hann vill frið. Forréttindafólk er alltaf hlynnt friði, þ.e. stöðugleika, þ.e. óbreytt ástand.
Við Íslendingar erum forréttindafólk. Við höfum nýlega rekið úr landi nokkra fátæka harmóníkuleikara. Þetta fólk ógnaði engum. Þvert á móti. Það gladdi borgarana með spilamennsku í von um að fá nokkrar krónur til að kaupa sér brauð. En nærvera þessa fólks truflaði innra frið okkar Íslendinga. Örbirgð þessa fólks minnti okkur á ranglæti sem við viljum helst ekki sjá. En getum við öðlast frið með því að loka augun og þykjast ekki sjá og heyra?
Spámaðurinn Jesaja sagði að forsenda fyrir friði væri réttlæti. Deilu Ísraela og Palestínumanna er unnt að leysa ef réttlætið er haft í fyrirrúmi. Átök í mörgum Afríkuríkjum væri unnt að stöðva ef íbúum Afríku yrðu tryggð grundvallar mannréttindi sem við teljum sjálfsögð, s.s. aðgang að hreinu vatni, fæði, húsnæði, menntun og heilsuþjónustu. En það er enginn vilji meðal ráðamanna heims til að tryggja Afríkubúum þessi réttindi. Auðstéttir Vesturlanda hagnast mun meira af hergagnaframleiðslu en af því að láta grafa vatnsbrunna eða reisa skóla í Afríku.
Alusuisse, sem áður fyrr rak hér álverið í Straumsvík, hefur um áratugaskeið flutt út óunnið báxít frá einu fátækasta Afríkuríki, Sierra Leone. Þetta svissneska fyrirtæki gerði enga tilraun til að stuðla að efnahagsþróun þessa fátæka ríkis, t.d. að byggja þar áliðnað. Það taldi sér hagkvæmara að skipta framleiðsluferlinu milli ýmissa ríkja og fela hagnað sinn bak við pappírsfyrirtæki í Karíbahafinu. Það vill svo til að eitt hrottalegasta borgarastríð í Afríku geisaði einmitt í Sierra Leone. Heiftin var svo mikil að jafnvel börn tóku þátt í hrottalegum misþyrmingum. Nú er verið að rétta í máli barnanna og annarra ólánsmanna sem unnu hroðaverk í Sierra Leone, en þeir svissnesku auðmenn sem hafa mútað ráðamönnum Sierra Leone og viðhaldið vanþróun þessa lands þurfa ekki að óttast réttarhalda.
Það er rétt að fullkomið réttlæti finnst aðeins í ríki Guðs, en við, mannsbörn, verðum bæði að vera réttlát og koma í veg fyrir ranglæti af völdum annarra.
Jesaja hafði m.a. þetta að segja:
Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð. (Jes. 58)
Þetta voru orð Jesaja, spámanns.
Það er greinilegt að vilji Guðs, eins og kirkjan boðar, hafi verið sá, að allir geti setið við gnægtaborðið, ekki aðeins þeir sem geta keypt sér veislumat, að Guð vildi ekki mismuna milli barna sinna. Þessi hugsjón er ekki aðeins leiðarljós kristinna manna, heldur einnig draumur flestra jarðarbúa.
Fátækt og ríkdæmi
Við vitum í dag að boðskapur kærleikans takmarkast ekki við nærtæk góðverk. Þess vegna styðjum við líka bágstadda í öðrum löndum sem við höfum aldrei séð og munum aldrei sjá. En slík aðstoð er aðeins gagnleg ef við fylgjum henni eftir með því að skapa alþjóðlega samstöðu fyrir réttláta heimsskipan. Auðstéttir heimsins reyna hins vegar að etja launafólki Vesturlanda gegn launafólki í Asíu, kristnum þjóðum gegn múslímum, gyðingum gegn aröbum. Að deila og drottna er gamalkunn aðferð valdastétta. Samstaða auðstéttanna birtist á fundum sem haldnir eru fyrir luktum dyrum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans og Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, eða á leynifundum Bilderbergsamtakanna. Alkirkjuráðið hefur í mörg ár tekið upp málstað fátækra þjóða í viðureign þeirra við þessar stofnanir og á þakkir skilið. Það hefur líka beitt sér innan Sameinuðu þjóðanna fyrir auknum efnahagslegum og félagslegum réttindum, í andstöðu við stefnu auðstéttanna að viðurkenna ekki slík réttindi. Kristnir menn í hverju landi ættu fylgjast grannt með það sem stjórnvöld sín gera innan þessara stofnana.
Við vitum flest að meirihluti mannkynsins býr við fátækt og að um fimmti hluti jarðarbúa býr við sára fátækt, þ.e. við ómannúðlegar aðstæður. Fátt bendir til þess að sú staða muni batna í náinni framtíð. Stærstu matvælafyrirtæki heims reyna að opna markaði í Afríku og leggja þannig landbúnað Afríkumanna í rúst. Auðmenn heimsins hafa engan áhuga að jafna kjör heimsbúa. Fámenn hópur auðkýfinga á meiri auðæfi en allir íbúar Afríkuálfunnar til samans. Stjórnmálamenn flestra ríkja telja æskilegt að auka enn frekar bilið milli hinna ríku og hinna fátæku, enda eru flestir stjórnmálamenn fulltrúar hinna ríku. Þetta gildir einnig um Ísland.
Íslenskir auðmenn greiða aðeins 10 prósent skatt af arðgreiðslum og öðrum fjárhagstekjum sínum meðan launafólk er látið greiða allt að 40 prósent skatt af vinnutekjum sínum. Þetta fyrirkomulag tryggir að hinir ríku verða ríkari með hverju ári sem liður. Flestir alþingismenn styðja þetta ranglæti. Einn íslenskur auðkýfingur græddi nýlega 66 milljarða króna með því að selja hlutdeild í fyrirtæki sínu í Búlgaríu eftir að það hafi fækkað starfsmönnum frá 24 þús. í 10 þús. manns. Höfum við hugleitt hvað fer fram í huga þeirra 14 þúsund fjölskyldna í Búlgaríu sem misst hafa fyrirvinnu ? Hvað finnst þeim um samstöðuleysi okkar Íslendinga? um þögn okkar? En þögnina er hægt að kaupa. Við vitum hins vegar að þessi sami auðkýfingur notar lítinn hluta af hagnaði sínum til að styrkja íslenska listamenn og vinveitta stjórnmálamenn. Þannig kaupir hann þögnina.
Sannleikurinn
Og þá kem ég að einu gildi til viðbótar: Sannleikanum.
Ranglætinu er ekki hægt að viðhalda nema með pukri og blekkingum. Þess vegna er ekki greint frá þeim aðferðum sem íslenskir útrásarmenn beita í fjarlægum löndum til að múta stjórnmálamönnum og kaupa eða selja fyrirtæki. Pukur og blekkingar fylgja alltaf ranglætinu.
Ranglætinu er ekki hægt að útrýma með vopnavaldi. Né með öðru ranglæti. En það er til vopn gegn ranglætinu. Það er sannleikurinn. Sannleikurinn er vopnið sem stríðsherrar og auðmenn óttast mest.
Sannleikurinn er forsenda fyrir réttlæti og réttlæti er forsenda fyrir friði. Það væri óskandi að við gætum, með því að greiða atkvæði á fjögurra ára fresti, treyst trúnaðarmönnum okkar á Alþingi til hafa sannleikann að leiðarljósi. En slík vænting er óskhyggja. Stjórnmálamenn þjóna fyrst og fremst eigin hvötum og hagsmunum flokka sinna. Þeir freistast því oft til að hagræða sannleikanum eða fela hann. Höfum við gleymt blekkingunum sem ráðamenn Vesturlanda beittu til þess að réttlæta stríðið gegn Írak? eða stríðið gegn Afganistan? Eða stríðið gegn Serbíu? Ósannindin voru lyklarnir sem opnuðu dyrnar að þessum árásarstríðum. Öll stríð byrja með ósannindum og blekkingum.
Blekkingarherferð og svar kirkjunnar
Eftir 11. september 2001 hófu ráðamenn Vesturlanda kerfisbundna blekkingarherferð til að vara okkur við heimssamsæri hryðjuverkahópa múslíma. Samsærinu gáfu þeir nafn: Al Qaeda. Sú herferð líkist talsvert þeim áróðri sem nasístaflokkurinn beitti gegn gyðinum og endaði með útrýmingarbúðum. Nasístar útbreiddu þá sögu að gyðingar stæðu að samsæri til að ná heimsyfirráðum. Þess vegna yrðu nasístar að beita öllum ráðum til að útrýma þessari ógn. Markmið nasísta var að sameina þjóðina gegn óvini sínum gyðingum, réttlæta aukin útgjöld til hernaðar og réttlæta árásir á önnur ríki. Þegar grannt er skoðað, kemur í ljós að NATO-ríkin hafa sömu markmið: Að sameina Vesturlöndin í baráttu gegn heimssamsæri múslíma, að réttlæta aukna hervæðingu, að réttlæta aukið eftirlit með borgurunum og að réttlæta árásir á önnur ríki, helst þar sem olía og gas er að finna. Hatursherferðin gegn múslímum birtist með stöðugum fréttum um meint hryðjuverk sem múslímar hyggjast fremja gegn okkur og með kvikmyndum sem lýsa múslímum sem undirförlum og ofbeldissjúkum einstaklingum.
Leiðtogar flestra kirkna hafa fordæmt áróður gegn múslímum en sú herferð heldur samt áfram með velþóknun stjórnvalda allra Vesturlanda. Sú kenning að okkur stafi hætta af heimssamsæri múslíma er tilhæfulaus. Að deyja af völdum hryðjuverka er ein af ólíklegustum dánarorsökum. Það eru meiri líkur að deyja af völdum eldinga eða slöngubita en í höndum hryðjuverkamanna. Í fyrra dó til dæmis ekki einn einasti maður í allri Evrópu af völdum hryðjuverka. Fjölmiðlar hafa viljandi þagað yfir þessum tölum. Þeir og stjórnmálamenn fylgja þeirri stefnu NATO og Bandaríkjanna að viðhalda ótta almennings við hryðjuverkum múslíma. Sú blekking er hagkvæm fyrir suma en banvæn fyrir aðra.
Hvað getum við gert?
Siðferðiskreppan sem herjar á okkur hefur þegar leitt til mikilla hörmunga og gæti leitt til heimsstyrjaldar ef leiðtogum Vesturlanda tekst ætlunarverk sitt að espa Hvíta manninn gegn þorra jarðarbúa. Hvað getum við gert til að bregðast við þessari ógn? Getum við yfirhöfuð ráðið við henni? Er ekki við ofurafl að etja?
Til að byrja með, skulum við alltaf minnast Jesús Krists. Hann var einn þegar hann hóf göngu sína. Jesús batt enga von um, að hann aleinn myndi frelsa allt mannkynið úr ánauð og hungri. Hann sáði fræ. Við skulum halda áfram að útbreiða þessi fræ og rækta viðkvæmu blómin sem vaxa úr þessum fræjum.
Mig langar líka að minnast á nokkrar hagnýtar tillögur sem eru á færi hvers manns.
Það er á okkar valdi að brýna okkur gegn blekkingum stjórnmálamanna, auglýsenda, sérfræðinga í almannatengslum og fjölmiðlafólks. Athugum til dæmis hvernig orð eru notuð og misnotuð í áróðursskyni, hvaða upplýsingum er hampað og ekki síst hverju er falið frá okkur, hverjir eru heimildarmenn að baki upplýsingunum og hvort sértækir hagsmunir eru að baki saklausum upplýsingum. Lærum að verja okkur og börn okkar gegn blekkingum.
Það er líka á okkar valdi að nýta okkur áunnin réttindi. Við eigum t.d. lagalegan rétt til að fá upplýsingar frá stjórnvöldum um ákvarðanir sem teknar eru í okkar nafni. Stjórnvöld eru alténdis launþegar okkar. Launþegum er skylt að gera grein fyrir störfum sínum við husbændur sína, þ.e. við þjóðina. Við skulum ekki liða pukur þeirra t.d. þegar þeir neita að greina frá forsendum fyrir stuðningi Íslands við stríð.
Og meðan við búum enn í tiltölulega frjálsu samfélagi, ættum við ekki að hika við að mótmæla opinberlega ranglæti og blekkingum. Með því að gera það, veitum við samborgurum okkar gott fordæmi og aukum hugrekki þeirra til að standa uppréttir.
Lokahvatning
Það er margt margt fleira sem ég hefði viljað minnast á, en læt það gott heita í dag. Ég tel rétt að ljúka orðum mínum með viðeigandi ljóði eftir Þorstein Valdimarsson. Ljóðið heitir Þú veist í hjarta þér en Þorsteinn samdi einnig fallegt sálmalag við ljóðið.
Þú veist í hjarta þér kvað vindurinn
Að vegur drottnarans er ekki þinn,-
hann er þar sem gróandaþytur fer
og menn þerra svitann af enni sér
og tár af kinn.Þú veist í hjarta þér kvað vindurinn
að varnarblekkingin er dauði þinn.
Engin vopnaþjóð er að vísu frjáls,
og að vanda sker hún sig fyrr á háls
en óvin sinn.Þú veist í hjarta þér kvað vindurinn,
að vald og ríki er ekki manngrúinn.
Hvað þarf stóra þjóð til að segja satt
til að sólarljóð hennar hljómi glatt
Í himininn.
Guð blessi ykkur öll og veiti ykkur styrk og birtu. Amen.
Predikun 20. maí 2007 á Degi kirkjunnar í Kálfatjarnarkirkju